Lárpera eða avókadó (fræðiheiti: Persea americana) er ávöxtur af lárperutréi sem á uppruna sinn að rekja til Mexíkó. Lárperur hafa verið ræktaðar í mörg þúsund ár og innihalda mikið af hollum fitum sem vernda hjarta og augu og koma í veg fyrir blóðtappa og ýmsar tegundir af krabbameini. Einnig innihalda lárperur mikið af vítamínum og steinefnum. Erfitt er að neita því að guacamole er himneskt en til eru fleiri leiðir til að nýta lárperur. Veldu þroskaðar lárperur og vertu viss um að fjarlægja húðina og fræin. Best er að velja lífrænar lárperur. Nýttu þér hugmyndirnar hér að neðan til að sjá lárperur í nýju ljósi.

1. Andlitsmaski
Lárperur innihalda kalíum, járn, kalk, natríum, kopar, magnesíum og A, B, E og K vítamín – allt sem þarf til að húðin fái raka og viðhaldi teygjanleika. Blandaðu saman ½ lárperu með 3 teskeiðum af heitu vatni og 1 teskeið af hunangi. Best er að bera maskann á andlitið með puttunum og mikilvægt er að forðast augn- og munnsvæði. Leyfðu maskanum að leika um húðina í um það bil 12 mínútur og þvoðu svo maskann úr andlitinu.

2. Grænn smoothie
Lárperu smoothie er frábær leið til að kæla sig niður á sumrin. Gott er að setja hálfa lárperu í blandarann, hálft epli, 1/3 bolli af lífrænni léttmjólk, örlítið vatn, 2 teskeiðar af hunangi eða hlynsírópi og 1 bolli af klökum. Njóttu vel!

3. Lárperu mjólkurhristingur
Þessi mjólkurhristingur er gífurlega vinsæll í mörgum Asíulöndum. Einnig eru aðrir drykkir sem innihalda sæta niðursoðna mjólk (á ensku: condensed milk) mjög vinsælir. Slepptu dósaútgáfunni af niðursoðinni mjólk og búðu til þína eigin. Blandaðu 1 ½ bolla af lífrænni nýmjólk saman við ½ bolla af lífrænum sykri og hitaðu á pönnu við miðlungs-lágan hita. Þegar gufa fer að myndast lækkaðu þá hitann eins mikið og hægt er og hitaðu í 2 klukkustundir eða þangað til vökvinn minnkar um helming. Ekki gleyma að hræra af og til. Bættu við 3 teskeiðum af smjöri og 1 teskeið af vanillu og leyfðu vökvanum að kólna. Nú ætti allt að vera tilbúið fyrir mjólkurhristinginn. Settu eina lárperu í blandarann og bættu við einum bolla af heimatilbúinni sætri niðursoðinni mjólk, ½ teskeið af vanilludropum og handfylli af klökum.

4. Einfalt lárperusalat
Salöt gerast ekki einfaldari en þetta og lárperan útvegar skálina undir salatið! Skerðu lárperu í tvennt (þannig að þú ert með tvo helminga sem líta út eins og skálar þegar búið er að fjarlæga kjarnann). Þannig ertu komin með tvær skálar undir salatið. Helltu uppáhalds salatdressingu þína í “skálarnar”, ítölsk dressing eða jafnvel bara ólífuolía og balsamik edik passa vel við þetta salat. Að nota lárperu helmingana sem skálar opnar fyrir alls konar möguleika. Þú getur fyllt þær af uppáhalds tófúinu þínu, túnfisk, hummus eða hvað sem þér dettur í hug.

5. Handáburður
Í hvert skipti sem þú matreiðir lárperu þá er algjör óþarfi að þvo hendurnar til að losna við græna “jukkið”. Nuddaðu því inn í hendurnar og þurr svæði og láttu bíða í um 1 mínútu. Nýttu þér eiginleika lárperunnar til að græða og mýkja húðina.

6. Köld lárperusúpa
Köld lárperusúpa er tilvalin sem forréttur eða sumarmáltíð. Bættu eftirfarandi í blandara: 3 lárperur, 1 bolli af lífrænu kjúklingasoði, ½ teskeið af laukkryddi, 1 teskeið af salti og ¼ teskeið af hvítum pipar. Blandist saman þangað til blandan er orðin mjúk og kremuð. Bættu við 1 bolla af matreiðslurjóma. Látið kólna í 3-4 klukkustundir. Rétt áður en súpan er borin á borð er gott að bæta við 1 teskeið af sítrónusafa og strá fersku kóríander yfir súpuna.

Birt:
Sept. 9, 2011
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „Lárperur í nýju ljósi“, Náttúran.is: Sept. 9, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/09/09/larperur-i-nyju-ljosi/ [Skoðað:April 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: