Að sjóða kartöflur
Fáar fæðutegundir eru svo fullkomnar einar og sér eins og soðnar kartöflur og þess vegna standa þær svo nærri hjarta hinnar sönnu eldamennsku. Samt gefa þær bragð öllu því sem þær komast í snertingu við. Þetta gerir að verkum að þær eru ómissandi í bragðflórunni.
Bestar eru rauðar kartöflur, hvorki of litlar eða of stórar, sem hafa þroskast hæfilega. Þær eru settar í sjóðandi vatn, betra að það sé lítið til að varðveita næringargildi þeirra og enn betra er að gufusjóða. Flestir eiga sinn uppáhaldskartöflupott. Það má salta og krydda suðuvatnið en sumir vilja fremur krydda sjálfir eftir að kartöflurnar koma á borðið. Mjölmiklar eða mjög stórar kartöflur eru síður heppilegar til suðu. Gamalt húsráð er sjóða kartöflur, sem vilja springa, í sjó. Líka má setja þær í kalt vatn með miklu salti eins og viðkvæm egg. Ekki þykir gott að sjóða bláar kartöflur meira en til einnar máltíðar í senn, því kaldar eru þær ekki lystugar. Betra er að gufusjóða þær til að halda litnum. Nota skal kartöflusoðið ef mögulegt er í súpur og það má hreinlega drekka það við liðagigt. Gætið þess að saltið sé náttúrulegt og af bestu gerð. Að flysja kartöflur fyrir suðu eða leggja þær í kalt vatn eyðileggur bætiefni.
Kartöflur eru hæfilega soðnar þegar stinga má gaffli í gegn um þær og þá er slökkt undir pottinum, hann tekinn af hellunni og soðinu hellt af. Potturinn er svo látinn aftur á helluna loklaus og hristur lítillega. Kartöflurnar fá við þetta að þorna og haldast svo heitar þangað til þær fara á borðið. Sé eldað við gas er þetta ekki eins auðvelt því slökkva þarf á gasinu þegar búið er að hrista kartöflurnar í pottinum og þær kólna fyrr en á rafmagnshellunni sem heldur í sér hita.
Rósmarín og dillkrónur eru oft nefnd sem krydd með soðnum kartöflum. Rósmarín má nú kaupa ferskt í brúskum og leyfa því að þorna á eldhúsborðinu og hafa það þannig við hendina. Dillkrónur myndast um svipað leyti og nýju kartöflurnar koma ef dillið fær að standa í garðinum. Ferskt, íslenskt vorkrydd, svo sem graslaukur, kerfill, karsi og steinselja, hressir ótrúlega upp á kartöflur sem geymst hafa allan veturinn, einnig villtar jurtir eins og hvönn, njóli, súrur og fílablöð ef þetta er smátt skorið og notað í hófi til að byrja með því bragðið er sterkt. Söl eru góð eins og þau koma fyrir en einnig má steikja þau á pönnu svo þau verði stökk. „
Hin stærri (jarðeplin) sjóða þeir í vatni, afhýða þau heit, eta síðan með bræddu smjöri; þannig eru þau og borðuð með alls háttar nýjum og söltuðum fiskætum. Sumir sía af þeim vökvann og láta þau þorna nokkuð, hafa þau svo til nestis á ferðum sínum. Og borða þau í brauðstað og smjör við. Nokkrir leggja þau í súrmat, drukk eða skyr, og nota þau á hvern helst hátt, er þá lystir.“ Úr Gesti Vestfirðingi 1849.
Úr Blálandsdrottningunni eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaði.
Mynd: Kartöflur í potti. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Að sjóða kartöflur“, Náttúran.is: Sept. 23, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2009/09/12/ao-sjooa-kartoflur/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Sept. 12, 2009
breytt: Sept. 23, 2012