Kartöflur steiktar á pönnu
Kartöfluþýskararnir í Danmörku ristuðu smáar kartöflur í salti á þungri pönnu. Þetta getur verið gaman að gera uppi í sumarbústað á kabyssunni á haustin þegar verið er að taka upp. Frakkar steikja nýtt smælki í fitu á pönnu þangað til það er gulbrúnt og bakað í gegn.
„Það er líka ljúffeng fæða að steikja þau (jarðeplin) í feiti með allskonar kjöti. Til þessa, sem nú er talið, eru einkum hin smærri brúkuð.“ Úr Gesti Vestfirðingi 1849.
Oftast, þegar verið er að pönnusteikja kartöflur, eru þær þó skornar í sneiðar eða raspaðar gróft á pönnuna. Í sumum uppskriftum, eins og þegar um er að ræða svissneskt rösti, eru þær forsoðnar. Fyrir Írskt boxty skal raspa hráar kartöflur gróft, en fyrir hash browns skera þær í sneiðar - Þetta eru þekktir réttir í heimalöndunum og fólk minnist þess hvernig þetta bragðaðist hjá ömmu og heldur fast í sína uppskrift.
Úr „Blálandsdrottningin og fólkið sem ræktaði kartöflurnar“ eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Kartöflur steiktar á pönnu“, Náttúran.is: Sept. 19, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/09/20/kartoflur-steiktar-ponnu/ [Skoðað:Sept. 13, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Sept. 20, 2011
breytt: Sept. 26, 2012