"Það er miklu betra að nota dagablaðapappírinn til að græða upp landið okkar heldur en að senda hann til útlanda," segir Ólafur Sigurjónsson, eigandi Flaga ehf.

Ólafur hefur síðan í vor tætt niður Fréttablöð og selt fyrirtækinu Sáningu sem annast uppgræðslu á ýmsum svæðum. "Þeir blanda Fréttablaðinu saman við áburð, vatn og fræ og setja blönduna á tankbíla sem dreifir yfir svæði sem þarf að græða upp. Með þessu lagi klessist allt saman og fær miklu betri viðloðun þannig að hvorki fræin né jarðvegurinn fþkur burt," útskýrir Ólafur.

Hráefnið í framleiðsluna fær Ólafur hjá Pósthúsinu sem annast dreifingu Fréttablaðsins. "Ég fæ að hirða afganga hjá þeim. Þannig að í staðinn fyrir að þetta sé tætt í einhvern gám og sent út þá er þetta notað til að græða landið okkar," segir hann.

Vélina, sem notuð er til að tæta Fréttablaðið, keypti Ólafur reyndar til að rífa bylgjupappa niður í undirburð fyrir hesta. "Þessi kögglar hafa alltaf verið fluttir inn og bara hækka og hækka í verði en nú ætla ég að framleiða þetta hér heima og selja það ódýrar," boðar Ólafur.

Örn Jóhannsson, deildarstjóri aksturs og pökkunar, segir að strax hafi verið tekið vel í málaleitan Ólafs. Öllum blöðum sem safnað sé til baka frá lesendum og umframblöðum, hafi þar til nú verið ekið aftur í Ísafoldarprentsmiðju þar sem þau séu tætt niður til útflutnings. Nú fari hluti þessa magns til uppgræðslu. "Allt er vænt sem vel er grænt og mér líst mjög vel á þetta eins og Ólafur hefur lýst því," segir Örn
Birt:
June 25, 2008
Höfundur:
gar
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
gar „Fréttablaðið til uppgræðslu“, Náttúran.is: June 25, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/06/25/frettablaoio-til-uppgraeoslu/ [Skoðað:April 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: