GMO heystakkarÍ grein minni í Morgunblaðinu 16. september í fyrra útskýrði ég að bygg geti víxlfróvgast þótt það sé sjálffrjóvgunartegund. Það er einmitt þessi náttúrulega víxlfrjóvgun sem þarf að vera full metin þegar hugað er að ræktun erfðabreytts byggs utandyra.

Samt segir dr. Björn Lárus Örvar, framkvæmdastjóri ORF líftækni, í grein sinni „Byggfræi breytt í verksmiðju“ í Fréttablaðinu laugardaginn 10. júlí að "[á] grunni annarra viðamikilla tilrauna á okkar vegum og annarra vitum við að bygg er sjálffrjóvga, sem þýðir að hver byggplanta frjóvgar aðeins sjálfa sig, en ekki aðrar byggplöntur". Síðan segir hann: "Kerfið er því algjörlega lokað vistfræðilega og líffræðilega, sem er mikill kostur.“

Erfðafræðilega talið eru algjör sjálffrjóvgunarkerfi ekki til. Hins vegar eru til algjörar víxlfrjóvgunar tegundir, t.d. maís, en það byggist á erfðafræðilegu kerfi svo kallað SI-kerfi (e. self-incompatibility system). Þetta kerfi er meðal mikilvægustu drifkrafta í þróunarfræðilegri velgengni blómplantna. (Charlesworth et al. 2005. New Phytologist 168: 61-69.) Aðrar tegundir hafa víxlfrjóvgun sem bakhjarl. Kornjurtir eins og bygg og hveiti eru ríkjandi sjálffróvgunartegundir. Mikill breytileiki finnst þó innan tegundar, til dæmis víxlfrjóvgast vetrarbygg meira en vorbygg, og byggyrki ræktað í mismunandi umhverfi sýnir mismunandi tíðni víxlfrjóvgunar. (OGTR 2008. http://www.ogtr.gov.au/).

Það á að viðurkenna að áhætta við genaflæði er til staðar þótt hún sé mjög lítil. Enginn er að tala um 0% þolmörk hvað varðar genaflæði frá erfðabreyttum plöntum til óbreyttra plantna. Það þarf að meta genaflæði með skipulögðum tilraunum í hverju tilfelli fyrir sig nákvæmlega og með viðurkenndum aðferðum, þ.e. bæði til að greina tilveru framandi gens eða gena og til að meta tjáningu þess í viðtökuplöntum. Þannig hefur verið sýnt fram á að genaflæði, með vindfrævun, frá erfðabreyttu byggyrki Golden Promise við útiræktun í Suður-Ástralíu er langt undir 0,02% (Gatford et al. 2006. Euphytica 151: 383-391.) sem virðast vera þolmörk fyrir erfðabreyttar kornjurtir undir ástralskri löggjöf. Hins vegar er genaflæði miklu meira í finnsku byggyrki. (Ritala et al. 2002. Crop Science 42: 278-285.) Það kom einnig fram að víxlfrjóvgunartíðni í erfðabreyttu byggi var breytilegt og gat farið upp í 7% eftir byggarfgerðum, lofthita og veðri á blómgunartíma.

Umsækjanda um leyfi til útiræktunar erfðabreytts byggs er skylt að sanna á vísindalegan hátt að genaflæði milli erfðabreytts byggs og fóðurbyggyrkja í íslensku umhverfi sé lítið og teljist undir þolmörkum skv. íslenskri (evrópskri) löggjöf. Almenn þolmörk eru líklega ekki til því það fer eftir eðli einstakra umbreyttra gena og afurða tjáningu þeirra. Í þessu samhengi ætti leyfishafi að hefja rannsóknir til að kanna hvaða áhrif umbreytt gen hafi á búskap og heilsu dýra og manna ef mengun á sér stað í stofni fóðurbyggs. Þetta þarf að gera fyrir hvert gen. Allt þetta ferli þarf að vera gegnsætt. Almenningur á rétt á því.

Kesara Anamthawat-Jónsson, höfundur greinarinnar, hefur verið dósent við líffræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands frá árinu 1996.

Grafík: tilraunaglös og heystakkar, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.

Birt:
July 28, 2010
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Kesara Anamthawat Jónsson „Genaflæði frá erfðabreyttu byggi “, Náttúran.is: July 28, 2010 URL: http://www.nature.is/d/2010/07/28/genaflaedi-fra-erfdabreyttu-byggi/ [Skoðað:April 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: