Árlega skýrsla um ástand baðstaðavatns sýnir að langstærstur hluti baðstaða Evrópusambandsins uppfylla viðmið um heilnæmi fyrir árið 2008. Skýrslan var kynnt af Evrópuráðinu og Umhverfisstofnun Evrópu. Um 96% baðstranda og 92% baðstaða við ár og vötn voru innan lágmarksviðmiða Evrópusambandsins. Skýrslan veitir nytsamlegar upplýsingar um gæði vatns fyrir milljónir fólks sem heimsækir baðstaði Evrópu á hverju ári.

Framkvæmdastjóri Umhverfismála Evrópusambandsins, Stavros Dimas sagði: „Hágæða baðstaðavatn er mikilvægt fyrir heilsu evrópskra borgara og umhverfið – og það á að sjálfsögðu við um allt annað vatn líka. Ég er ánægður með að gæði vatnsins á baðstöðum í Evrópu fari batnandi.”

Jacqueline McGlade, prófessor og forstjóri Umhverfisstofnunar Evrópu bætti við, „Upplýsingar á borð við þessa skýrslu og gagnvirku kortin okkar á vefnum gera borgurum kleift að kanna gæði vatnsins í sínu nærsamfélagi og á ferðamannastöðum, sem og taka virkan þátt í verndun eigin umhverfis.”

Upplýsingar um gæði vatns á baðstöðum má nálgast á vef Umhverfisstofnunar Evrópu. Hægt er að skoða baðsvæðin á gagnvirku korti sem sýnir opinberar mælingar á gæðum vatnsins sem og skoðanir fólks sem hefur heimsótt staðina.

Langtíma uppsveifla í gæðum baðstaðavatns

Á hverju sumri flykkjast Evrópubúar til strandanna til að njóta sólarinnar og kæla sig í frískandi og hreinu vatni. Evrópubúar geta tekið upplýstar ákvarðanir um hvaða strönd skuli velja með því að kynna sér niðurstöður rannsókna sem eru framkvæmdar af aðildarríkjum Evrópusambandsins og samstarfsaðilum Umhverfisstofnunar Evrópu. Umhverfisstofnun Evrópu sá um útgáfu skýrslunnar í ár en einnig eru aðgengileg kort og ítarlegar upplýsingar um gæði vatns á vefsvæði stofnunarinnar.

Árið 2008 fjölgaði þeim baðstöðum sem fylgst er með um 75 staði. Af þeim 21 400 svæðum sem fylgst er með innan Evrópusambandsins voru tveir þriðju meðfram ströndinni og afgangurinn í ám og vötnum. Stærstur hluti baðstranda eru á Ítalíu, Grikklandi, Frakklandi, Spáni og Danmörku, en Þýskaland og Frakkland hafa flesta baðstaði í ám og vötnum.

Á heildina litið hafa gæði baðstaðavatns í Evrópu aukist mikið frá 1990. Hlutfall þeirra sem uppfylla skyldukröfur (lágmarkskröfur um gæði) jókst á tímabilinu 1990 til 2008 úr 80% í 96% við ströndina og úr 52% í 92% á baðstöðum við ár og vötn. Einnig varð hlutfallsleg fjölgun milli áranna 2007 og 2008 um rúmt eitt prósent við ströndina og rúm þrjú prósent við ár og vötn.
Birt:
July 25, 2009
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Baðstaðir í Evrópu - gæðakönnun“, Náttúran.is: July 25, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/07/25/baostaoir-i-evropu-gaeoakonnun/ [Skoðað:Sept. 11, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: