6. kafli - Saga grasnytjungsins
Ég vildi gjarnan samsama mig söfnurum og akuryrkjufólki og upplifa
hringrás náttúrunnar í garðinum eins og hún er túlkuð á miðaldateikningum.
Þar er árshringurinn sýnilegur, nánast áþreifanlegur. En fleiri hringrásir
finnast og ein er svo stór að hún virðist vera bein lína, saga mannsins. Lengst
framan af er talið að mestur tími og orka fólks hafi farið í það að afla sér
fæðu, rétt eins og á sér stað meðal dýranna, og flestir hafi unnið við það eða
um 80 af hundraði. Stærstum hluta var safnað, og líklega hefur það verið
kvennaverk, en veiðar staðið undir einum fimmta hluta og hvílt meira á
herðum karlanna.
Mér finnst alltaf svolítið leyndardómsfullt hvernig mannkynið lærði að hafa
áhrif á vöxt og viðgang plantna, halda húsdýr, stunda hjarðmennsku og rækta.
Það hefur verið útskýrt á trúverðugan máta, en samt er eins og eitthvað sé
ósagt um það hvernig við stigum þetta skref. Eins og fullnægjandi skilningur
fáist ekki nema með því að gera ráð fyrir að einhvers konar trú hafi tengst
þessu kraftaverki. Við vorum að ná tökum á og grípa inn í ferli sem fram að
því hafði eingöngu verið í verkahring náttúrunnar sjálfrar. Ég hef heyrt því
haldið fram að þessi þróun hafi markað svo djúp spor í menninguna að tungumálin
hafi breyst, þegar ný orð og hugtök hafi þurft til að tjá sig við svo
breyttar aðstæður, og það er sennilegt því það sama er að gerast á okkar
tímum. Sjálf hugsunin breytist með nýrri tækni og nýjum viðhorfum. En þó
forfeður okkar og formæður hafi sest um kyrrt og færu að brenna fyrir ökrum
og binda kúna á bás og atvinnuhættir breyttust, þá hélt þorri manna áfram að
stunda fæðuöflun.
Hlutfallið breyttist hægt og ekki verulega fyrr en sagan tók annað svona risastökk
sem var iðnbyltingin. Tilbúni áburðurinn og iðnbyltingin héldust í
hendur. Fólkið flutti úr sveit í bæi og borgir og fékk flest vinnu í verksmiðjum.
Það gat þá ekki lengur ræktað ofan í sig sjálft og náttúrufræðingar tóku til við
að rannsaka hvernig mætti auka vöxt plantnanna og fá meiri uppskeru. Þegar
aðeins helmingur fólksins var orðinn eftir í sveitunum var sjálfgefið að þeir
yrðu að afla matar bæði fyrir sig og hina brottfluttnu. Með því að brenna jurtir
og rannsaka öskuna efnafræðilega fengu menn vitneskju um samsetningu
þeirra. Náttúrufræðingarnir endurgerðu svo þessi efni í hæfilegum blöndum
og auðguðu moldina með þeim. Með tilbúna áburðinum var miklu hraðari
vexti náð og við fórum að trúa á vísindin.
Hér á landi var ekki mikið um tækifæri í iðnaði. Það var fremur sjómennska og
fiskvinna, önnur tegund matvælaframleiðslu, sem dró menn frá búskap. Til að
byrja með snerist iðnaðurinn mest um vélar og fatnað, námugröft og verslun,
en smám saman beindist hann meir og meir inn á svið matvælaframleiðslu.
Matur er ein frumþarfanna og þarna voru tækifærin næg og markaðurinn stór.
Fram að því hafði safnarinn og akuryrkjumaðurinn stundað sitt starf næstum
óbreytt og fyrstu vélarnar voru einfaldar og miðuðu að því að létta einstaklingum
störfin. Við konurnar ríktum yfir eldamennskunni og það þurfti dálitla
djörfung til að brjótast inn á okkar svið, jafnvel fyrir iðnaðarveldi.
Í dag, þegar við erum komin skotspöl fram úr iðnbyltingunni, inn í margmiðlunar-
o g tölvuöld, sjáum við að margt sem á sér rætur aftur í steinöld hélt
ótrúlega lengi velli hér á landi og flest okkar sem komin eru fram yfir miðjan
aldur eigum minningar sem styðja það. Ég man eftir gamla bænum á Helluvaði
í Mývatnssveit með moldargólfi og hlóðum þar sem slátrið var soðið eftir að flutt
var í nýja steinhúsið. Og reykkofanum með sinni sérkennilegu lykt uppi í
hlíðinni, þar sem Gunna gamla leit eftir að allt væri í lagi. Hún fór í daglegar
eftirlitsferðir í kofann, þangað til ungur maður úr Reykjavík fór að reikna út
hversu mikil verðmæti héngu þarna á sótugum röftunum. Hann gerði þetta til
þess að vera hlýlegur við gömlu konuna og til að sýna henni fram á að hún væri
virkur þátttakandi í atvinnulífinu. Þetta var rétt fyrir myntbreytinguna og honum
reiknaðist til að þetta væru verðmæti upp á tvær milljónir. Eftir það neitaði
Gunna að fara oftar í kofann. Hún gat ekki séð sína vinnu setta í svona efnahagslegt
samhengi og vildi ekki bera ábyrgð á þess slags fjármunum. Við stukkum af
moldargólfinu yfir á parketið, af hestbakinu upp í breiðþotuna á einum mannsaldri.
Breytingin gerðist svo snöggt að enn lifum við í báðum heimum.
Mér finnst eins og við séum með timburmenn, eftir að hafa lent á meiri háttar
notendafylleríi, þegar við fórum að fá iðnaðarvörur fyrirhafnarlítið upp í
hendurnar og matinn svo að segja tilbúinn á borðið. Við borðum langt umfram
þarfir eins og við séum ekki búin að átta okkur á því að það er til nóg,
allavega handa okkur, og eftir að plastefnin komu og hægt varð að gera eftirlíkingu
af hverju því sem nafni tjáir að nefna, fór ofgnótt hluta að verða
heimilisvandamál.
Nú hefur iðnaðurinn snúið sér að matvælaframleiðslu af fullum krafti og er farinn
að nota vélar og tilbúinn áburð í æ ríkari mæli og jafnframt geymsluefni
margs konar, aðkomna orku eins og rafmagn og olíu, gerviefni og eiturefni.
Fæðubótarefni eru komin til að vera og farið er að grípa inn í gang náttúrunnar
með fiskeldi, verksmiðjubúskap, klónun og genabreytingu. Aðeins 20% fólks
starfar nú við matvælaframleiðslu. Árið 1990 var hlutfallið hér á landi 10% í
beinni framleiðslu og önnur 10% í tengdum greinum. Dæmið hefur snúist við.
Næring er nú þegar framreidd sem duft eða í pilluformi og spár benda til þess
að svo kunni að verða í framtíðinni. Mannslíkaminn getur hins vegar ekki tekist
á við þann fjölda og það magn tilbúinna eitur- og aukaefna sem eru sett í allflestar
fæðutegundir í dag. Afleiðingin er ofnæmi, hegðunarvandamál, offita og torskildir
sjúkdómar. Þróunin frá heimahögum í alþjóðlegt samfélag, þar sem
matvæli eru flutt heimshornanna á milli og fjöldaframleiðsla og flókin geymsla
er regla en ekki undantekning, á sér þó sínar skuggahliðar.
Þess vegna sækir hún á mig spurningin um hvort við gerðum einhvers konar
heiðursmannasamkomulag við jörðina, þegar við hófum akuryrkju, og tókum
þar með að okkur að sinna hlutverki sem fram að því hafði alfarið verið
náttúrunnar sjálfrar. Sé svo var það ótvírætt mikið trúnaðarstarf. Höfum við
rofið þetta samkomulag? Okkur er sagt að forfeðurnir hafi leyst þetta með því
að fórna. Leggja fyrstu uppskeruna á altarið. En mér er nú sem ég sjái upplitið
á fólki ef ég færi að smeygja gulrótabúnti upp á heklaðan dúkinn á altarinu
innan um blómin. Þó þarf ekki lengra en til Orkneyja til að sjá altari
skreytt með haustuppskerunni og heyra þakkir bornar fram af prestinum fyrir
jarðargróðurinn. Hjá okkur var það reyndar maríufiskurinn. Gamall siður,
sem enn lifir, að gefa fyrsta fiskinn úr aflanum. Gefa hann til þakkar, eins og
ég hef orðið vitni að. Eru þökkin og hringrásin nauðsynlegur þáttur í
fæðuöfluninni til þess að allt fari vel? Safnhaugurinn skilar aftur til jarðarinnar
að hluta, því sem þaðan var tekið. Trén, sem við plöntum, vinna á móti
koldíoxíðinu sem bíllinn blæs frá sér. Þó einstaklingur geti ræktað sinn garð
eða tekið sér körfu í hönd og náð þannig áttum og sambandi við eigin fortíð
og lífið úti í náttúrunni, er ekki þar með sagt að stórfyrirtæki geti það.
Stórfyrirtæki er svo mikið inngrip í hringrás náttúrunnar að jafnvel bestu
samráðsfundir og góður vilji kæmust varla að annarri niðurstöðu en að best
væri að leysa fyrirtækið upp ef taka ætti tillit til náttúrunnar. Risafyrirtæki
þyrfti nefnilega að upphugsa risasátt eða risafórn til jarðarinnar en sú hugsun
býður vissulega upp á spennandi möguleika.
Sjálfsþurftarbúskap er ekki hampað sem þjóðhagslega arðvænum atvinnuvegi.
Það var þó eitt af markmiðum Alþjóða matvælastofnunarinnar að hvetja til
sjálfsþurftar í hinum ýmsu löndum heims, en slík hvatning má sín lítils gegn
ofurveldi stórfyrirtækjanna. Samt er það svo að ýmsir sjá nú ástæðu til að fara
að rækta og halda fram okkar eigin matarhefð sem byggði á búskap og
sjálfsþurft. Notkun villtra jurta kemur þar sterklega inn, einmitt hér á Íslandi
sem enn státar af opnu óræktarlandi og aðgangi að sjó. En það er ekki bara
iðnaðurinn heldur líka karlmennirnir sem hafa gert innrás í eldhúsið, aldagamalt
og traust vígi okkar kvennanna. Þessi síðari innrás getur þó haft góð
áhrif þegar litið er til framtíðar. Áhugi karlmannanna getur hjálpað til þess að
hleypa nýju lífi í matarmenninguna og seinkað því að hún verði iðnvæðingunni
að bráð. Óneitanlega vorum við orðnar svolítið þreyttar yfir pottunum
og samkeppnin því af hinu góða og aldrei að vita nema við séum í startholunum
að skapa eitthvað saman. Það þarf ekki alltaf að leita uppi eitthvað gamalt,
við getum líka búið til eitthvað nýtt.
Jafnvel dauðir hlutir hafa sál
Þetta heyrði ég oft sagt í bernsku, og einn sólarmorgun í rigningartíð eftir að
gera morgunæfingar úti hallaði ég vanganum upp að veggnum til að hvíla mig.
Húsið er klætt utan með staðlaðri lóðréttri timburklæðningu og mér hafði
aldrei dottið í hug að veita henni sérstaka athygli, nema til að athuga hvort
þyrfti að bera á viðinn. En þennan morgun vissi ég ekki fyrr en timburfjölin
var farin að tala til mín í gegnum snertinguna. Hún minnti mig á heimkynni
sín og að hún hefði einu sinni verið partur af lifandi tré. Ekki gat hún látið mig
skilja hvaðan hún hafði komið, enda var það kannski ekki á hennar færi að tjá
sig landfræðilega. Það undarlegasta var að mér virtist eins og henni væri jafn
mikið í mun að ná sambandi við mig, eins og mér fannst sambandið merkilegt,
enda átti hún upphafið. Þó var eins og við værum að kallast á úr órafjarlægð.
En af hverju þurfti hún núna að koma skilaboðum á framfæri?
Það er, vægast sagt, óvanalegt að vera ávörpuð af veggklæðningu. Seinna veitti ég
því athygli að þetta átti sér stað rúmum tveimur sólarhringum eftir að ég skrifaði
að ofgnótt hlutanna væri orðið heimilisvandamál. Mér fannst setningin svolítið
harkaleg og hafði verið að hugsa um hvort ég ætti að sleppa henni. Viðarfjölin
gat talist partur af hlutamenningunni og hún verið að mótmæla. En skilaboðin
höfðu dýpri merkingu, það skildi ég smám saman. Þau fjölluðu um að allt í heimi
hér væri að einhverju leyti lifandi því að jörðin sjálf væri lifandi, þó vissulega gætu
hlutar hennar virst dauðir eins og dautt skinn á manneskju, dautt því það væri að
umbreytast í annað efni, en hefði verið lifandi á einhverju stigi tilveru sinnar.
Fjölin tók einmitt fram að hún hefði einu sinni verið hluti af lifandi tré.
Ef marka má Snorra Sturluson þá er jörðin sjálf lifandi. Hann rekur í upphafi
Eddu sinnar hvernig háttað var sköpun heimsins og þeirra Adams og Evu og
greinir frá Nóaflóðinu og segir síðan: „Það hugsuðu þeir (mennirnir) og
undruðust, hví það myndi gegna, er jörðin og dýrin og fuglarnir höfðu saman
eðli í sumum hlutum, og þó ólík að hætti.“ Snorri bendir á að á jörðinni vaxi
grös og blóm sem felli laufin og fölni árlega á sama máta og hár vaxi á mönnum
og fjaðrir á fuglum og hvort tveggja falli einnig af. Beinum og tönnum
mannanna líkir hann við steina og kletta jarðarinnar. Hann segir undarlegt að
þegar jörðin sé opnuð og grafið í hana loki hún sér aftur og gras grói yfir og
blóð spretti fram úr höfði manna eins og vatn streymi fram hátt í fjöllum.
Vísindamaðurinn og umhverfissinninn James Lovelock hefur gengið einna
lengst í að rökstyðja fullyrðingar á borð við þær sem Snorri setur fram.
Lovelock ímyndar sér jörðina eins og sjúkling er leitar læknis og ber saman
hvaða frumathuganir eru gerðar á manni og hvernig sambærilegar athuganir
má gera á jarðarlíkamanum. Hiti og blóðþrýstingur mannsins er mældur,
lungun hlustuð, beðið um blóðprufu og þvagprufu og tekin vefjasýni. Hvað
jörðina varðar þá væri hiti gufuhvolfsins mældur frá gervihnöttum og
blóðþrýstingur með loftvog. Ástand öndunarfæranna væri metið út frá losun
koldíoxíðs í andrúmslofti. Sýnum, sem tekin væru úr lofti og legi, mætti
líkja við blóð og þvag mannsins. Vefjasýnum mannsins mætti líkja við ásigkomulag
einstakra lífheilda og möguleika þeirra til sjálfbærni og rannsaka
sem slík. Að mæla megi ástand jarðarinnar og bera saman við manneskju
telur Lovelock benda til þess að jörðin sé nokkurs konar vera gædd lífi.1
Einn ágætur dýralæknir, kunningi minn, kallar slæman niðurgang stórrigningu
og þá er ekki langt í að hægt sé að nefna náttúrufyrirbrigði eins og eldgos
– ælupest, flóð – svitabað, fellibyl – taugakast og ísaldir – köldu.
Ef litið er á málin af þessum sjónarhól, er þá ekki nærtækt að taka næsta skref
og sjá fyrir sér jörðina sem lifandi, skyni gædda veru sem sé að leitast við að
heila sjálfa sig og geti hrist okkur af sér eins og flugur ef hún verður verulega
pirruð? Skyldi það vera hún eða hann? Flestum finnst það vera hún enda talað
um móður jörð. En hversu mikla meðvitund, í þeim skilningi sem við mennirnir
túlkum orðið, hefur þá jörðin? Hvert er okkar hlutverk samofið hennar?
Skiptum við hana máli? Erum við, eins og Austurlandabúar segja, nauðsynlegur
tengiliður milli ytri vitundar eða geimvitundarinnar og jarðarinnar, eitt
af nauðsynlegum skilningarvitum hennar? Eða erum við eins og dægurflugur
sem rétt fæðast til að fljúga um og deyja, og ævi okkar stutt og lítilsverð frá
sjónarhóli og í meðvitund jarðarinnar? Lítur hún svo á að nú herji á hana
nokkurs konar skordýraplága?
En þó ég hafi oft gengið úti, stiklað yfir kletta og ímyndað mér þá sem jaxlabrot
eða kjúkubein, horft á ána og fundið samkennd með framsetningu Snorra
og hugleitt hana var ég algerlega óviðbúin þegar ég hitti jarðargyðjuna í fyrsta
skipti. Eiginlega kom það mér ósegjanlega á óvart, enda stödd í útlöndum.
Ég var veðurteppt í nokkra daga á grísku eyjunni Skyros um hávetur. Hafði
ofan af fyrir mér, til að komast út úr köldu hótelherberginu, með því að ganga
í rigningunni eftir ströndinni þar sem þeir ýttu úr vör skipum sínum
Ódysseifur og félagar. Það var eftir að Ódysseifur hafði leitað uppi og fundið
þarna verðandi hetjuna, Akkiles, og talið hann á að koma með í herförina
gegn Tróju. Þetta var allt fremur dramatískt af því móðir Akkilesar, Þesis, var
af guðaættum en faðirinn var mennskur og móðirin vildi að sonurinn erfði
hennar meðfædda ódauðleika og dýfði honum í kerald með ódáinsveig þegar
hann var lítill en aðrir segja að hún hafi dýft honum í sjóinn. Hún varð að
halda í eitthvað og greip um annan hælinn og þess vegna er talað um Akkilesarhæl,
því aðeins þar var hægt að finna á honum snöggan blett og vinna honum
mein. Þetta hefur að líkindum farið fram hjá móður hans en hún vissi fyrir
að hann yrði að velja milli viðburðalítils langlífis eða stuttrar frægðarævi.
Hún hafði sínar blendnu tilfinningar varðandi þetta og faldi hann hjá konungi
eyjarinnar sem ég var veðurteppt á. Þar dvaldi hann á meðal konungsdætranna,
klæddur kvenmannsfötum því það var ætlun Þesisar að Ódysseifur fyndi
hann ekki. En Ódysseifur var bragðarefur hinn mesti og grunaði hvernig í
pottinn var búið. Hann kom með fagrar gjafir, klúta, klæði og skartgripi, lagði
fram þetta fínerí ásamt fallegum rýtingi og bað ungu konurnar í höllinni að
velja sér gjafir. Ódysseifur lá á gægjum og sá að ein stúlkan gat ekki stillt sig
um að fingra rýtinginn góða. Þá vissi Ódysseifur sem var og Akkiles gat ekki
dulist lengur. Því fór sem fór.
Ég gekk eftir ströndinni í djúpum þönkum og var að reyna að rifja upp söguna,
en hún á sér reyndar ýmis tilbrigði. Það gekk á með rokum og ýrði úr
lofti en nú myndi ég sverja að það hefði birt og sólin gægst fram gegnum
skýjahulurnar þegar var eins og tekið létt undir olnbogann á mér og þegar ég
leit upp vissi ég með fullri vissu að hvít og mjúk froða öldufaldsins á svartri
ströndinni var fínofin blúndan á nærpilsi gyðjunnar, sem bærðist fram og til
baka í takt við hreyfingar hennar. Hún var bókstaflega yfir mér og allt um
kring. Tilfinningin var yfirþyrmandi sterk en fól ekki í sér nein persónuleg
skilaboð. Frekar eins og ég hefði ratað inn í herbergi af tilviljun, þar sem mín
var ekki vænst. Ég reyndi ekki að skilja af hverju. Naut þess bara að vera og
skynja návistina í dýpt. Eina skýringin, sem ég hef fundið síðar, er sú að ég hafi
á einhvern hátt komist í snertingu við forna minningu í mínum eigin huga, eða
atburðurinn tengdist staðnum og speglaðist frá öðrum tíma, þegar gyðjan var
tilbeðin og návist hennar þótti sjálfsögð. Seinna skildi ég að hún hafði birst mér,
ekki ólíkt því sem oftlega segir frá í fornum grískum sögum.
Að hverfa aftur til náttúrunnar
Fyrir sex hundruð árum fann abbadísin Hildegard von Bingen sig tilknúna að
skrifa páfanum og benda honum á þá óæskilegu þróun að sumir munkar sækist
nú eftir að lifa af kenningunni (sinna andlegri þjónustu og snúa sér að ritstörfum)
í stað þess að halda áfram að taka sameiginlegan þátt í að yrkja
jörðina og framfleyta sér af því, sem hún gefur af sér.
Í tímans rás hafa menn ýmist reynt að komast frá náttúrunni og viljað lifa
þægilegra lífi í manngerðu umhverfi borganna eða leitað lífshamingjunnar í
skauti hennar. Á vissum tímabilum kemur upp fælni gagnvart náttúrunni. Í
dag er einn flötur þessarar fælni hræðsla við víðáttuna sjálfa. Annar ótti er algengur
og blátt áfram og minnir á táningahræðslu, svo sem ógeð á öllu sem
hreyfir sig skyndilega, eins og köngulær, sniglar, bjöllur og vespur. Ógeð á
öllu sem er slímkennt eða skítugt. En svo er til djúpstæður ótti og flóknari.
Óttinn við það sem er ófyrirsjáanlegt og illstýranlegt. Við lifum núorðið í
manngerðu umhverfi, sem við getum að miklu leyti stjórnað sjálf. Við getum
slökkt ljósin þegar við viljum, hækkað hitann, kveikt á sjónvarpinu og valið
um stöðvar. En náttúran hirðir ekkert um hvað við viljum og fer sínar eigin leiðir. En það er ekki
hægt að stjórna náttúrunni.
Ég, sem safnari
og garðyrkjumaður,
verð að beygja mig
undir vilja hennar.
Hún ræður tímasetningum og
ég gegni, ef ég ætla að ná árangri.
En eins og verða vill magnast líka
upp ást og þörf fyrir náttúruna
þegar hún fjarlægist okkur eða við
hana. Hún er þarna eins og elskhugi sem við
hvorki getum sleppt eða þorum að gefa okkur
fyllilega á vald, tilfinningalega séð.
Afturhvarf til náttúrunnar er þekkt hugtak, tengt
upplýsingarstefnunni á 18. öld. Arftaki upplýsingarstefnunnar var Henry
David Thoreau, fæddur 1817 nálægt Boston. Hann var vel lesinn í grískum
fræðum, austurlenskum ljóðum, enskri dulspeki og rómantískum skáldskap en
hafði óviðráðanlega köllun til náttúrunnar og sinnti aðeins nauðugur
fjölskyldufyrirtækinu, sem var blýantaverksmiðja. Hann dvaldi rúm tvö ár við
íhugun og skriftir í kofa sem hann smíðaði og ræktaði þar grænmeti ofan í sig.
Thoreau samdi bókina Walden en undirtitill hennar er: Lífið í skóginum. Hann
skrifar um náttúruna, eðli hennar, sambýlið við hana og hvernig hægt sé að
framfleyta sér með hennar hjálp. „Ég settist að í skóginum, af því ég óskaði þess
að lifa meðvitað og takast aðeins á við grundvallarstaðreyndir lífsins og sjá hvort
ég gæti ekki skilið það sem af þeim mætti læra, svo til þess kæmi ekki að þegar
ég stæði andspænis dauðanum myndi ég uppgötva að ég hefði í raun aldrei
lifað.“
Thoreau velti mikið fyrir sér samfélaginu. Hann tilheyrði hópi menntamanna,
afkomendum innflytjenda sem skynjuðu djúpt að þeir voru virkir
þátttakendur í myndun nýs þjóðfélags. Átökin um þrælahaldið voru í brennidepli.
Hann velti fyrir sér að hve miklu leyti yfirvöld hafa leyfi til að leggja
hömlur á borgarana. Thoreau skrifaði bækling sem hann nefnir Borgaraleg
óhlýðni. Þessi bæklingur hafði fimmtíu árum síðar mótandi áhrif á Mohandas
Gandhi, og hjálpaði honum til að leggja grunninn að beitingu friðsamlegra
mótmæla í sjálfstæðisbaráttunni við Breta. Síðar urðu skrif og heimspeki
Thoreaus leiðarljós fyrir andspyrnuhreyfingu Dana í síðari heimsstyrjöldinni
og Marteins Lúters King í endurnýjaðri réttindabaráttu blökkumanna.2 Enn
sóttu forgenglar ’68–kynslóðarinnar, eða sá hluti hennar sem var að leitast við
að ná tengslum við náttúruna og vildi lifa utan hafta og lögmála
iðnaðarsamfélagsins, sér styrk í skrif hans.
Ekki vil ég þó setja samasemmerki á milli garðyrkjumanna og náttúruunnenda
annars vegar og andófsmanna hins vegar. Jarðræktarfólk er oftast kennt
við friðsemd og sálarró. Samt skynja ég að það að tína grös og rækta felur í
sér töluvert frelsi. Frelsi til að velja og borða það sem maður kýs og sjálfsþurftin
gerir mann óháðari duttlungum iðnaðarsamfélagsins. Mér finnst ég
lifa á tímum þar sem reglugerðum er sífellt að fjölga og stýring að aukast.
Síðasta vígið er farið að standa á brauðfótum, það að fá að elda ofan í sig matinn,
ákveða hvað í hann fer, vita hvernig hann er unninn og hvaðan hráefnið
kemur. Maturinn kemur nánast tilbúinn úr búðinni, grænmetið þvegið og
kartöflurnar forsoðnar, engin fyrirhöfn. Þetta er þægilegt, því er ekki að neita,
en ég er ekki viss um að ég vilji ganga svona langt. Það heyrast æ fleiri raddir
sem segja að „mjólk sé góð“, ofnæmi og óþol hinna fjölmörgu fyrir mjólkurvörum
stafi eins líklega af vinnslu- og geymsluaðferðunum. Við aðlögum
ósjálfráða hugsun okkar að því að matur sé eitthvað innpakkað í kæli eða á
hillu. Annað sé ekki matur. Ég held að við megum ekki ofmetnast og þykjast
geta gert betur en móðir jörð og við verðum að gæta þess betur að gefa til
baka hluta af því sem við tókum, einhvers konar maríublóm.
Skilningarvitin
Bragðskyn er það skilningarvit, sem mestan þátt tekur í daglegu áti.
Bragðskyn flestra nútímamanna er hins
vegar heldur íhaldssamt og jafn ófært um
að takast á við nýjungar eins og að skipta um
stjórnmálaflokk. Margir kunna ekki að
meta óvanalegt bragð og forðast því allt það
sem þeir eiga ekki að venjast. Sólveig
Eiríksdóttir mathönnuður kennir hvernig laða
megi fólk að breyttum matarvenjum með því
að skipta hægt en markvisst um innihald
þegar eldað er. Gera innihaldið hollara og
vistvænna í smáum skrefum, svo viðkomandi taki naumast eftir því fyrr en bragðlaukarnir hafa þroskast og taka af sjálfsdáðum
að gleðjast yfir betri kosti. Of snöggar breytingar valda oft vandræðum
og afneitun. Tilbreyting getur verið fólgin í því að breyta lítillega um bragð.
En hvaða krydd fer vel með hvaða mat? Góða aðferð lærði ég af gyðingi með
stórt nef, sem var uppalinn í New York. Lyktaðu af kryddinu, sagði hann, og
lyktaðu svo af því sem komið er í pottinn, ef þetta tvennt fer saman er óhætt
að bæta kryddinu út í.
Lykt er það skilningarvit sem æsir upp í okkur matarlöngunina. Það var í
marsmánuði á kvennaári S.Þ. 1975. Vélsleðarnir komust ekki um vegna þess
að snjóa var að leysa og skaflarnir dreifðir og blautir. Bílar komust ekki um
vegna aurbleytu. Við lögðum upp frá Refsstað í Vopnafirði og ætluðum inn
að Einarsstöðum til að heimsækja Hildigunni, systur Þorsteins Valdimarssonar
skálds, til að ræða heimsmálin. Ófærðin hafði staðið í nokkra daga og við
urðum að fara gangandi. Póstinum var stungið á mig og ég fann mikið til mín
að vera orðin landpóstur upp á gamla mátann. Það var skýjað en rigndi ekki.
Þegar við komum að horninu á torfbænum á Bustarfelli, lagði á móti okkur
með sunnangolunni ilmandi pönnukökulykt. Ekta pönnukökulykt með
kardímommum, úr eldhúsglugganum á nýja bænum, og lyktin leitaði niður í
húsasundið og straukst svo fram með gamla bænum og fyrir veggkampinn.
Þetta var um kaffileytið og sunnudagur og aldrei vissum við hvort verið var
að baka fyrir heimilisfólkið eða borist hafði fregn um að göngufólk væri á
leiðinni, nema hvort tveggja væri. Ekki man ég núna hvernig pönnukökurnar
voru á bragðið. Ég man ekki lengur samræðurnar, en lyktinni gleymi
ég aldrei. Það er sagt að vindur leiki svo ljúflega umhverfis
gömlu bæina, að það greiðist úr honum
vegna stráanna á þakinu og ávala
formsins og að hann kastist aldrei til
og magnist ekki upp, eins og við
skörp húshorn beinna veggja. Skyldi
lykt líka berast mjúklegar að vitum
manns við slíkar aðstæður eða var það
bara göngusvengdin?
Sjón spilar stórt hlutverk þegar um mat er að ræða. Ég man eftir kaffiborði á
Akri í Húnavatnssýslu, þar sem dúkurinn var með venezienskum útsaum,
stellið „brúna rósin“ frá Konunglegu postulínsverksmiðjunni var úthugsað
sem passlegt litatilbrigði við gullnar vöfflurnar, sem enn voru ekki komnar á borðið. Þar beið aðeins bláberjasultan í kristalsskál með silfurskeið. Ég man
eftir mataræsandi myndum í franskri bók, sem fjallar um hvernig eigi að brjóta
pentudúka. Þar eru nokkrir tugir mynda af borðbúnaði en enginn matur. Ein
og ein rós og nokkrir brauðhleifar. Þetta hlýtur að hafa eitthvað að gera með
væntingar. Það snýst um umgjörðina, tilhlökkunina og biðina eftir matnum.
Uppblásnar myndir af mat eins og nú tíðkast utan á verslunum og í auglýsingum
hafa ekki þau áhrif að vekja upp matarlyst. Sterkar nærmyndir af mat eru
vandmeðfarnar. Við viljum halda þeirri sjónrænu fjarlægð frá matnum sem er
frá augunum að miðju borðsins. Við viljum hafa matinn í vissri fjarlægð og alls
ekki í of skærum litum. Villandi litir eyðileggja matarlyst, það hefur verið
sannað með tilraunum. Umbúnaðurinn skiptir næstum eins miklu máli og
sjálfur maturinn. Áslaug Snorradóttir ljósmyndari skynjar þetta þegar hún
setur linsuaugað úr fókus, svo maturinn sést varla, nema einstaka hvítlaukur
eða brauðendi skýst inn á sjónarsviðið eins og íbjúgt fjall út úr þoku.
Smekkur er ekki skilningarvit, fremur úrvinnsluaðferð. Matur og át eru
náskyld erótík og kynferðislegum athöfnum þótt flestir leiði ekki hugann
mikið að því, svona hversdagslega. Þetta vissu tantrameistararnir, sem gerðu
máltíð að hluta upphafinnar listar líkamlegs samræðis. Þetta vita meistarar
kvikmyndanna og þetta vita ritsnillingar eins og Isabel Allende, þegar hún
skrifar Afródítu með undirtitlinum: Sögur, uppskriftir og önnur kynörvandi fyrirbæri.
Hún talar um bragð, ilm, sjón en líka um smekk. Isabel skrifar: „Það
gildir jafnt um mat sem erótík að fyrstu áhrifin eru sjónræns eðlis, en það er
til fólk sem getur étið hvað sem er.“ Í Afródítu eru afar fallegar og minnisstæðar
teikningar. Ef nánar er að gáð eru þær alls ekki af neinu matarkyns,
nema ávöxtum sem á myndum flokkast undir form en ekki mat. Ein stór og
grafísk útfærsla af fiski á rólu er þó í bókinni og önnur lítil, reyndar.
Orðlisttengist matarmenningu. Mat er auðveldara að lýsa í orðum en með
myndum. Með orðum er hægt að fullnægja löngun í lystisemdir kokkamennskunnar.
Það er hægt að lesa sig saddan. Það er hægt að upphefja fábreyttan eða
vondan kost með því að lesa um mat og næra sig á þann hátt. Alice B. Toklas,
sem var elskhugi og einkaritari rithöfundarins Gertrude Stein, segir frá því í
frægri kokkabók sinni, að hún hafi sent bæði föngum og fátækum stúdentum
sælkeraorðabækur til að hjálpa þeim að draga úr fábreytileikanum með því að
örva ímyndunaraflið. Hún skrifaði sína kokkabók þegar svo stóð á í lífi hennar
að afar einfaldur kostur var henni nauðsyn af heilsufarsástæðum og meðan á því
stóð safnaði hún saman flóknum matreiðsluaðferðum aðalsmanna, lítt þekktum
frönskum uppskriftum, sögum af eldabuskum að ógleymdri viðureign sinni við
lifandi karfa sem hún nefnir – Morðið í eldhúsinu. Alice mun þó yfirleitt ekki
hafa eldað þar sem enn voru þjónar og eldabuskur á frönskum heimilum fram
yfir síðari heimsstyrjöldina. Þær stöllur áttu athvarf og sumarhús utan við París
í Bilignin þar sem Alice ræktaði grænmeti og hún lýsir heimferð um haust þegar
hún hafði safnað því sem eftir var af uppskerunni í körfur og kalt sólarljósið lýsti
upp appelsínulitar gulræturnar, allt græna grænmetið, gul graskerin, hvít
smjörhnetualdinin, fjólublá eggaldinin og síðustu tómatana. Fyrir mér var þetta
fallegri sýn en nokkurt post-impressionistiskt málverk, skrifar Alice.
Ónærgætni í orðum getur spillt. Át er ákaflega persónuleg athöfn þó við
borðum saman og sá siður sé af hinu góða. Sameiginlegt borðhald gerir
fjölskyldur samheldnar. Að einhver krefjist þess að vilja vita hvernig smakkast,
þykir sumum erfitt. Það truflar máltíðina að þurfa að gefa yfirlýsingar. Þetta
tíðkast mikið á veitingahúsum en gengilbeinurnar eru þó hlutlausar, hafa ekki
eldað matinn, eru aðeins milliliðir milli kokkanna og gestanna og þeim er
uppálagt að spyrja fyrir siðasakir. Húsmóðir má ekki spyrja of nauið hvernig
smakkast, því hún hefur eldað matinn. Það er neytandans að kveða upp úr
hvað honum finnst. Hann á að hafa frelsi til að tjá sig, ef hann kýs að gera það.
Það eykur honum ánægjuna af borðhaldinu.
Fæstir kunna því vel að láta fylgja of
miklar útskýringar með matnum
sem þeir eru að kyngja. Fyrir
marga virkar það mjög nær–
göngult, næstum áleitið.
Þar var á borðum:
pipraðir páfuglar,
saltaðir sjófiskar,
mimjam og timjam
og multum salve.
Bændaalmanakið
Safnarinn og ræktandinn fylgist stöðugt með veðráttunni, birtunni og hitafarinu
og lifir þannig með árstíðunum. Í okkar almanaki er fátt sem minnir á gróðurfar
eða fellur að lífsmunstri okkar, fremur að við höfum aðlagað lífsmunstrið að almanakinu
þó það ætti að vera á hinn veginn. Almanakið fylgir ekki tungli og daga fjöldi mánaðanna er tilviljanakenndur, eiginlega hálfgert klúður. Mánaðanöfnin
janúar, mars, maí og júní koma úr fornri goðafræði, svo sú tilfinning að það eigi
að skrifa þau með stórum staf er ekki út í hött. Febrúar táknar trúlega hreinsun
og var síðasti mánuðurinn í eldra tímatali Rómverja. Apríl á sér ekki augljósa
skýringu en kann að merkja – að opna eða gróandi jörð. Keisararnir Júlíus Caesar
og Ágústus áttu báðir þá ósk heitasta að verða teknir í guðatölu og fengu því
framgengt að mánuðirnir júlí og ágúst væru nefndir eftir sér. Þeir gættu þess að
sínir mánuðir teldu 31 dag. September, október, nóvember og desember þýða 7.,
8., 9. og 10. mánuður ársins, en það eru þeir ekki, heldur eru nöfnin leifar frá
eldra tímatali. Þessi nöfn var fyrst farið að nota hér á landi á 18. öld, þegar breytt
var frá júlíanska tímatalinu til hins gregoríanska.
Tilraun til að fella þetta nýja almanak að íslenskum atvinnuháttum gerðu
bæði Björn í Sauðlauksdal og séra Bjarni Arngrímsson á Melum er reyndi að
gera þetta aðgengilegt í lestrarkveri handa börnum sem lengi var notað.
Januarius, eða miðsvetrarmánuður ... hann hálfnar veturinn. Fyrra part þessa
mánaðar er brundtími sauðfjár.
Februarius, eða föstuinngangsmánuður ... þá búa karlmenn sig til fiskveiða á
verstöðum.
Martíus, eða jafndægramánuður ... nú er vertíð við sjó og vorið byrjar.
Aprílio, eða sumarmánuður ... þá byrjar sumarmisseri, lengir dag og minnka
oft frosthörkur.
Majus, eða fardagamánuður ... þá er unnið á túnum, sáð til matar, sauðburður
hefst og fuglar verpa.
Júníus, eða náttleysumánuður ... þá er lengstur dagur, nú er plantað káli, rúið
sauðfé, lömbum fært frá og rekið á afrétt.
Júlíus, eða miðsumarsmánuður ... þá eru dregin að búföng, flutt í sel, farið á
grasafjall og byrjaður sláttur.
Augustus, eða heyannamánuður ... þá standa heyannir, hirt tún og yrktar engjar.
September, eða aðdráttarmánuður ... þá enda heyannir, en byrjast haustið,
gjörð fjallskil, hyrtar matjurtir.
Oktober, eða slátrunarmánuður ... þá byrjar vetrar misserið, nú er færð mykja
á tún, slátrað búfé og börn byrja stöfun.
Nóvember, eða ríðtíðarmánuður ... þá er sest að við ullar vinnu og hyrtur búsmali.
Desember, eða skammdegismánuður ... hann endar árið, þá er stystur dagur og
vökur lengstar.
Tveggja missera almanak
Gamla bændaalmanakið tók miklu meira tillit til þess sem var að gerast í
þjóðlífinu og náttúrunni svo sem sést af mánaðanöfnum eins og gormánuður
og mörsugur, sólmánuður og heyannir svo ekki sé talað um kunningjana
þorra og góu. Það almanak á sér sennilega djúpar rætur og er tiltölulega einfalt
tveggja missera dagatal, þar sem tímajöfnun fer fram á mörkum vetrar og
sumars og heita veturnætur á haustin en sumarmál á vorin. Veturinn hefur
sínar 26 vikur og sumarið sömuleiðis. Á veturna byrja vikurnar á laugardögum
en á sumrin á fimmtudögum. Fyrsta sumardag ber því alltaf upp á fimmtudag,
sem er í raun og veru nýársdagur. Mánuðirnir eru sex í hvorum árshelmingi
og fylgja stjörnumerkjunum. Talið var í vikum en aldrei mánaðardögum.
Guðrún Ósvífursdóttir var gift Þorvaldi, fimmtán vetra, í tvímánuði, en
brúðkaup hennar og Þórðar Ingunnarsonar var „að tíu vikum sumars“.
Mánuðirnir skiptu þó minna máli en vikurnar. Fátt úr gamla almanakinu hefur
öðlast fastan sess í því nýja utan sumardagurinn fyrsti. Þorrinn með blótum
sínum hefur verið endurvakinn í núverandi mynd og svo er viss rómantík
í sambandi við nöfn eins og hörpu, sem minnir á vorið.
Það hélt gamla almanakinu við og lengdi lífdaga þess að þulirnir í ríkisútvarpinu
höfðu Þjóðvinafélagsútgáfuna ætíð við höndina og lásu úr henni þegar
þurfti að fylla inn í smáeyður á milli dagskráratriða og tók því ekki að setja
plötu á fóninn. Þá þótti ekki við hæfi að vera með almennt spjall. Ragnheiður
Ásta Pétursdóttir upplýsti í viðtalsþætti hversu hentugt var að grípa til gamla
almanaksins af því það tengdist því sem var að gerast í náttúrunni hverju sinni.
Áhrif tunglsinsÁhrif tunglsins
Í erlendum bænda- og stjörnualmanökum er þess oft getið að á þessum og hinum
deginum sé betra að klippa hár sitt eða sinna gróðri, jafnvel fjármálum.
Slíkar upplýsingar byggja á hringferli tunglsins kringum jörðina. Tunglið
staldrar rúma tvo daga í hverju stjörnumerki á ferð sinni umhverfis jörðina og
þau eru síðan talin heppileg eða óheppileg fyrir hinar ýmsu athafnir. Máninn
stækkar og minnkar, sem alkunna er, og hann
sést lengst á lofti þá mánuði sem sólargangur er
stystur og öfugt. Allt er þetta talið hafa áhrif.
Plöntum er fjórskipt eins og svo mörgu öðru í
okkar grísk-rómverska heimi í rætur, blöð,
blómstur og ávexti. Jörð hefur áhrif á rætur, vatn
á blöð og stilka, loft á blóm og eldur á ávöxt.
Í skortinum, sem varð á almennum nauðsynjum eftir síðari heimsstyrjöldina,
fór ung, þýsk kona, Maria Thun, að velta fyrir sér hvernig hægt væri að
auka vöxt plantna og fá þær til að gefa meira af sér. Hún var uppalin á
bóndabæ og starf hennar í æsku var að vera kúasmali. Hún telur sig hafa
tekið rétt eftir því að kýrnar völdu sér „lyfja“grös við ýmsum kveisum
meðan villtur gróður var á engjum og óx við veginn og þær gátu valið úr
grösum. Hún álítur að einhæf fæða nútíma mjólkurkúa, þó afbragðsgóð sé,
geti leitt til vaný rifa því þær hafi enga leið til að stjórna fæðubúskap sínum
sjálfar. Maria þekkti til kenninga Rudolfs Steiner og nú hefur hún þróað
nákvæmasta almanak sem völ er á fyrir ræktendur. Hún staðhæfir að hinar
stöðugu hringrásir plánetnanna og dagshrynjandin hafi hvort tveggja áhrif
á plönturnar. Fram á miðjan dag eru kraftar jarðarinnar rísandi en eftir það
samandragandi. Maria segir að betra sé að taka blaðjurtir eins og salat upp
úr garðinum á morgnana, þá helst lengur safi þeirra og frískleiki. Radísur og
rótarávexti vill hún aftur á móti taka upp seinni partinn, því þá er krafturinn
allur í rótinni. Af sömu ástæðu vill hún skera blóm í vasa fyrri part dags.
Fyrir utan sjálfa ræktunina bakar Maria og fjölskylda hennar brauð, klippir
stiklinga, tekur inn jurtir til þurrkunar, sultar og sinnir býflugum eftir
tungl- og stjörnualmanakinu.
Flestir viðurkenna þó að áhrif tunglsins eða annarra himintungla séu óræð.
Frönsk hefð mælir t.d. gegn því að sá eða aðhafast nokkuð á föstudaginn
langa. Maria Thun tekur undir þetta og segist geta rökstutt það með tilraunum
og skipti engu hvernig standi á tungli. Hún kann þá skýringu helsta
að okkur sé svo tamt að hugsa sem svo að píningardagur frelsarans sé óæskilegur
fyrir allan vöxt eða að það sé rangt að vinna þennan dag. Hvernig
plönturnar lesa mannshugann má svo hafa að íhugunarefni.
Í löndum þar sem sólin er heit og þurrkar eru vandamál er tunglið álitið
milt og tengist svala og næturdögg. Sólin er þar karlkennd en tunglið kvenkennt
en hér á landi er þessu öfugt farið og í sögum og kveðskap er talað
um skarðan mána og hann tengist fremur kulda og vetrarnóttum enda sést
lítið til hans á sumrin, meðan bjart er. Það er tilfinning mín að sólin og
hlýjan, sem hún veitir, skipti svo miklu máli hér á landi að áhrif tunglsins
séu ekki eins virk. Þó fylgi ég eftir getu tunglganginum, þegar um sáningu
og plöntun er að ræða, finnst sumpart þægilegt að láta stýrast af einhverju
mynstri og eiga frí frá ræktuninni á þeim dögum sem ekki eru taldir heppilegir
til garðverka. Svo er íslensk veðrátta svo ótrygg og margbreytileg að engin vissa er fyrir því að útiverk gangi upp eftir nokkru kerfi og erfitt að
gera tilraunir nema innanhúss þar sem hægt er stjórna hita og raka.
Lítil hjásaga um áhrif tunglsins
Það var einhvers staðar í Austur-Skaftafellssýslu minnir mig, að byggt var nýtt
eldhús á bæ og ekki í frásögur færandi. Vandinn var hins vegar sá að
reykháfurinn virkaði illa og reykurinn leitaði sífellt inn. Í sveitinni var bóndi
nokkur sem þótti laginn við þess háttar og húsfreyjan gerði boð fyrir hann,
hvort hann gæti komið við hjá sér þegar hann hefði tök á. Þetta gerir hann og
kemur fyrri part dags. Hann byrjar á því að taka umbúnaðinn um reykopið
burt og sest síðan inn, þiggur góðgerðir og situr lengi og spjallar um heima
og geima í mestu makindum. Húsmóðirin ber honum kaffi en er sífellt að
vona að hann taki nú til við að laga reykháfinn. Þegar hún loksins dirfðist að
ámálga það, hvort hann hafi nú alveg gleymt sér, þá gengur hann út og lítur
til sjávar. Hann sér að það er komið útfall og segir að nú sé í lagi og setur
umbúnaðinn aftur í reykopið nákvæmlega eins og hann var áður, þakkar fyrir
sig og fer. Konan varð undrandi og þykir í fyrstu lítið til koma en kveður
þó manninn kurteislega. En eftir þetta rataði reykurinn rétta leið út um opið.
Mönnunum má líkja við sáðkorn
Fyrir 5000 árum skiptu prestarnir í Babýlon árinu í tólf tímabil og lögðu
grundvöllinn að astrónómíunni. Okkur er gjarnt að líta á skiptingu árhringsins
sem sjálfsagðan hlut, næstum náttúrulegt fyrirbrigði. En til eru þeir þó sem
gagnrýna skiptinguna og kalla hana yfirmáta vélræna og segja prestana hafa
þurrkað út áhrif tunglsins og töluna þrettán sem hvort tveggja séu kvenlegir
þættir, en upphafið þess í stað töluna sjö og gert hana heilaga. Þegar gengið sé
út frá tunglkomunum þrettán verði tíminn spírallaga en ekki sá tólfskipti, flati
veruleiki sem sé grunnstöðull nútíma iðnaðar- og vélmenningar. Áhugamenn
vilja endurvekja hið forna tímatal Mæjanna, og benda á að núverandi tímatal
byggi á talnasamstæðunni 12:60, sem samsvari nokkuð hörðum samhljómi
plánetnanna Satúrnusar og Júpíters. Mýkri og náttúrulegri hrynjandi skapist af
samspili talnanna 13:20, sem haldi opnum samskiptarásum milli Úranusar og
jarðar. Tímanum megi líkja við vél og þegar síðari fasanum hafi verið hraðað úr
20 í 60 virðist svo sem tíminn hafi farið að herða á sér og menningin sé að taka
framförum en þetta sé blekking, því í reynd hafi verið hægt á tímanum með því
að breyta fyrri fasanum 13 í 12. Eins og vitlaust stillt bílvél muni því tímaramminn
splundrast þegar þaný olið brestur, sé ekki gripið í taumana.
En hvað sem tímaspám líður hefur maðurinn haft af því mikla skemmtun að
kynna sér stjörnuspeki. Höfuðskepnurnar fjórar: Jörð, vatn, loft og eldur,
þykja ráða stjörnumerkjunum tólf þannig að hver höfuðskepna ræður þremur
merkjum en þó er mikill munur á. Sams konar munur og á bernsku, þroska
og elli manneskjunnar eins og höfuðskepnurnar sjálfar gangi í gegnum það
ferli einnig. Eldurinn kviknar sem logi, verður síðan að báli og endar sem
glóð. Vatnið vellur fram úr uppsprettulind sinni, áin grefur sér farveg og endar
í hafinu. Jörðin hefur iður og mjúka mold, síðan tekur við mörkin eða akurinn
og að lokum rís fjallið. Þrjú stig loftsins er erfiðast að skilgreina. Fyrst
er saklaus snerting hins ósýnilega, síðan jafnvægi flugsins og loks sjálft himinhvolfið.
Þannig geta menn eftir stjörnumerki sínu borið sig saman við fræið,
fylgt árhringum og séð áhrif höfuðskepnanna á eðlisgerð sína.
Hrúturinn er fyrsta eldsmerkið og nær yfir einmánuð. Þá er fræið rétt að
vakna af dvala og búa sig undir að teygja úr sér og fara að spíra. Hrútarnir eru
því gjarnir á að vera frumkvöðlar, hver á sínu sviði, töluvert miklir fyrir sér,
einkum í æsku og setja allan kraftinn í að vakna upp, vekja aðra og þenja sig á
einn eða annan máta. Fyrsta eldsmerkinu og skaplyndi hrútanna má líkja við
logann sem fer yfir akur. Hann er snöggur en brennur ekki alltaf lengi.
Nautið er fyrsta jarðarmerkið og nær yfir hörpu. Jörðin táknar mjúka og
nærandi moldina. Þá fer fræið að renna rótarspírunni niður í jarðveginn og
reynir af öllu afli að festa sig þar, enda er það fræinu lífsnauðsyn ef það ætlar
að lifa af í umróti lífsins. Þess vegna eru nautin sögð vera föst fyrir og haldin
öryggisþörf. Þau eru í senn jarðbundin og listræn. En þrátt fyrir þrjóskuna
eru þau ábyrgðarfull og kærleiksrík og þurfa góða umönnun í æsku.
Tvíburinn er fyrsta loftsmerkið og nær yfir skerplu. Þá setur fræið út kímblöðin
og þeirra hlutverk er að læra að vinna næringu úr loftinu. Loftið táknar
í senn léttleika og hreyfifrelsi. Fræið er farið að taka á sig mynd og orðið að ofurlítilli
plöntu. Tvíburarnir taka hlutverk sitt alvarlega og hættir jafnvel til að
taka ekki nægjanlegt mark á öðrum. Þeim finnst hraði og samskipti mestu máli
skipta, nýjungagjarnir eru þeir og taka gjarnan hugmyndir fram yfir gerðir.
Krabbinn er fyrsta vatnsmerkið og nær yfir sólmánuð. Vatni krabbans má
líkja við uppsprettulindina eða lækinn. Plantan er búin að þroska stöngul og
blöð, vökvinn flæðir úr jörðinni upp eftir stilknum með sogkrafti. Fullbúið
kerfið er komið á. Fræið er tilbúið að fjölga sér og krabbarnir eru því heimiliskærir og virða venjur og siði. Þeir leita eftir stöðugleika en eru viðkvæmir
vegna vatnsins, sem þrátt fyrir ytri merki um jafnvægi verður að lokum að
koma innan frá.
Ljónið er annað eldsmerkið og nær yfir heyannir. Ljónunum má líkja við
plöntuna fullþroskaða í öllu sínu veldi og blómskrúði. Eldurinn er miðsumarbálið
sem brennur glatt. Sólin skín hæst á himni en jörðin sjálf er eins og í
sumardvala og lætur sólinni eftir athyglina. Ljónin eru sum hver með slétta
húð og skínandi andlit, önnur svolítið skörp eins og ljónynjur í framan.
Skapið er oft heitt og sjálfstraustið mikið og þeim líkar vel að vera í forsvari
og láta bera á sér.
Meyjan eða tvímánuður er annað jarðarmerkið. Meyjunum má líkja við
plöntur þegar vaxtartímanum er lokið og búast má við uppskeru. Melting
meyjanna er gjarnan viðkvæm í margvíslegum skilningi. Fyrri helmingi ársins
er lokið, sólin farin að lækka á lofti og jörðin sjálf orðin virkari. Meyjarnar eru
nákvæmar og stöðugt að taka til eins og uppskerumaðurinn, sem setur allt á
sinn stað. Þær gefa gaum að mörgu og geta jafnvel leyst jarðnesk vandamál
sem vefjast fyrir öðrum.
Vogin er annað loftsmerkið og nær yfir haustmánuð. Nú ríkir jafnvægi í náttúrunni
og tengist merkið starfsemi lungnahvelanna. Náttúran er upphafin og
komið jafndægur. Fræið farið að myndast eða allavega ávöxturinn sem heldur
utan um fræið. Aldinið er sætara en grænmeti og korn. Eplið er ímynd hinnar
fögru gyðju og vogirnar eru oft afar fríðar ásýndum en þær geta verið
svolítið óraunsæjar, enda fræið að þroskast og líf plöntunnar að fara yfir á
annað og óþekkt tilverustig.
Sporðdrekinn eða gormánuður er annað vatnsmerkið. Fræið er búið að
draga sig inn í skel og vatnið að gera sér ákveðinn farveg og rennur jafnvel að
hluta til hulið eða neðanjarðar. Sporðdrekarnir hafa um sig hjúp og eru ekki
útreiknanlegir eða auðskildir við fyrstu kynni. Skaplyndið getur bæði verið
lygnt eða strítt eins og harður straumur. Fræin eru viðbúin að berast á nýjan
stað, skjóta þar rótum og vaxa upp. Þau þurfa að þola flutninginn og lifa af
sökum getu sinnar og útsjónarsemi.
Bogmaðurinn er þriðja eldsmerkið og nær yfir mánuðinn ýli. Þá brennur
bálið ekki glatt eins og um miðsumar. Nú er það glóðin, sem lýsir og menn ylja sér við. Bogmanninum má líkja við fræ sem er öruggt í skel sinni, nógu
öruggt til að láta sig dreyma vetrarnóttina langa um sögur og ævintýr. Það
bíður þess í makindum sem verða vill. Makindi og veislugleði einkenna oft
bogmanninn þótt hann sé að skjóta örvum sínum en það eru sólarörvar til
hvatningar, hann ætlar ekki í stríð.
Steingeitin er þriðja jarðarmerkið og nær yfir mörsug. Komið er fram yfir
sólstöður á vetri og með hækkandi sól hafa makindin verið rofin. Jörðin rís og
myndar hæðir og tinda af huldum eldi fólgnum í iðrum jarðar. Fræið veit að
nú þarf það að búa sig undir að vakna á ný og steingeitur unna sér ekki hvíldar
enda klettadýr og vilja klifra. Þær þurfa að vera viðbúnar því að keppa, þótt
þær viti ekki alltaf að hvaða marki. Að klifra upp og vilja fram þótt þær séu í
eðli sínu harla jarðbundnar.
Vatnsberinn er þrátt fyrir nafnið þriðja loftsmerkið og nær yfir þorrann. Þá
er eins og fræið sé farið að hlusta eftir kennitáknum vorsins. Vatnsberinn hefur
glöggt innsæi og er gjarn á að nema hugmyndir eins og úr lausu lofti gripnar
og er oft spenntur fyrir tímamælingum. Tilhlökkunin liggur í loftinu eins
og hjá fræinu sem nú er að búa sig undir að bregða blundi. En tíminn er enn
ekki kominn og vatnsberinn er því stundum seiný roska framan af, þótt hann
fari gjarnan ótroðnar slóðir.
Fiskarnir eru þriðja vatnsmerkið og nær yfir góu. Brátt kemur jafndægur á
vori. Vatnið sem hefur sprottið fram og runnið eftir farvegi sínum til sjávar er
orðið að hafi. Hafið er móðir alls lífs. Fiskar verða oft langlífir. Fræið er orðið
þrautseigt en líka dreymið af því að bíða eftir að eitthvað gerist. Hvað varðar
skaplyndi geta fiskarnir bæði verið yfirborðskenndir eða kafað djúpt og margt
er með þeim líkt og fánu sjávarins. Þeir skálda og vita þó að draumnum fer
senn að ljúka.
Um eðli hlutanna
Guð er á himnum,
gras á jörðu.
Menningin, sem við fengum í arf frá Grikkjum, deilir heiminum, jafnt þeim
sýnilega og þeim ósýnilega, í fjóra þætti. Höfuðáttirnar eru fjórar.
Höfuðskepnurnar eru fjórar: Eldur, loft, vatn og jörð. Bragð getur verið eitt af fjórum: Súrt, sætt, salt eða beiskt. Lyndiseinkunnirnar eru fjórar:
Glaðlyndi, þunglyndi, rólyndi og ákaflyndi. Þessi fjórskipting eðlisins endurspeglast
í hugmyndafræði og sögu læknislistarinnar.
Við getum mörg hver greint líkamsgerð okkar samkvæmt kerfi hinnar fornu indversku
læknislistar aurveda, vitum deili á kínverskum stjörnumerkjum dýranna
og kunnum nokkrar þokkafullar hreyfingar tai chi eða chi gong en vitum minna
um sumar hliðar eigin menningar, enda upplýsingar ekki allar aðgengilegar. Það
tók mig að minnsta kosti drjúgan tíma að grafa fram þetta ferli, sem ég vona að
sé nokkurn veginn rétt. Rétt er afstætt hugtak og upplýsingar frá sambandi
breskra grasalækna annars vegar og úr ritum Vilmundar Jónssonar landlæknis
hins vegar túlka gjörólík sjónarmið og endurspegla ólíka menningarheima. Sem
grasnytjungur vil ég þó kynna mér mína eigin sögu eftir getu. Ég trúi því að
vitneskjan opni leið til að nálgast hin stærri lögmálin.
Faðir læknisfræðanna
Hippókrates (460–377 f.Kr.) ber nú aftur titilinn „faðir læknisfræðanna“ eftir
að Galenos, arftaki hans, var sviptur þessari nafnbót fyrir um 200 árum.
Kenningar Hippókratesar áttu sér rætur í hugmyndafræði Platons og
Aristótelesar. Hippókrates áleit sjúkdóma stafa af ójafnvægi, sem skapaðist
milli hinna fjögurra eðlisþátta, því hann tengdi fjórskiptingu náttúrunnar við
jafn marga höfuðvessa líkamans. Vessarnir eru blóð, gult gall, svart gall og
slím og þeir tengjast ákveðnum líffærum. Náttúran, sagði Hippokrates, er
besti heilarinn og hlutverk hins eiginlega læknis aðallega í því fólgið að sætta
sjúklinginn við umhverfi sitt. Þá kemst jafnvægi á líkamsstarfsemina.
Kenningar Hippókratesar bárust til Rómar um 100 árum f.Kr. en fljótlega var
þar þó farið að líta á mannslíkamann sem vél eða kerfi sem yrði „að kippa í
lag“, og ekki fylgt eftir þeirri hugmyndafræði að flestir sjúkdómar læknist af
sjálfu sér við eðlilegar aðstæður. Lyf voru dýr í Róm og lækningar ábatasöm
atvinnugrein. Fall borgarinnar í hendur innrásarþjóða olli viðskilnaði frá
grískri menningu og leiddi til enn frekari hnignunar á sviði lækninga. Að lokum
má segja að hver hafi farið að bjarga sér með alþýðleg ráð, enda stuðlaði
kirkjan, með höfuðaðsetur sitt í Róm, lítið að vísindaiðkunum.
Tvær merkar lækningabækur voru ritaðar á tímabilinu fyrir fall Rómaveldis.
Önnur er Materia Medica, klassísk lækningabók, samin af Padaniusi Dioscorides kringum árið 60 e.Kr. Dioscorides hefur verið sagður
einkalæknir Antóníusar og Kleópötru og herskurðlæknir hins illræmda keisara
Nerós. Bók hans varð með allra langlífustu handbókum, því hún var notuð
næstu 1500 árin eftir að hún var skrifuð eða fram yfir siðaskipti.
Önnur lækningabók var samin nær tvö hundruð og fimmtíu árum síðar.
Höfundur hennar, Galen, eða Claudius Galenos (131–190 e.Kr.), fæddist í
borginni Pergamon í Litlu–Asíu. Galenos var upphaflega læknir við skylmingaskóla
en síðar hirðlæknir Markúsar Árelíusar og skrifaði mikið og margt
um hið fjórskipta eðli. Hvað varðar lyfjategundir studdist hann við grunn
þann sem Dioscorides lagði og jók þar við. Hann tók upp þráðinn frá
Hippókratesi, felldi þó niður ýmsa þætti og þróaði fastmótaðra kerfi. Þótt
hann væri fyrst og fremst lyflæknir kunni hann nokkuð til handlækninga eftir
að hafa starfað við skylmingaskólann.
Eftir fall Rómar á 5. öld er talað um að í Miklagarði, en þó einkum í Persíu, hafi
kenningar Galenosar verið þróaðar áfram. Arabar og Persar keyptu fræðimenn
til að þýða grískar og latneskar lækningabækur á sín tungumál. Í Austurlöndum
nær risu upp öflugar menningarheildir múhameðstrúarmanna sem kynntust
kenningum Galenosar. Kenningunum var vel tekið og þær bræddar saman við
siðvenjur og lækningar sem áttu sér rætur í hinu forna Egyptalandi og voru því
nokkur þúsund ára gamlar. Í Evrópu ríkti aftur á móti stöðnun hvað varðaði
vísindaiðkanir, þótt Írar hafi lagt sitt af mörkum með afritun texta.
Galenos flokkaði jurtir í heitar, kaldar, þurrar eða rakar. Þó gat sama jurtin
haft margvíslega eiginleika rétt eins og verið væri að lýsa skapgerð manns.
Arfi er í senn sætur, rakur og kælandi en basilíka er sæt, sterk, svolítið bitur,
mjög hitandi og þurr. Jurtirnar samsvara og vinna með vessunum. Blóð er
heitt og rakt, gult gall heitt og þurrt, svart gall kalt og þurrt, en slím kalt og
rakt. Auk hinnar flóknu fjórskiptingar eðlisins tók Galenos tillit til stjarnanna
og áhrifa þeirra, ekki þó þannig að þær stjórnuðu fólki beinlínis, heldur tækju
skynsamar manneskjur tillit til afstöðu himintunglanna við meiri háttar
ákvarðanir.
Hverjum heilbrigðum manni er eiginleg ákveðin vessablanda, með tilliti til
aldurs, kynferðis, dvalarstaðar, loftslags og veðráttu, árstíðar og lifnaðarhátta.
Sjúkdómur veldur eða orsakast af vessaröskun sem jurtunum er ætlað að upphefja
eða mótverka. Heita sjúkdóma þarf að kæla, hita þá sem eru kaldir, þurrka þá sem eru rakir og væta þá sem eru þurrir. Ýmislegt gat þá stangast
á, svo sem að ástand sjúklings krefðist hita og kulda samtímis. „Stundum
voru lyfin, eins og þau komu fyrir, þegar gædd hinu verkandi eðli sínu, en
einnig gátu þau öðlast það fyrir hin eða önnur áhrif, er þau urðu fyrir, eða
jafnvel valdið áhrifum, er voru algerlega andvirk eðli sjálfra þeirra,“ skrifar
Vilmundur dálítið óþolinmóður og er að tala um hin samsettu lyf en bætir
við að Galenos „... lagði að dæmi Hippókratesar, áherzlu á hollustusamlega
lifnaðarháttu og fór að ýmsu furðu nærri nútíðarskilningi manna í þeim
efnum“.
Samsettu jurtalyfin byggja á flóknu kerfi sem erfitt er að læra og skilja.
Ágætan lækni þekki ég, núlifandi, sem myndi brosa og benda á að innsæið
væri stór hluti af meðferðarfræði Galenosar, sem var sagður bæði vandvirkur
og kröfuharður og hélt skrá um lyf við hverjum sjúkdómi. Til að beita
innsæinu þarf hugsunarhátt og þekkingu, sem lærist aðeins mann fram af
manni upp á gamla mátann. Galenos aðhylltist gildi hinna samsettu lyfja þótt
áhrifin gætu verið mótsagnakennd. En vissulega eru nútímalyf ekki heldur
laus við hliðarverkanir.
Læknirinn Avicenna, sem var fæddur í Afganistan á 10. öld, var feiknmikill
fræðimaður og lét eftir sig 276 ritsmíðar og var kallaður „konungur læknanna“
á sinni tíð. Frægust rita hans varð bókin Kitab a-Qanun (Lögmál
læknisfræðinnar). Múhameðstrúarmenn komust oft í snertingu við
Evrópumenn, ekki síst er Márar freistuðu þess að ná tangarhaldi í álfunni á
Spáni, en einnig gegnum krossferðirnar og ýmis viðskipti. Krossferðirnar
urðu til þess að fjöldi alvarlegra farsótta breiddist út en einnig til að leggja
grundvöllinn að hjúkrun sjúkra. Fyrir tilverknað þessara menningarlegu
snertiflata snýst þróunin við þegar bók Avicenna var þýdd úr arabísku yfir á
latínu. Það gerði Constantínus Africanus (1010–1087) frá Karþagó. Africanus
gerðist benediktínamunkur en hafði lært til lækninga í Salernó, fyrsta og
eina læknaskóla álfunnar þar sem konur fengu einnig menntun, enda
skólinn utan áhrifasviðs kirkjunnar. Naut bókin strax gífurlegra vinsælda og
þannig voru hugmyndir Galenosar endurkynntar á Vesturlöndum, og hann
fékk þá heiðursstöðu að vera kallaður „faðir læknisfræðinnar“ á miðöldum.
Þannig kynntust Evrópubúar hvoru tveggja, sínum fornu vísindum og lækningakerfi
Araba, Unani, eins og það hafði þróast í nokkrar aldir samfara hinu
vestræna. Unani stóð með miklum blóma fram á 18. öld og lifir enn góðu
lífi á Indlandi, þar sem það er nefnt Unani-Tibb.
Breskir lyfjafræðingar studdust við bók Avicenna og fræði Galenosar allt
fram á 19. öld. Segja má að læknislist Araba og Evrópumanna sé þannig
samofin eins og snákarnir um staf Asklepiosar, guðs læknislistarinnar hjá
Grikkjum. Evrópumenn fengu líka að láni frá Aröbum á þessum tíma
margvíslega tækni og hráefni til að leysa vandamál sem þeir stóðu frammi
fyrir og vörðuðu eldamennsku. Sú tækni, sem Arabar bjuggu yfir, hafði
orðið til við sambræðslu fjölbreytilegra eldunaraðferða og hráefnisnotkunar
sem hafði þróast meðal Rómverja, Persa og ýmissa hirðingjaþjóðflokka.
Austrænar kryddjurtir koma í kjölfar krossferðanna og eru notaðar sem lyf
en einnig við matargerð eins og mandlan og piparinn.8 Arabísk orð eru þá
tekin inn í vestræn tungumál og er sykur þeirra þekktast.
Læknirinn Paracelsus (1493–1541) gerir nánast uppreisn gegn fræðum
Galenosar og Avicenna. Endurreisnartíminn er tími gullgerðarmanna og á
16. og 17. öld vex efnafræðinni, afsprengi gullgerðarlistarinnar, fiskur um
hrygg og hún þróar áfram brautryðjandastarf Paracelsusar til að nota málmaog
málmleysingjasambönd til lækninga. Það eru helst járn, blý, kvikasilfur, eir
og antímonsambönd, sem notuð eru í plástra og inntökur. Einkum virkaði
kvikasilfur vel til að vinna bug á sýfilis eða sárasótt. Þegar smásjáin kemur til
sögunnar og raunvísindin fara að ryðja sér til rúms verður hún einn orsakavaldurinn
að breyttum viðhorfum, því ekki var hægt að sjá eða mæla lífsorku
eða eiginleika líkamsvessanna blóðs, galls og slíms, sem gengið hafði verið út
frá við greiningar um aldir. Aftur á móti verður smásjáin til þess að þróa bakteríufræðina.
Eiginleg læknadeild er stofnuð við Kaupmannahafnarháskóla
1736 og skurðlæknadeild hálfri öld seinna eða árið 1785 og voru þá liðin 200
ár frá því Paracelsus hóf baráttuna fyrir því að sameina þessar tvær greinar.
Fram að því höfðu handlækningar verið taldar óæðri og einkum stundaðar af
bartskerum og jafnvel böðlum en læknisfræði verið lítt skilgreint hugtak í
háskólum. Breyttir tímar fara í hönd, tími til að velta Galenosi af stalli og þar
með hefur Hippókrates endurheimt titil sinn.
Vilmundur lifir og hrærist á tímum hraðstígra framfara og hefur eðlilega enga
þolinmæði til að greina vessa með púlsafræði, sem hann þó kallar góða læknalatínu
sem hafi staðist tímans tönn. Menntun hans gerði ekki ráð fyrir að
þjálfa innsæið og alls konar hindurvitni ergja hann. Hann játar hreint út að
sér þyki lítið til alls þessa koma en réttsýni hans og skynsemi fær hann þó til
að leiða hugann að því hvernig litið verði á læknavísindi samtímans eftir 300
ár. Það má ekki gleyma því að kirkjuvaldið átti sinn stóra þátt í því að halda læknislistinni í fræðilegri spennitreyju svo hún gat ekki þróast fyrr en raunvísindin
sprengdu þann þrönga stakk sem henni var sniðinn. Náttúru- og grasalækningar
eiga rætur sínar í ritum Galenosar og Avicenna og bilið í milli þeirra og
nútíma lyf- og skurðlækninga hefur enn ekki verið brúað. Hómopatía eða
smáskammtalækningar er önnur grein af fræðum Hippókratesar, uppbyggð af
Samuel Friedrich Hahnemann (1755–1843) en hún hefur notið miklu minni athygli
en allopatían sem „varð ofan á“ ef svo mætti segja.
Um fjórskiptingu eðlisins
Það var kennt í hinum gamla læknaskóla í Salernó á Ítalíu, sem byggði á vessakerfinu
og Galenosi, að hægt væri að ná jafnvægi í líkamanum með því að velja
sjúklingnum rétta fæðu. Ákaflyndur maður átti að forðast sterka eða „heita“
fæðu og sömuleiðis átti gamalt fólk, með of mikið vatn og slím í líkama sínum,
að forðast fæðu sem var köld eða rök. Hinn ákaflyndi átti þannig að nærast á
svalandi fæðu en sá sem var kominn til ára sinna átti að neyta fæðu sem kæmi
yl í kroppinn og það sama gilti fyrir börn. Í Evrópu var, eins og meðal Kínverja
og Indverja, reynt að flokka fæðuna á sama hátt og frumeðlisþættina. Það er þó
auðveldara að greina þunglyndan mann, enda sést það oft af göngulaginu einu
saman, eða ákaflyndan mann sem er hávaðasamur og sísvangur, heldur en að
segja til um hvaða fæðutegundir eru opnandi og gefa orku og teljast heitar og
hverjar eru samandragandi og léttar í sér og teljast kaldar. Í Indlandi í dag er
kjöt og sterkt krydd talið til heitrar fæðu en smjör og hunang, hveiti, hrísgrjón
og sykur er talið til kaldrar fæðu. Vestrænir telja ávexti til kaldrar fæðu. Þunglyndur
maður mátti því hvorki borða epli, perur eða ferskjur, mjólk eða osta,
ekki borða saltað kjöt né kjöt af dádýrum, hérum, nautum eða geitum samkvæmt
reglum Salernóskólans. Það var auðveldara að skilgreina lækningajurtir
og flokka eftir eðlisþáttum náttúrunnar en almenna fæðu. Matur er oft
margsamsettur og eðli hans getur breyst við geymslu og matreiðslu. Sama
gildir reyndar um krydd- og lækningajurtir, sem kunna að vera kaldar ferskar
en heitar þurrkaðar svo dæmi sé tekið.
Sanguineum
Ef maður er léttlyndur (heitur og rakur) en sækinn í óhóf og fíknir þarf að
kæla hann niður með jurtum sem hreinsa og kæla líkamskerfið. Má þar
nefna brenninetlu, vallhumal, garðabrúðu og salvíu. Árstíð hans er vorið,
æviskeið æskan, tími hans morgunninn og höfuðskepna eldurinn.
Cholericum
Ef maður er ákaflyndur (heitur og þurr) og þjáist þar á ofan af skapofsa og
slæmsku í lifrinni má reyna kælandi og rakar jurtir eins og fjólu og fífil og
vona að þær hreinsi gula gallið. Árstíð hans er sumarið, æviskeið
þroskaárin, tími hans dagurinn og höfuðskepna loftið.
Melancholicum
Ef maður er þunglyndur (kaldur og þurr) hefur hann líklega harðlífi og er
þjakaður af áhyggjum. Þá þarf að hressa við svarta gallið og gefa honum
heitar jurtir og rakar eins og hörfræ, kamillu og hafra. Árstíð hans er
haustið, æviskeið efri ár, tími hans kvöldið og höfuðskepna jörðin.
Phlegmaticum
Ef maður er rólyndur (kaldur og rakur) og kvefast og stíflast í höfði þá má
reyna jurtir sem eru þurrar og hlýjar eins og blóðberg, hvítlauk, hóffífil og
gulmöðru til að vinna á slíminu. Árstíð hans er veturinn, æviskeið ellin,
tími hans nóttin og höfuðskepna vatnið.
Í austri
Sú hefð að fjórskipta eðlinu gildir ekki um alla heimsbyggðina. Kínverjar
sjá veröldina frá töluvert öðrum sjónarhóli. Jin og jang eru hinir tveir andstæðu
en síbreytilegu eðlisþættir sem urðu til vegna aðskilnaðar andans frá
hjarta kaosar eða glundroðans. Jang var léttara og myndaði því himininn en
jin var þyngra og úr því varð jörðin. En af því þessir tveir eðlisþættir voru
upphaflega heild, leita þeir stöðugt hvor annars en halda þó sínum séreinkennum.
Jin breytist í jang og jang breytist í jin. Sumar breytist í vetur og
vetur í sumar. Dagur breytist í nótt og nótt breytist í dag. Vatn gufar upp
og fellur aftur niður til jarðar. Maðurinn varð til úr lífsanda himins og
jarðar og er því nokkurs konar miðlari þessara tveggja afla. Lífsandinn chi
er frumorka og af henni eru tvær megintegundir. Önnur er manninum
meðfædd og breytist ekki, en hana má styrkja með góðum lífsvenjum og
jafnvægi, sem skapast af hollu mataræði, líkamsæfingum og hugleiðslu. Hin
tegund frumorkunnar er áunnin. Hana fáum við úr mat, drykk og því lofti
sem við öndum að okkur og það er sú orka sem við endurnýjum frá degi til
dags.
Kínverjar skipta nú höfuðskepnunum og líffærakerfi mannsins í fimm hluta
sem eru innbyrðis samofnir. Höfuðskepnurnar eru: Málmur, vatn, viður, eldur
og jörð. Árstíðirnar eru fimm, því þeir telja síðsumrið með. Viður er
grænn, tengist vori, súru bragði, reiði og lifur. Eldur er rauður, tengist sumri,
beisku bragði, gleði og hjarta. Jörð er gul, tengist síðsumri, sætu bragði,
áhyggjum, galli og maga. Málmur er silfurlitaður, tengist hausti, sterku
bragði, sorg og lungum. Vatn er svart, tengist vetri, söltu bragði, ótta og
nýrum. Eins og hjá Grikkjum er litið svo á að ójafnvægi hinna ýmsu þátta leiði
til sjúkdóma. Í góðri máltíð eiga helst að vera fimm litir, rautt, gult, grænt,
hvítt og fjólublátt. Eldunaraðferðirnar fimm eru hrátt, soðið, grillað, steikt og
gufusoðið og mega gjarnan allar vera notaðar í hverri máltíð. Bragði deila þeir
í fimm hluta og kalla þá: Sojasósu, salt, sykur, edik og sterkt. Japanskir búddamunkar
telja að allt leiði þetta af fimmskiptum uppruna andans: Trú, orku,
minni, hugleiðslu og visku.
Kerfi Indverja
Aurveda, forn læknislist Indverja, skiptir manngerðum í grundvallaratriðum í
þrjá flokka: Loft og andi skapa vata eða vindinn; Eldur skapar pita eða gall; Jörð
og vatn skapa kappa eða slím. Manngerðin vata samsvarar nokkurn veginn hinum
þunglynda, pita hinum ákafa og kappa hinum rólynda í gríska kerfinu. Matur,
drykkur, útrás kennda, ljós, ferskt loft og andlegar iðkanir er það, sem verður
til að ýta undir rétta brennslu meltingarfæranna og til að ná fram hæfilegri
blöndun vessanna og þar með heilbrigði. Hjá Indverjum er bragði hins vegar
deilt í sex flokka. Þeir bæta við samandragandi eða herpandi bragði, sem er
reyndar vel þekkt hjá vestrænum grasalæknum sem barkandi. Bíti maður í slíkt
blað er eins og slímhúðin í munninum dragist saman og þorni.
Við gerum sjaldan greinarmun á beisku og bitru, hvað þá barkandi og eigum
til að forðast allt þetta. Það er alger matarsynd því að kosturinn verður
daufur, ef hið beiska og bitra er undanskilið. Allir þekkja samspil súrs og
sæts. Á sama máta er gott að nota ögn af salti til að slá á beiskju og prófa
saman beiskt og súrt. Amma var vön að betrumbæta súpu, sem hafði óvart
orðið of sölt, með svolitlum sykri. Við þurfum að læra aftur að meta samspil
ólíkra bragðtegunda. Sykurinn hefur verið allsráðandi í matargerð
síðustu áratugina og kaffið um það bil það eina beiska sem við neytum.
Næsta vor má gjarnan setjast undir vegg, smakka á grænum blöðum og
reyna að greina á milli þess sem er biturt, þess sem er beiskt og þess sem er
barkandi eða ísnarpt.
Í vestri
Í Evrópu áttu einstakir þjóðflokkar sínar eigin lækningahefðir frá fornu fari.
Þessar hefðir blönduðust smám saman klassískari fræðum að sunnan og austan.
En þróunin var nokkuð tilviljanakennd. Samfara því að kirkjan efldist í hinum
ýmsu löndum jukust áhrif hennar. Í klausturgörðum voru ræktaðar lækningajurtir
og lyf þróuð. Ein aðferð við að þróa lyf var að taka þau inn eftir föstur
og fylgjast vandlega með og reyna að skynja hvað átti sér stað í líkamanum
við inntökuna. Þetta var gert meðan ekki var um aðrar rannsóknaraðferðir að
ræða. Ekki gefur Vilmundur Jónsson þó mikið fyrir lækningar munkanna á
miðöldum, en segir að alþýða manna hafi mest bjargað sér sjálf, eins og hún
hafði alltaf gert „við hindurvitni sín og skottulækningar. Sjúklingar áttu helst
athvarf í klaustrum, og lumuðu sum þeirra á rytjum af skræðum Hippókratesar
og Galenosar ... Það, sem skráð var af lækningafróðleik, var einkum sundurleitur
samtíningur héðan og handan, og urðu urtabækur og hindurvitnaskrár,
sem lengi eimdi eftir af (munkalæknisfræði)“.
Það voru helst munkar af reglu heilags Benedikts frá Núrsíu sem kunnu eitthvað
fyrir sér, því þeir höfðu frá stofnun reglunnar lagt stund á lækningar. Í
Rupertsberg, benediktínaklaustri í Rínardalnum, var um 1150 rituð lækningabók.
13 Abbadísin Hildegard von Bingen var höfundur bókarinnar, sem var
á latínu og líklega ætluð sem handbók til notkunar í sjúkrastofnunum klaustursins,
en á tímum krossferðanna jókst almennt hjúkrunarstarf. Þótt upprunalegu
klausturbyggingarnar hafi verið skotnar í tætlur í þrjátíu ára stríðinu, svo ekkert
stóð eftir nema hluti af kjallaranum, þá hefur þéttvaxin þyrping reisulegra
bygginga risið á gamla grunninum í ávölum hlíðunum upp af fljótinu. Þetta er
einn af jarðarinnar yndisreitum sem horfir mót sól og þar er hver lófastór blettur
ræktaður og hægt að ganga tímunum saman eftir mjúkum engjavegum
vínekranna. Hildegard var gefin í klaustur 10 ára gömul og lærði þar öll þau
störf er klausturlíf útheimti, svo sem að biðja, syngja, spinna og sinna gróðri.
Ekki er til þess vitað að hún hafi numið læknisfræði sérstaklega og hún kvartar
helst yfir að hafa ekki öðlast meiri kunnáttu í latínu og æðri tónlist. Það er álitið
mögulegt að hún hafi skrifað læknisfræðina upp eftir öðrum þótt hennar nafn
sé undir en enginn efi að hún var afar jurtafróð. Sambýli við plöntur var hluti
af klausturlífinu. Það kemur fram í skrifum hennar og eins er það ríkur þáttur í
lífi nunnanna í Rupertsberg og systurklaustrinu Eibingen enn þann dag í dag.
Þá var liðin öld síðan Galenos var þýddur og sjálfsagt hafa fræði hans verið
kunn í klaustrinu og einnig rit Dioscoridesar enda sjást áhrif hans og annarra á plöntufræði Hildegard. Rínardalurinn var í alfaraleið og Hildegard
skrifaðist á við bæði Bernhard von Clairvaux og Eugenius III. páfa. Hún var
ein mikilhæfasta kona sinnar samtíðar og lét eftir sig sex bækur á tímum þegar
aðeins meiri háttar höfðingjar og mektarklaustur sinntu bókagerð.
Besta handritið af lækningabókinni er varðveitt í Konunglega bókasafninu í
Kaupmannahöfn, upprunalega komið frá klaustri í Trier, en hvorki steinafræðin,
dýranöfnin né jurtabókin, sem lýsir 213 jurtum sem þekktar voru og
uxu í klausturgörðunum, eru þar með. Þótt Hildegard færi sínar eigin leiðir
og hefði sterkar skoðanir, þá leitaði hún eftir viðurkenningu kirkjuyfirvalda á
sannleiksgildi yfirnáttúrlegra vitrana sem yfir hana komu og voru teiknaðar
upp í klaustrinu. Því er engin ástæða til að halda að lækningabók hennar hafi
farið á skjön við viðteknar skoðanir kirkjunnar en vitranir hennar útskýra
persónulega nálgun til sköpunarsögunnar sem nær yfir fyrsta hluta bókarinnar,
og sem er nokkurs konar útskýring á vessakerfinu.
Hildegard segir svo um sköpun heimsins, mannsins og hugsanleg ragnarök:
„Guð skapaði höfuðskepnurnar og náttúruöfl veraldarinnar, sem einnig eiga
sér bústað í manninum. Fyrir þeirra tilverknað hefst maðurinn að. Þau eru
eldur, loft, vatn og jörð og þessi fjögur öfl hafa verið á þann hátt blönduð og
samtengd, að ekkert þeirra getur án annars verið, en saman eru þau það sem
við köllum alheim.
Guð skapaði mannkynið af leir, en karlmanninum var síðan umbreytt úr leir
í hold, og hann er því sín eigin frumorsök og herra sköpunarverksins. Hann
yrkir jörðina svo hún ber ávöxt og hann hefur kröftuga hnúa, sinar og vöðva
og náttúra hans er óspillt og hann framleiðir sæði, sem væri það ljós sólarinnar.
Konan aftur á móti, henni hefur ekki verið umbreytt, því það af henni, sem
er holdlegt, er og verður hold. Þess vegna hefur hún listilegt handbragð, og
náttúra hennar er andlegri, svo hún geti gengið með börn og fætt þau. Henni
er eiginlegt að vera dugleg og hún hefur mjúka húð, svo barnið í kviði hennar
geti andað.
Yrði það einhverju sinni ákvörðun guðs, að gangur höfuðskepnanna raskaðist
innbyrðis, myndi það skapa mikla hættu bæði fyrir menn og sjálfa veröldina,
því eldurinn yrði sem lensa, loftið sem sverð, vatnið sem skjöldur og jörðin
sem spjót fyrir mannanna gjörðir. Höfuðskepnurnar eru nefnilega undirseldar
mönnunum, og gangur þeirra stjórnast af gjörðum mannanna. Þegar mennirnir berjast innbyrðis, ógna hver öðrum, hata og öfunda og iðka aðrar
þvílíkar syndir þá truflast höfuðskepnurnar sökum þessa og afleiðingin verður
hitabylgjur, kuldi, steypiregn og flóðbylgjur. Það var samkvæmt upprunalegri
ætlun guðs að höfuðskepnurnar væru samstiga gjörðum mannanna og stjórnuðust
af þeim gjörðum, vegna þess að mennirnir vinna með höfuðskepnunum
og gegnum þær. Þegar manneskjurnar breyta rétt og eru sanngjarnar í
meðlæti og mótlæti, halda höfuðskepnurnar sig á braut sinni af guðs náð,
samstiga þörfum mannanna.“
Ég hef ekki haft tækifæri til að bera útlistanir Hildegard og grískra fyrirrennara
hennar á eðli náttúrunnar saman, enda þurftu þeir ekki að útskýra sköpunarsögu
biblíunnar. Ég hef heldur ekki getað fundið út í hve miklum mæli hún blandar
vitrunum sínum við sköpunarsöguna. Lækningakaflinn virðist skynsamleg fræði
hjúkrunarstéttar sem verður að treysta á sjálfa sig. Vilmundur sýnist ekki þekkja
til bóka hennar og það vekur upp þær spurningar hvort þær hafi verið notaðar
meira af konum eða hafi gleymst því hann nefnir ýmsar bækur, sem voru meðal
annars notaðar til kennslu. Þær eru þó með öllu lausar við hindurvitni og hjátrú
sem Vilmundur kvartar yfir að lækningabækur innihaldi. Útlistanir Hildegard á
eðli sjúkdóma fylgja hefðbundinni, fjórskiptri vessakenningu Galenosar. Sagan
um Adam og Evu minnir hins vegar óneitanlega svolítið á upprunasöguna um
aðskilnað jin og jang, annað efnið er þyngra en hitt. Hið kvenlega og hið karllega
hefur mismunandi eðli en breytir jafnframt stöðugt um eðli eins og þegar
karlmenn verða kvenlegri á efri árum og margar konur karlmannlegri. Vatn er
jin og frost er jin en ís verður jang því þá er komið of mikið af því sama og eðlið
breytist stöðugt úr einu í annað. Þannig getur Adam hafa verið jarðbundnari og
Eva loftkenndari því eins og Hildegard segir: – Adam hafði í upphafi þykka húð
og þéttan líkama en „líkamar afkomenda þeirra munu sífellt verða veikbyggðari
og þannig verður það til enda veraldar“.
Að læra til læknis
Í háskólum voru læknavísindi lengi vel í samkrulli með öðru námi eins og
guðfræði og lögfræði. Flestir Íslendingar sem fóru til náms erlendis hafa því
væntanlega haft kynni af bóklegum læknisfræðum, allt frá Ísleifi Gissurarsyni
(1006-1080), fyrsta íslenska biskupnum, sem lærði í klaustri benediktsnunna
í Herford í Þýskalandi. En þótt menn öðluðust á skólagöngu sinni
einhverja þekkingu á sviði lækninga og hefðu áhuga á þeim var um fátt að
velja þegar heim var komið nema gerast prestar eða sýslumenn en það voru embættin, sem stóðu háskólamenntuðum mönnum til boða. Sumir prestar
gáfu sig að lækningum meðfram preststarfinu eða skrifuðu rit til að hvetja
almenning til að nota jurtir sér til heilsubótar og sýndu áhuga á ræktun,
enda bjuggu þeir oft á bestu jörðunum. Saga Hrafns Sveinbjarnarsonar
(1170–1213), goðorðsmanns, prests og læknis á Eyri við Arnarfjörð er einstæð.
Hann ferðaðist til Noregs og helgra staða á Englandi, Frakklandi og
á Ítalíu og er talið að rekja megi lækningaaðferðir hans, eins og þeim er lýst
í sögu hans, til læknaskólans í Salernó, því hann kunni eitthvað fyrir sér í
handlækningum en almennt stunduðu háskólagengnir læknar ekki handverk.
Salernóskólinn var lítill læknaskóli, sá fyrsti sinnar tegundar, og rekinn
utan vébanda kirkjunnar í fyrrum rómversku heilsuhæli og þar fengu
jafnvel konur inngöngu og urðu sumar nafntogaðar ljósmæður. Sjúklingar
voru sendir heim eftir að þeim voru kenndar hreinlætisreglur í bundnu
máli.
Eitthvað hefur verið til af læknum í landinu því þegar Guðmundur góði síðar
biskup (1161–1240 ) var um tvítugt og ætlaði í siglingu leggur hann upp
frá Gásum um haust en svo vill til að skipið rekur vestur að Hornbjargi og
hann brýtur á sér fótinn svo illa að tærnar snúa aftur, þegar brotsjór ríður
yfir skipið úti fyrir Reykjafjalli. Guðmundur er borinn í land og finnur lækni
sem þar bjó og hann setur fótinn „sem hann kunni best“. Ekki hefur það þó
tekist nógu vel því „úti stóðu leggjabrotin“ þegar Guðmundur kemur í
Steingrímsfjörð þremur vikum fyrir páska. Hann heldur áfram yfir heiðar
að Reykhólum og presturinn þar sem var „ágætur maður og hinn mesti
læknir“ tekur við honum og „bakar hann fótinn og drógu tveir karlar beinið
úr fætinum með töngu áður brott gekk.“19 Guðmundur var orðinn heill
nokkrum vikum síðar eða um fardaga. Það sem eftir var ævinnar var hann á
sífelldum ferðalögum vestur og suður á landi og jafnvel hringinn í kringum
landið og hefði ekki getað það ef fóturinn hefði plagað hann svo nokkru
næmi, hvorki fótgangandi né á hestbaki, svo samanlagt hafa þessir menn
sannarlega kunnað til verka þrátt fyrir erfiðleika í upphafi. Það sem er athyglisvert
við frásögnina er að presturinn á Reykhólum vinnur ekki handverkið
sjálfur heldur „tveir karlar“. Handlagnir menn, sem litu fremur á sig
sem iðnaðarmenn líkt og bartskerar erlendis, tóku blóð, klipptu úfa og settu
brot og kipptu í lið og sinntu öðru handverki og nokkrir þeirra eru nafngreindir.
Þeir hafa að líkindum lært af erlendum bartskerum sem hingað
komu, störfuðu tímabundið og kenndu innlendum mönnum. Þess utan hafa
verið til einstaka grasalæknar eða græðarar af gamla skólanum en fræðsla um jurtir hefur að líkindum gengið í ættir og lærst mann fram að manni.
Lítið er vitað um klausturgarða en þó er það svo að þegar Eggert Ólafsson,
Bjarni Pálsson, Olavius og fleiri eru að gera úttektir á högum landsmanna
á 18. öld, virðast helst finnast leifar af ræktunarhefð á gömlu klausturjörðunum.
Eins og erlendis voru ýmis gömul handrit í umferð sem greindu frá
lækningamætti jurta, bæði innlendra og erlendra, og þar var fjallað um
blóðtökur, stjörnuspeki og steina og blandað inn hindurvitnum, að því okkur
finnst nú vera. Handrit og bækur, sem vitað er um og fjalla um læknisfræði,
ná allt aftur að lokum 13. aldar. Eðlilegt var að þeir sem menntaðir
voru skrifuðu upp úr erlendum bókum, enda var það alsiða. Í þeim uppskriftum,
sem gengu manna á milli var af íslenskum jurtum oftast minnst á
blágresi, sóleyjarrót, ljónslappa, muru, hvannarót, kveisugras, vogsúru, hrísarfa
og vallhumal eða mellifólíu.
Landlæknisembætti stofnað
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson sigla til Kaupmannahafnar til náms 1746.
Þá er búið að stofna þar læknadeild og Eggert stefnir á náttúrufræði en Bjarni
á læknisfræði, samfara náttúrufræði, einkum jurtafræði. Grasafræðin var ung
grein í mótun og sænski grasafræðingurinn Linné er um þetta leyti að setja fram
kenningar sínar. Hann skilgreindi hugtakið tegund og lýsti hverri tegund á
grundvelli stönguls og blaða. Þeim tegundum, sem eru líkar um vissa eiginleika,
skipaði hann saman í ættkvíslir. Þar studdist hann oftast við byggingu blóms og
frævu. Til að fá yfirlit yfir ættkvíslirnar flokkaði hann þær í bálka og fór þá í aðalatriðum
eftir fjölda fræfla, hvort þeir væru samvaxnir og fleiri atriðum. Þá tók
hann upp á því að gefa hverri tegund latneskt tegundarheiti sem er ávallt tvö
orð: ættkvíslarnafn og viðurnafn. Á hinn bóginn var ekki farið að flokka plöntur
í ættir fyrr en eftir daga Linnés. Darwin var ekki kominn fram með sína þróunarkenningu
og ýmsu sló saman hjá Linné þótt hann væri kokhraustur og eftir
honum er haft. – Guð skapaði, Linné skipaði (niður). Það er þess vegna ekkert
skrýtið þótt grasafræðingar nútímans flokki blóm eftir lit í flórum sínum,
okkur til hagræðis.
Bjarni fór tvisvar eða þrisvar í viku til Sjálands í jurtasöfnunarferðir á sumrin
meðan hann dvaldi í Danmörku. Hann lærði grundvöll „í urtavísi eftir gamla
mátanum, sem mest kenniteikn grasa tekur af blöðum, rótum og þess háttar
enda var Bjarna alloft síðan tamt að bregða til gamallar hækju með það ... og var
lengi frameftir tortrygginn við Linné, en það lagfærðist skjótlega eftir að hann
var orðinn initiatus sacris systematis sexualis (kunnugur kerfi Linnæusar)“.
Eftir heimkomuna tókst Bjarna að kveða niður „frantzósinn“, sem gaus upp
meðal þeirra, sem unnu í Innréttingunum. Þetta var afrek og verður að líkindum
til þess að landlæknisembættið er stofnað. Bjarni tekur við því og setur
fljótlega á fót fjórðungslæknisembættin og skipuleg ljósmæðrafræðsla
fylgdi síðan í kjölfarið. Fyrstu læknar, sem verða opinberir starfsmenn hér á
landi, eru því skólaðir í fræðum Galenosar en lifa þó á mörkum tveggja
heima. Vilmundur ímyndar sér að þeim Bjarna Pálssyni, d.1779, Jóni Péturssyni,
d.1801, og jafnvel þeim Sveini Pálssyni, d.1840, og Jóni Thorstensen,
d.1855, hefði reynst aðgengilegra að ræða um lækningar við Galenos
heldur en við hann sjálfan og dregur þar með nokkuð glögg skil, milli eldra
og yngra viðhorfs. Læknar með full réttindi, eins og sagt væri í dag, voru því
ekki til á Íslandi fyrr en eftir miðja 18. öld þegar Bjarni tekur við embætti.
Af námsferli Bjarna Pálssonar sést að grasafræðin er enn umtalsverður þáttur
af læknisnámi um miðja 18. öld.
Konur áttu ekki kost á menntun lengi vel en hlúðu hver að annarri þegar
kom að fæðingum þótt sumar væru miklu lagnari við það en aðrar. Ljósmæður
hafa ævinlega verið til (þó er vitað að einstöku karlmenn voru lagnir
við slík störf) og eins líklegt að margir grasalæknar hafi verið konur.
Dreifð búseta hér á landi hefur trúlega hamlað þróun alþýðulækninga, einkum
meðal kvenna þar sem þær áttu síður heimangengt og því erfiðara með
að hafa samskipti sín á milli en körlum. Óvíst er hvort galdrabrennurnar,
sem vissulega höfðu gífurleg áhrif um alla Evrópu, hafi haft afgerandi áhrif
hér á landi og orðið þess valdandi að eyða fornri þekkingu á grösum og
virkni þeirra. Gömul heiti á ljósmæðrum voru bjargýgur og hilpnir og konur
virðast hafa stundað almennar lækningar til forna ef marka má sögur.
Grasalækningar hafa oftast farið saman með fæðingarhjálp. Vilmundur
skrifar: „Með Forn-Grikkjum voru ljósmæður orðnar sérstök atvinnustétt,
og grískar ljósmæður störfuðu í Rómarborg. Þær kyrjuðu viðeigandi lausnarsöngva21
yfir jóðsjúkum konum og dreyptu á þær lyfjum, en kunnu að
öðru leyti nokkuð til fæðingaraðgerða, jafnvel að eyða fóstrum og vekja
fæðing fyrir tíma“. Vilmundur hnýtur um orðið yfirsetukona eða nærkona
og þykir það sýna „hve blessunarlega aðgerðarlausar þær hafa setið hjá og
horft á náttúruna fara sínu fram“.22 En hann dregur þó strax í land og flettir
upp í latnesku orðabókinni og bætir við neðanmáls að frummerking hins
latneska heitis á ljósmóður, obstetrix, sé reyndar nákvæmlega hin sama og á
íslensku og öðrum Norðurlandamálum. Obsto þýðir að standa andspænis,
obstetrix, sú sem stendur andspænis eða hjá. Það merkir að ljósmóðirin stendur hjá og hin verðandi móðir er gerandinn, hún fæðir og það er eðlilegur
framgangur lífsins. Ef Vilmundi finnst ljósmæðurnar eiga að vera
meiri gerendur er vert að rifja upp að stundum hafa þó læknar haldið aftur
af ljósmæðrum og ekki leyft þeim að fara inn á það sem þeim fannst að ætti
að vera sitt svið. Ásta grasalæknir segir frá því þegar amma hennar, GrasaÞórunn,
sem jafnframt var lærð ljósmóðir, sótti um leyfi til amtmanns til að fá
að nota fæðingartangir. Hann vísaði erindinu til þáverandi landlæknis, sem
neitaði á þeim forsendum að fæðingartangir væru hvergi notaðar af dönskum
ljósmæðrum.23 En þetta var fyrir daga Vilmundar. Hann var af annarri kynslóð,
kynslóð sem taldi það rétt og eðlilegt í bjartsýni sinni að vísindin gripu sem
mest inn í gang náttúrunnar. Reyndist hann þó konum vel í sínu embætti.
Hann var sanngjarn maður og lætur þess einnig getið að fyrir daga Sveins Pálssonar
hafi læknislærðir hérlendis enga þekkingu haft á fæðingarhjálp.
Meira um tedrykkju
„Styrkjandi urtir eru margar á Íslandi, og lítur svo út eins og skaparinn hafi
ætlað til að Íslendingar skyldu vera hraust þjóð,“ segir Alexander bóndi Bjarnason
í smáritinu Um íslenskar drykkjarjurtir, söfnun þeirra, geymslu, nytsemi,
verkanir og tilreiðslu sem kom út 1860.24 Tilgangur Alexanders er að reyna að
sporna við vaxandi kaffiþambi Íslendinga og brennivínsdrykkju og hann hvetur
menn til að hætta að drekka útlent te en nota hið innlenda í staðinn. Þarna er
viss endurómur af svokallaðri „Drykkjarbók“ sem Eggert Ólafsson skrifar
hundrað árum áður en hún er aðeins til í handriti. Eggert lifði á þeim tímamótum
þegar erlend drykkjarefni, eins og kakó, kaffi og nýlendute, fara að flytjast
til landsins og koma í staðinn fyrir sýru og mjólk. Brennd vín eru að yfirtaka öl
og mjöð og nýir brennivínssiðir að breyta eldri drykkjar- og veisluhefðum. Eggert
reynir í Drykkjarbókinni að halda fram mjaðar- og bjórdrykkju gegn sterkari
drykkjum. Mjöður er gerður úr hunangi og líklega hefur mjaðjurt einnig verið
notuð í þennan drykk hér á landi. Eftir að hunangsvínið hafði gerjað vill Eggert
grafa tunnuna djúpt í jörðu eða undir frost og láta vínið „standa“ á henni þar
yfir veturinn. Þetta hefur sjálfsagt gefið heppilegt hitastig til lögunarinnar og
heppileg aðferð til að sporna við því að menn færu að seilast í óþroskað vínið ef
þeir yrðu uppiskroppa með drykkjarföng.
Alexander var bannað að læknisráði að drekka kaffi, af því hann varð að liggja
hreyfingarlaus meðan hann var fótlama. Þá fer hann að huga að tejurtum og
segir; „...við skulum ekki láta útlenda sjómenn hæðast lengur að okkur fyrir að kaupa drykkjarefni erlendis frá en ganga fram hjá þeim sem eru miklu betri
og vaxa við hvert fótmál og útlendu sjómennirnir tíni sjálfir og noti...“25 Alexander
afsakar að hann, ómenntaður maðurinn, skuli vera að setja saman bók
og vitnar í rit lærðra manna, sem hann styðst við. Hann skrifar líklega mest
upp úr Grasafræði Odds Hjaltalíns (1782–1840) sem var læknir, náttúrufræðingur
og sinnti embætti landlæknis um tíma. Alexander leggur því
töluverða áherslu á virkni eða lækningamátt plantnanna.
Annað smárit um sama efni, Lítil ritgjörð um nytsemi nokkurra íslenzkra jurta,
kom út tuttugu árum síðar. Höfundurinn var Jón Jónsson garðyrkjumaður.26
Hann hefur kostnaðarmann sem skrifar: „ ... gekk jeg að því að kaupa handritið
að þessu kveri af garðyrkjumanni Jóni Jónssyni, sem ég vissi að lesið
hafði flest íslensk rit, er læknar og fræðimenn um þetta hafa ritað, og þar að
auki hefur sjálfur af margra ára reynslu mikla þekkingu á íslenskum grösum.“ 27
Jón segist sjálfur hafa drukkið te af jurtum í 20 ár og taka það fram yfir kaffi.
Hann fjallar örlítið meira um jurtirnar sjálfar heldur en Alexander, eins og
hvenær þær blómstra, en sleppir samt latneskum heitum og fjallar minna um
virkni þeirra. Báðir höfundarnir gefa upp heimildarmenn og vitna í Olavius,
Eggert Ólafsson, séra Björn í Sauðlauksdal og læknana Odd Hjaltalín, Svein
Pálsson og Jón Pétursson.
Síðan líða hundrað ár og þá koma út tvö rit. Fyrst ritgerð eftir Erling Filippusson
grasalækni árið 1963: Íslenzkar nytjajurtir, læknaðu þig sjálfur. Það
kver er trúlega byggt á reynslu og fjölskylduþekkingu og er því ef til vill
áreiðanlegast þeirra allra þó upplýsingar séu heldur takmarkaðar. Síðan
kemur út bókin: Íslenzkar lækninga- og drykkjarjurtir árið 1973 eftir Björn
L. Jónsson sem var sjálfur læknir og forystumaður í Náttúrulækningafélagi
Íslands. Björn skýrir rækilega frá ritum Jóns og Alexanders. Hann telur
þekkingu á grasalækningum hafa borist snemma til Íslands, aðallega frá
Norðurlöndum, en þangað lengra að sunnan. Fátt hafi þróast hér innanlands
nema kannski í sambandi við hvönnina. Björn sér að Jón á sér ónafngreinda
heimildarmenn, sem kynnu þá að búa yfir alþýðuvisku. Björn ber
saman ritin og sér að „margar lýsingar í báðum ritum (eru) svo að segja eins
og víða orðrétt hinar sömu“.
Tilgangur bókar Björns er enn sá að sporna við kaffidrykkju og hvetja landann
til þess að nota í þess stað innlendar jurtir. Björn lýsir plöntunum, lögun
þeirra, vaxtarstað og nafngiftum, og segir frá meintu lækningagildi og notkun. Rit hans er langtum veglegra en þau sem á undan komu og prýtt myndum
úr Flóru Íslands. Björn lýsir 64 jurtum og það gerir Jón einnig. Alexander
nefnir 54 og Erlingur 48 jurtir. Allir lýsa þeir nokkuð hvernig safna skuli jurtum
og þurrka, gera te, seyði, smyrsl og bakstra.
Samsetning jurtalyfja
Það hlýtur að hafa verið einn erfiðasti þáttur hinnar galensku aðferðafræði að
velja saman plöntur eftir verkan þeirra í lyfjablöndur og það verið á fárra færi
nema innsýn, þekking frá eldri kynslóðum og djúp reynsla kæmi til. David
Hoffmann hefur í bók sinni, The Herbal Handbook, sýnt fram á vandann sem
skapast af því hve brotakennd vitneskja okkar um fornar grasalækningar er.
Hann ræðir einnig um það að iðulega eru bækur skrifaðar beint upp úr eldri
bókum, eins og rakið hefur verið hér á undan, og spurning hversu lifandi og
brúkleg vitneskjan er eftir aldir af slíkri meðferð.
Hoffmann segir að við hirð velsku prinsanna hafi verið stétt lækna, kallaðir
Myddfai, sem höfðu djúpa þekkingu á hinum virku og heilandi eiginleikum
jurta. Þótt Rómverjar legðu landið undir sig varð velska menningin ekki fyrir
afgerandi áhrifum af hersetunni. Eldfornar hefðir gátu þess vegna hafa
varðveist. Englendingar lögðu svo skagann undir sig á 13. öld. Annaðhvort þá
eða síðar virðist sem harkalegar aðgerðir hafi splundrað samfélagsgerðinni og
þekking og viska grasalæknanna dreifst. Til að hún glataðist ekki með öllu
hafi einstökum fjölskyldum verið afhent til varðveislu leyndarmál eða uppskriftir
í þeirri von að þær myndu í fyllingu tímans skila sér til nýrrar
kynslóðar. Í dreifðum byggðum landsins finnist því enn fólk sem kunni eina
eða tvær uppskriftir sem virki prýðilega, án þess að viðkomandi viti af hverju
eða geti sett þær í nokkurt þekkingarlegt samhengi. Aðrir kalla grasalæknana
Ovates og segja að þeir hafi einkum haldið til á Angelsey, sem er frjósamasti
hluti Wales, og Gallar hafi sent syni sína og dætur hvaðanæva að til að læra af
þeim. Hoffmann lætur að því liggja að samsetningar jurta hafi verið eitt aðaleinkenni
þessarar fornu grasa- og læknamenningar, sem hann hefur reynt að
endurskapa að einhverju leyti.
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir hefur birt margar jurtasamsetningar í bók
sinni, Íslenskar lækningajurtir. Hvort þær er hægt að rekja til fornra vísinda
Myddfaianna eða Galenosar veit ég ekki. Linda lagaði jurtasamsetningarnar
verulega að íslenskum aðstæðum, og því eru þær okkur notadrjúgar. Sjálf hef
ég meðtekið áróður þeirra Björns, Alexanders og Jóns: Að séu jurtir notaðar að staðaldri, og te eða seyði af þeim drukkið, hafi þær heilandi
áhrif á líkama og sál sé til langtíma litið. Ég hugsa minna
um þær sem lækningalyf með ákveðna verkan.
Enda veit maður oft ekki, og læknirinn manns
kannski ekki heldur, hver hinn raunverulegi
vandi er sem að kann að steðja.
Það er bóndi minn, sem fer
út með tekatlana á vorin
og sumrin og tínir í þá
af innsæi, sem
ég læt mér
vel líka. Á
veturna geri
ég blöndur
af því sem ég
hef tínt og
þurrkað.
„Útlenskur magi í íslenskum búk.“ Þannig komst Eggert Ólafsson að orði
þegar hann var að tala fyrir því að nota það sem innlent var og heimaaflað.
Sjálfur sat hann þó inni í dyngju sinni og tottaði pípuna, en sagt er að hann
hafi dreymt um að rækta tóbakið sitt sjálfur. Eftir sprengingarnar miklu í
Nagasaki og Hírósíma, meðan verið var að berjast við afleiðingar geislunarinnar,
fengu eldri kenningar um macrobiotic eða jafnvægið í miðjunni, nýtt
líf. Þessar kenningar eignuðust marga fylgjendur bæði í Japan og á Vesturlöndum.
Þar er því haldið fram að best sé að borða það sem grær í aðeins
500 metra fjarlægð frá heimilinu. Hver staður á jörðinni hafi sína tíðni og
með því að neyta fæðu sem er langt að komin sé líkaminn stöðugt með
nokkurs konar jetlag eða þotuveiki, tíðnilega séð. Það sé líkamanum erfitt
og nánast ofviða að flengjast þannig margoft á degi hverjum til og frá um
veröldina við að aðlagast framandi tíðnisviðum og sú áreynsla geti leitt til
sjúkdóma. Macrobiotic kennir um jafnvægið, leitina að miðjunni, milli þess
sem er súrt og basískt. En hreyfingin komst í eins konar mótsögn við sjálfa
sig. Hrísgrjón, misó og svo margt annað sem mælt var með úr japanskri
hefð kom æði langt að og hentaði ekki öllum til langframa á Vesturlöndum.
Í Ameríku eiga flestir upprunaland annars staðar, eins og Reykvíkingar telja sig
flestir eiga rætur einhvers staðar á landsbyggðinni. Þegar meltingin var í ólagi var stundum spurt: Hvaðan var hún amma þín? Hugsunin, sem fólst á bak við
spurninguna, var, hvers slags meltingarfæri viðkomandi hafi fengið í arf frá forfeðrum
sínum. Hvar hún langamma hafi búið og einkum hvaða korntegundum
hún og hennar fólk hafi vanist, því að við erfum genin.
„Muna bara að maginn hefur ekki tennur“
Ég veit ekki hver sagði þetta, en snjallt er það, því margt batnar bara við það
að tyggja vel. Eigi menn í erfiðleikum með meltingu þykir
skynsamlegt að blanda ekki saman matartegundum sem eru
ólíkar í eðli sínu til að létta á kerfinu. Til dæmis að
drekka mjólk eða borða mjólkurmat einan sér, ekki
með öðru. Sömuleiðis ávexti sem kalla á sína
sérstæðu meltingarvökva, borða þá eina sér.
Borða ekki kjöt og fisk með kartöflum, kornmat
eða grjónum, heldur aðeins með grænmeti. Borða
svo saman grjón, korn og baunir og þar má
grænmetið vera með líka. Maðurinn er
alæta en kannski á hann ekki auðvelt með að
framkalla ólíka meltingarvökva alla í einu og láta þá vinna fyrsta flokks vinnu
við erfið skilyrði.
Það er því vel þess virði að skoða kenninguna um að best sé að neyta þess sem
næst manni aflast. Ein ástæðan er sú að rotvarnar- og geymsluefni ber að varast.
Það er dýrt og flókið að bera sig eftir matarmenningu margra og ólíkra
þjóða, nema maður sé staddur þar eða hafi vanið sig á hana við dvöl í landinu.
Það er gott að hafa ísskápinn einfaldan, helst tómlegan. Auðvitað eru nokkur
grunnefni sem við þurfum í eldhúsinu til að vinna okkar verk vel.
Í búrinu þurfum við að eiga:
Góða kaldpressaða jómfrúarólífuolíu
Góða steikingarolíu sem þarf ekki að vera kaldpressuð eða kókósfitu
Ögn af salti, sykri og kryddum – helst heimaræktuðum
Sítrónu eða gott edik, gjarnan balsamedik
Sætuefni eins og hrásykur, hunang og hlynsíróp
Grjón, baunir og pasta, helst lífrænt
Heilhveiti eða spelt og vínsteinsduft til lyftingar
Tómatþykkni í dós til að grípa til ef við eigum ekki heimagert
Í ísskápnum þarf að vera:
egg
mjólk og svolítið af mjólkurafurðum eða sojamjólk og hennar afurðir
grænmeti sem þarf að geyma inni
ávextir sem eiga að vera í kulda
matur fyrir daginn eða etv. afgangar frá í gær
sulta sem við höfum búið til og ekki sett í rotvarnarefni
gott sinnep
ljúfmeti til tilbreytingar, eins og ólífur, kapers og kavíar
lýsi
og ekki mikið meira
Engum hefur dottið í hug að segja: – Eigum við að kíkja í ísskápinn hvert hjá
öðru? Ég sat einu sinni á kaffihúsi með vini mínum, Magnúsi Pálssyni myndlistarmanni,
og hann segir upp úr þurru: – Eigum við að kíkja í töskurnar
hvort hjá öðru? Taka upp úr þeim og setja á borðið og þú byrjar. Eitthvað
truflaði og ekkert varð úr þessu en hugmyndin vék aldrei frá mér. Taska og
ísskápur eru svolítið persónulegri en við áttum okkur á. Erum við tilbúin að
opinbera innihald ísskápsins fyrir hverjum sem er? Það er gott að fara yfir
hann reglulega eins og við lítum eftir í garðinum og fataskápnum og ekki láta
neitt liggja og verða gamalt. Ég dreg iðulega fram á borðið og skoða allt það
sem í skápnum er. Þetta er litaspjaldið mitt og úr þessu á að verða til máltíð,
gjarnan með sem einföldustum aðferðum. Það er afar hentugt við svona
kringumstæður að gera matseðil á blaði, eða í tölvunni, því minnið er svo
götótt og matseðillinn oft svo nýstárlegur að hann tollir ekki þar inni, ekki
heldur hjá þeim sem eru ungir. Gott er að tæma ísskápinn við og við eins og
magann og þarmana, ekki bara til að þrífa hann.
Þorbjörg Höskuldsdóttir, sem málar fjöll og mannvirki í sömu hugsýn, sagði
einu sinni að það þyrfti tvo til að mála málverk. Annan til að mála og hinn til
að horfa á. Þetta væri nauðsynlegt, því að sá sem málaði vissi aldrei hvenær
nóg væri komið og kominn tími til að hætta og hinn þyrfti því að fylgjast
vandlega með og skjóta hann á hárréttu augnabliki. Þessi harkalega aðgerð
skildist mér, væri til þess að raunsæið yrði ekki of þvingandi eða fókusinn of
sterkur og sýnin hefði vissa fjarlægð í því skyni að skapa rými fyrir ímyndunarafl
áhorfandans til að athafna sig. Mér er annt um eigið skinn og ætla að
hætta núna, áður en einhverjum dettur í hug að fara að skjóta.
1) James Lovelock. Healing Gaia. Practical Medicine for the Planet. New York 1991, bls. 13.
2) Úr BA-ritgerð Elísabetar Gunnarsdóttur: Thoreau, 1969.
3) Bjarni Arngrímsson. Nýtilegt Barna-Gull eda Støfunar-og Lestrar-qver handa Børnum.
Beitistöðum 1817, bls. 79–82.
4) Almanakið (Marie Thuns Såkalender) er hægt að nálgast á dönsku hjá forlaginu Foreningen
for Biodynamisk Jordbrug, Økologiens Hus, Fredriksgade 72, 8000 Århus C.
biodynamisk-forening@mail.tele.dk
www.biodynamisk.dk
Fleiri kenningar eru til um áhrif mánans á ræktun. Sú einfaldasta er að blöð vaxi betur
með vaxandi tungli en rætur með minnkandi og lítið skuli aðhafast á fjórða kvarteli,
nema helst reyta arfa og taka til. Jafnvel á einstaka fræpakka eru prentaðar upplýsingar
um á hvaða kvarteli eigi að sá.
5) Josè Argüelles. The Mayan Factor. Path beyond Technology. Santa Fe 1987, bls. 220–21.
6) Ekkert fast kerfi, sem tengir jurtir og plánetur, virðist þó hafa verið þróað en talað er um
að ákveðnar jurtir tengist ákveðnum plánetum. Það var breski læknirinn og grasaáhugamaðurinn
dr. Culpeper sem skráði hugmyndir sínar um tengsl plánetnanna við læknandi
mátt jurta en það var löngu síðar eða um 1660.
7) Þorkell Arngrímsson. Lækningar, bls. 68.
8) Reay Tannahill. Food in History. New York 1984, bls. 189.
9) Helstu heimildir læknakaflans eru The Herb Society´s Complete Medicinal Herbal undir ritstjórn
Penelope Ody MNIMH, 1993. Lækningar – Curationes séra Þorkels Arngrímssonar
sóknarprests í Görðum á Álftanesi, 1949. Grein H.M. Chishti um arabískar lækningar í
tímaritinu East/West, ágúst 1986. Thomas Cahill. How the Irish Saved Civilization, 1995.
Hildegards Lægebog þýdd úr latínu yfir á dönsku af Jørgen Ladefoged, útg. 1997. Erindi
Jóns Ólafs Ísbergs sagnfræðings, flutt í Skálholti 1997 um læknisfræði Þórðar biskups
Þorlákssonar er birtist í bókinni Frumkvöðlar vísinda og mennta; Þórður Þorláksson, 1998.
10) Stuðst að nokkru við námskeiðsgögn Arnbjargar Lindu Jóhannsdóttur og Dagmarar
Jóhönnu Eiríksdóttur.
11) Delphine Hirasuna og Diane J. Hirasuna. Flavors of Japan. San Fransisco 1981, bls. 11.
12) Þorkell Arngrímsson. Lækningar, bls. 77–78.
13) Hildegard von Bingen. Hildegards Lægebog = Hildegards Causae et Curae: årsager og behandlinger.
Jørgen Ladefoged [þýddi]. Kbh.1997.
14) Hildegard von Bingen. Hildegards Lægebog, bls. 19.
15) Hildegard von Bingen. Hildegards Lægebog, bls. 79.
16) Hildegard von Bingen. Hildegards Lægebog, bls. 77.
17) Hildegard von Bingen. Hildegards Lægebog, bls. 67.
18) Reay Tannahill. Food in History, bls. 221.
19) Sturlunga saga. I. b. Rv. 1946, bls. 129–30 (Prestssaga Guðmundar Arasonar).
20) Endursagt að mestu úr bók Vilhjálms Þ. Gíslasonar, Eggert Ólafsson, Rv. 1926, en hann
hefur sínar heimildir úr Ævisögu Bjarna Pálssonar eftir Svein Pálsson sem var gefin út í
Leirárgörðum 1800 og endurútgefin í Merkum Íslendingum, Rv. 1951.
21) Varðandi hinar grísku ljósmæður og kyrjun þeirra hef ég spurt djúphugult fólk og það
verið rifjað upp í spjalli, að tónar og litir fara saman. Þetta var töluvert athugað af einstökum
málurum á fyrri hluta síðustu aldar. Kyrjun ákveðinna tóna kann því að hafa
kallað fram samsvörun við ákveðna liti og ákveðnar jurtir gegnum litina og dýpkað
þannig áhrif jurtanna. Einnig mun í tíbetskum klaustrum, og reyndar víðar eins og á
Indlandi, hafa verið lögð mikil áhersla á mátt tóna og áhrif þeirra á mannslíkamann og
tónar kallaðir ýmist heitir eða kaldir. Það vekur upp þær spurningar hvort GrasaÞórunn
hafi verið – kannski ómeðvitandi – að taka þátt í ævagamalli hefð, þegar hún sat
yfir sjúklingi sínum og kvað rímur til að stytta henni stundirnar.
22) Þorkell Arngrímsson. Lækningar, bls. 113.
23) Atli Magnússon. Ásta grasalæknir, bls. 153.
24) Alexander Bjarnason. Um íslenzkar drykkurtir, söfnun þeirra, geymslu, nytsemi, verkanir og
tilreiðslu. Akureyri 1860.
25) Alexander Bjarnason. Um íslenzkar drykkurtir, bls. 11.
26) Jón Jónsson. Lítil ritgjörð um nytsemi nokkurra íslenzkra jurta. Rv. 1880.
27) Jón Jónsson. Lítil ritgjörð, bls. 39.
28) Björn L. Jónsson. Íslenzkar lækninga- og drykkjarjurtir. Rv. 1973, bls. 11.
Birt:
March 29, 2007
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „6. kafli - Saga grasnytjungsins“, Náttúran.is: March 29, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/03/29/6kafli/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.