Villijurtir
Framan af sumri er gaman að fylgjast með blómunum. Snemma koma hófsóleyjar í skurðbakka og votlendi. Svo birtast fífla-, sóleyja- og súrubreiður í túnum og móum. Lúpínan málar melana bláa. Kúmen og kerfilplöntur veifa hvítum blómunum hátt yfir lágvaxnari gróðri. Og það er eitthvað sérstakt við mjúk-fjólubláa litinn á hrafnaklukkunni. Seint í júní má fara að líta eftir gleym-mér-ei og blágresi, sem vex á láglendi, og hlakka til brönugrasanna. Blóðbergið skreytir harðbala og kornsúran breiðir sig yfir sanda og vegkanta. Síðan fer fífan að hvítmata mýrarnar og sest á girðingarnar eins og snjór þegar hún er orðin þroskuð og fýkur. Mjaðjurtin breiðir úr sér á árbökkum og jakobsfífillinn blómgast þar sem hann fær frið til.
Þegar farið er að halla í ágústmánuð hefur eyrarrósin dreift sér um gráar eyrarnar og loftið ilmar af gul- og hvítmöðrunni. Sigurskúfurinn, sem er tiltölulega nýr landnemi, vex í þéttum breiðum og skartar fjólurauðum toppunum í síðsumargolunni. Með minni beit sauðfjár aukast stöðugt blómabreiðurnar. Við munum þá að auðvitað ætluðum við að tína ljónslöpp fyrir blómgun og eiga í te. En ekki er vert að örvænta. Ef lyfjagrösin eru úr sér sprottin og of seint að ná þeim má þó fara til fjalla og enn finna grös sem eru seinni á sér en þau á láglendinu.
Við tínum blóm í vasa. Á ferðalögum grípum við upp lúkufylli af fjallagrösum og skarfakál við ströndina. Margar plöntur eins og gulmöðru, blóðberg og vallhumal má tína eftir blómgun og þess vegna allar plöntur. Styrkurinn er bara ekki eins mikill. Beitilyngið er enn að koma til. Svo má leita uppi reyrgresi og kvist af einivið. Og það eru blóm rauðsmárans og morgunfrúarinnar sem við fyrst og fremst sækjumst eftir. Sama á við um þrílitu fjóluna og kamilluna.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Ljósmynd: Brönugras, myndin var tekin þ. 11. júlí 2010, spölkorn frá Suðurstrandarveg. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Villijurtir“, Náttúran.is: July 13, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/08/villijurtir/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 8, 2007
breytt: Aug. 3, 2014