Í matjurtagarðinum er mælt með því af reyndum lífrænum ræktendum að hylja moldina milli plönturaða með þekju, gjarnan jurtakyns. Þetta var illmögulegt hér á landi áður en tætararnir komu til sögunnar. Þekjur örva góðkynja lífverur og halda raka í moldinni, minnka vind- og vatnsrof, halda arfa og illgresi verulega í skefjum og spara vökvun. Eymundur Magnússon í Vallanesi, sá mikli ræktandi, hefur mælt með því að tæta niður lúpínu í þessum tilgangi. En nota má hvaðeina, svo lengi sem það er ekki fræberandi og sáir sér. Gróðurskýlan brotnar smám saman niður og sameinast moldinni á haustin.

Fínan sand má setja milli gulrótaraða ef auðvelt er að nálgast hann. Þekjuna skal ekki setja fyrr en jörðin er orðin hlý á vorin og aðeins þegar moldin er vel rök og hún má ekki vera svo þykk að lofti ekki í gegn. Gott er að hafa fjölbreyttan áburð, líka þann lífræna, því plöntur hafa mismunandi þarfir. Ef garðurinn hallar móti suðri ná sólargeislarnir miklu betur að skína á hann. Þegar farið var að rækta grænmeti hér á landi á 18. öld veltu menn, sem eðlilegt er, jarðvegi mikið fyrir sér. Einn þeirra fyrstu sem lærðu svolítið til garðyrkjustarfa var séra Bjarni Arngrímsson á Melum og það var hjá erlendum garðyrkjumanni sem var í þjónustu stiftamtmanns Levetzau á Bessastöðum. Bjarni þakkar þeim „ ... þá fyrstu þekkingu og þau handtök, þó ófullkomið sé, sem honum síðan hafi notast í matjurtarækt ... Ræktunarmold skal vera brún eða svartlifrauð á lit, laus, þvöl og mjúk átektum, beisksæt að smekk og þá jörð er vissast að finna þar góð grasrækt er í hallendi sunnan.“ Bjarni skrifar þetta 1820 og merkilegt að enn skyldu menn nota bragðskynið til að meta ástand jarðvegsins. Sumir mynda djúp tilfinningaleg tengsl við moldina og kyssa jafnvel fósturjörðina eftir langa fjarvist eða útlegð.

Sögur hef ég heyrt um mold eða jurtir frá heimahögunum sem hafa fundist, geymdar í skókassa, undir rúmum gamalla kvenna, sem aldrei hafa sætt sig við að vera rifnar upp með rótum og þurfa að flytjast á ókunnar slóðir. Mér fannst huggunarríkt er verið var að ræða um jarðarför móður minnar og eitt barnið harðneitaði að sitja heima og – missa af því þegar langamma yrði gróðursett. Af moldu erum við komin ...

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. 

Mynd: Ung lúpína. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
May 28, 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Lífræn gróðurskýla“, Náttúran.is: May 28, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/07/lfrn-grurskla/ [Skoðað:Oct. 13, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 7, 2007
breytt: May 31, 2014

Messages: