Stofnfundur Geitfjárseturs verður haldinn þriðjudaginn 19. apríl í Friðarhúsinu, Njálsgötu 87, kl 17.30.

Jóhanna B. Þorvaldsdóttir í Háafelli, á Hvítársíðu, hefur sl. 20 ár ræktað upp íslenska geitastofninn en hann var fyrst fluttur hingað til lands með landnámsmönnum en síðan hafa geitur ekki verið fluttar til landsins, þ.e. í 1100 ár. Stofninn telur í dag aðeins um 500 dýr, sem er trúlega einn minnsti einangraði geitastofn heims og er hann því í bráðri útrýmingarhættu.

Geitin er talið elsta nytjadýr mannsins en geitamjólk er mest nýtta mjólk til manneldis í heiminum. Á vesturlöndum hefur kúamjólkin reyndar rutt sér til rúms en svo er ekki víðast hvar annars staðar í heiminum. Geitamjólk hentar mun betur fyrir mannfólkið en hún er auðmeltari og mun minni hætta er á óþoli af völdum hennar en kúamjólkur. Geitamjólk er sérlega góð fyrir ungabörn sem ekki njóta móðurmjólkar.

Jóhanna B. Þorvaldsdóttir hefur næsta ein og óstudd staðið fyrir ræktun og viðhaldi stofnsins með miklum glæsibrag á síðustu 20 árum en nú þarf samhent átak til þess að varðveita og efla geitastofninn í landinu sem er elsta geitakyn sem fyrirfinnst í Evrópu. Geitfjársetri er ætlað að koma íslensku geitinni til bjargar. Það verður staðsett að Háafelli í Hvítársíðu og mun því ætlað að vera heimili íslensku geitarinnar um ókomin ár. Á Háafelli mun bráðlega verða sett upp aðstaða til að taka á móti almenningi sem hefur áhuga á því að kynnast geitinni í heimkynnum hennar. Einnig er markmiðið að framleiða geitaost á staðnum og aðrar afurðir verða einnig í boði. Stofnun Geitafjárseturs er mikilvægur liður í því að hlúa að geitarstofninum og starfi Jóhönnu B. Þorvaldsdóttur.

Geitfjársetur hefur lengi verið á teikniborðinu. Sjá grein frá 21. maí 2008.

Ljósmynd: KIðlingur, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
April 17, 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Geitfjársetur í burðarliðnum“, Náttúran.is: April 17, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/04/17/geitfjarsetur-i-burdarlidnum/ [Skoðað:June 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 30, 2011

Messages: