Því er lýst í hugljúfri austurlenskri sögu hvernig tedrykkja húsmóður verður að nokkurs konar innlifun þar sem ketillinn, suðið í sjóðandi vatninu og ilmurinn af jurtunum renna saman við tilhlökkunina um friðarstund. Í Japan varð enda tedrykkja að listformi í anda Zenbúddisma. Sérstök tehús voru byggð samkvæmt fagurfræðilegum reglum. Jafnvel aðkoman sjálf, þar sem stiklað var eftir óreglulegum náttúruhellum í grænu grasinu, bjó gesti undir hátíðlega athöfn. Tegerðaráhöldin, sérhver hreyfing og hugsun, allt varð að yfirvegaðri hugleiðslu.

Um það leyti sem veldi Jóns Arasonar biskups stóð sem hæst hér á landi og konur tíndu blóðberg og ljónslappa um holt og hæðir kvað japanski Zenmeistarinn Rikyú svo um tegerð og Steingrímur Kristjánsson þýddi:

Að sjóða vatn,
hræra í bollanum
og drekka teið,
allt og sumt.
Það er ómaksins vert að kunna.

Ekki er vitað hvort Jóni Arasyni var færður tebolli á morgnana. Líklegra er að temenning hafi engin verið hér fyrr en nýlenduteið fór að flytjast inn á 18. öld. Og hugsanlegt að þá fyrst hafi menn farið að drekka innlent jurtate. Seyði hefur verið gert frá örófi alda og jurtir þekktar til lækninga en það er svolítið annað. Í ferðabókinni sem hann lýkur við 1764, segir Eggert Ólafsson að matarmenning hafi breyst mikið á þeim tveimur áratugum, sem liðnir séu síðan hann fór utan til náms 1746 og meðal annars telur hann upp að nú eigi menn tegerðaráhöld. Eins má lesa það út úr formála Alexanders bónda Bjarnasonar að Íslenskum drykkjarjurtum 1860, þótt hann segi það ekki beinum orðum að sá siður að nota innlendar jurtir til tedrykkju hafi til orðið vegna þess að menn sáu erlenda sjómenn gera það.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. 

Birt:
Nov. 16, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Austurlenskar hefðir“, Náttúran.is: Nov. 16, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/07/austurlenskar-hefir/ [Skoðað:July 13, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 7, 2007
breytt: Nov. 16, 2014

Messages: