Það eru ræturnar sem sóst er eftir. Þær eru sterkar og barkandi á bragðið og fara afar vel með vatnafiski. Þær má grafa upp frá því á vorin og fram á haust en það getur verið svolítið erfitt að finna hvernig þær liggja í moldinni og þarf að leita fyrir sér.

Piparrótarsósa
Nýuppgrafin rótin er þvegin og hreinsuð vandlega. Því næst er sósan gerð. Hún getur verið majónes, súr rjómi, rjómaostur þynntur með mjólk eða rjóma, þeyttur rjómi eða jafnvel hvít sósa. Líka má notast við góða ólífuolíu og sítrónu og blanda þeim saman, eða nota rjóma og nýmalaðan pipar. Þegar sósan er tilbúin er rótin tekin og rifin smátt á rifjárni og strax sett út í sósuna. Niðurrifin rótin missir fljótt bragð ef hún er látin standa. Hversu sterk sósan á að vera er smekksatriði. Börn og unglingar vilja ekki sterka sósu en matgæðingar sækjast eftir sterku. Sagt er að bragðlaukar barna séu miklu virkari en fullorðinna. Þeir dofna svo með aldrinum.

Það eru mörg handtök sem þarf við matreiðslu eins og þessa. Það þarf að ná í skóflu, fara út að grafa, leggja afskorið kálið í biðkassann fyrir kurlun og þvo og hreinsa rótina vandlega og raspa fínlega, sem eitt sér er vandaverk. Það er ekkert vit í öðru en að fá gesti eða heimilisfólk í lið með sér og gera úr þessu skemmtun. Ég hef reynt að frysta niðurraspaða rót og taka fram seinna. Hún heldur bragði og þá er vinnusparnaður að því. Piparrót er seld sem duft og þá hefur rótin verið þurrkuð og mulin mjög fínt. Vín, sem hefur staðið á piparrót, er ormadrepandi ef það er drukkið að kveldi en læknar meltingarfærin sé það drukkið að morgni, segir í Grasnytjum.

Pólskt húsráð kennir að setja skorna piparrót og radísur í sykurlög (hér má nota hunang) og láta liggja þangað til safinn er runninn úr rótunum. Eftir eina til tvær vikur má byrja að taka inn hunangslöginn eins og hvert annað meðal, 2–3 msk á dag. Þetta þykir virka vel gegn exemi og öðrum húðkvillum.

Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin fæst keypt hér á Náttúrumarkaðinum.

Birt:
Sept. 21, 2011
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Piparrót“, Náttúran.is: Sept. 21, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/09/piparrt/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 9, 2007
breytt: March 14, 2014

Messages: