„Lífræn ræktun getur séð heiminum fyrir nægri og næringarríkari fæðu.“

Lífrænar aðferðir eru í sókn um allan heim, ekki síst í viðskiptalöndum okkar. Þær eru byggðar á gríðarlegri reynslu og vísindarannsóknum. Stjórnvöld Evrópuríkja skynja framlag þeirra til umhverfisverndar, heilbrigðis og fæðuöryggis með virkum stuðningi við fræðslu, rannsóknir og þróunarstarf. Stofnanir í þágu landbúnaðar endurmeta starfsemi sína svo þær fái þjónað lífrænni ræktun. Á sama tíma birta tveir starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands hverja greinina á fætur annarri gegn lífrænum aðferðum, nú síðast í Mbl 15. nóv. þar sem alþingismenn eru tuktaðir fyrir að álykta um grænt hagkerfi með áherslu á lífræna þróun.

Grein Áslaugar Helgadóttur og Guðna Þorvaldssonar er skreytt flöggum vísinda og fortölum um ágæti alls sem kalla má tækninýjungar. Gildir þar einu hvort rætt er um tilbúinn áburð, eiturefni, erfðabreyttar lífverur eða notkun ræktunarlands til orkuframleiðslu – sem hvert um sig sligast nú undan vísindalegum vitnisburði um ósjálfbærni og óheyrileg útgjöld. Á sama tíma hleðst upp vísindaleg þekking á fjölþættum kostum lífrænna aðferða. Í hugum þeirra Áslaugar og Guðna er allur slíkur vitnisburður „hjávísindi“.

Skýrslur sem draga saman niðurstöður margra rannsókna gefa oft mjög villandi mynd af mögulegri uppskeru í lífrænni ræktun þegar til lengri tíma er litið. Í 30 ára rannsókn bandarísku Rodale stofnunarinnar var uppskera maís, soja og hveitis sambærileg í lífrænni og hefðbundinni ræktun. Því lengur sem lífrænar aðferðir voru notaðar þeim mun frjósamari varð jarðvegur og uppskeran meiri. En uppskera hefðbundinnar og erfðabreyttrar ræktunar minnkar með tímanum sakir ónákvæmni erfðatækninnar, einhæfni ræktunar og notkunar tilbúins áburðar og eiturefna. Uppskeru þarf að greina á grundvelli sjálfbærni, eða magn af flatareiningu í hlutfalli við aðföng (áburð o.fl.). Þar hafa lífrænar aðferðir vinninginn. Þar að auki ber að meta losun gróðurhúsalofttegunda í hlutfalli við uppskeru, en rannsóknir sýna að jarðvegur bindur meira kolefni í lífrænni ræktun.

Í umræðu um lífrænan landbúnað er sú forsenda oft gefin að auka verði jafnt og þétt framleiðslu matvæla og fóðurs vegna fjölgunar íbúa og búfjár. Þó er talið að hægja muni á fólksfjölgun einkum þegar nær dregur miðri öldinni. Einnig er talið að þó neysla búfjárafurða kunni að aukast um hríð í þróunarlöndum vaxi neysla jurtafæðis ört í öðrum heimshlutum. Mat á framtíðar fæðuþörf er oft byggt á ríkjandi neysluháttum þróaðra landa þar sem nær þriðjungur matvæla fer til spillis og á ofneyslu sem draga þarf úr til þess að takast á við menningarsjúkdóma, t.d. offitu. Lífræn ræktun getur séð heiminum fyrir nægri og næringarríkari fæðu. Vaxandi neysla jurtafæðis, minni sóun matvæla og aukin hófsemi í neyslu munu auðvelda það verkefni til framtíðar.

Reynt er að telja okkur trú um að lítil og meðalstór lífræn bú með fjölþætta framleiðslu séu gamaldags og óhagkvæm. Rannsóknir sýna þó að ef litið er til heildar framleiðslu (í stað uppskeru tiltekinnar tegundar) er framleiðni smærri fjölræktarbúa meiri en stærri og sérhæfðra búa, svo nemur tugum prósenta. Í nýrri skýrslu viðskipta- og þróunarráðstefnu SÞ eru greind 114 dæmi þar sem upptaka lífrænna eða sambærilegra aðferða jók framleiðni um yfir 100% og bent á að lífrænar aðferðir muni auka fæðuöryggi. Í skýrslu rannsóknarverkefnis Alþjóðabankans og FAO um þekkingu, vísindi og tækni í landbúnaði (IAASTD 2003-2008) er eindregið mælt með eflingu vistfræðilegra aðferða til að leysa brýn umhverfismál og auka um leið framleiðni. Þar er bent á hvernig staðbundin þekking geti nýst til að auka líffræðilega fjölbreytni og bæta jarðveg, vatnsbúskap, varnir gegn meindýrum og hæfni til að bregðast við umhverfisvá (t.d. loftslagsbreytingum).

Miguel Altieri próf. við Kaliforníuháskóla, sem kunnur er af störfum fyrir SÞ, telur lífræn smábú, rekin í samræmi við vísindi landbúnaðarvistfræða, vera best til þess fallin að tryggja svæðisbundið fæðuöryggi. Hnattvæddur verksmiðjubúskapur háður erfðabreyttri sáðvöru hefur aukið notkun eiturefna og tilbúins áburðar og gert bændur háðari einræktun fárra tegunda. Það hefur valdið ómældu umhverfistjóni, rýrt líffræðilegan fjölbreytileika og næringargildi matvæla, skert hag bænda og þjappað auknu valdi í hendur fjölþjóða fræfyrirtækja. Altieri telur landbúnað byggðan á fjölræktun (búum sem rækta margar tegundir) og staðþekkingu bænda verða drýgra mótvægi við loftslagsbreytingar. Hann sé sjálfbærari því hann noti tíðum náttúruleg fræyrki, sem þola betur álag af völdum loftslags, vaxa vel við misjöfn skilyrði jarðvegs og veita góða uppskeru án efnanotkunar, uppskeru sem þolir ólíkar geymsluaðferðir.

Ályktun um eflingu græns hagkerfis er eitt helsta framlag Alþingis til umhverfismála á þessu kjörtímabili. Áhersla hennar á lífræna þróun er í rökréttu samhengi við aukna vísindaþekkingu og rannsóknir á sjálfbærum aðferðum í landbúnaði. Það er miður ef íslenskir búvísindamenn mála sig frá þeim vísindum til trúar á tækniundur sem löngu hafa sannað ósjálfbærni sína.

Höfundurinn Gunnar Á. Gunnarsson er framkvæmdastjóri.

Ljósmyndir: Ræktað með lífrænum aðferðum. Efri; nýuppteknar gulrætur, neðri; kartöflugrös, kál og bygg. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Greinin var einnig birt í Morgunblaðinu þ. 7. desember 2012

Birt:
Dec. 11, 2012
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Lífrænn landbúnaður eykur fæðuöryggi“, Náttúran.is: Dec. 11, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/12/11/lifraenn-landbunadur-eykur-faeduoryggi/ [Skoðað:Oct. 5, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Dec. 15, 2012

Messages: