Sé það nefnt að leggja sér arfa til munns þá er gjarnan glott við tönn og gefið í skyn að ætíð sé nú nóg af honum. Þetta er alger misskilningur. Júní er mánuðurinn þegar arfinn er blaðmikill og safaríkur og þá er sjálfsagt að láta hann ekki ganga sér úr greipum. Eftir það fer hann að mynda fræ og er ekki spennandi til átu og þá mega þeir fara að örvænta sem ætluðu að halda honum í skefjum. Arfinn er lækningajurt. Gott að vita af honum ef einhver skyldi meiða sig og hlaupa upp með bólgur. Þá má leggja kælandi og sefandi arfabakstur á auma staðinn og ekkert er meira frískandi en arfaflækja til að leggja í nýveiddan fisk meðan hann bíður þess að komast í pottinn eða á pönnuna.

Gott er að borða arfann eins og var gert á mínu bernskuheimili en þá tók mamma súrmjólk, sem var reyndar heimatilbúin því við keyptum ógerilsneydda mjólk frá Bústöðum. Við fengum hana beint úr fjósinu og ráðskonan, hún Ingibjörg, hellti henni í fimm lítra járnbrúsann með mjóa haldinu, sem skarst inn í lófann á leiðinni heim. Annaðhvort þorðum við systurnar ekki að kvarta eða mamma hafði ekki hugsun á að gefa okkur klút eða vettling til að mýkja takið á brúsanum. Reyndar var heimleiðin ekki löng, aðeins um 200 metrar. Sú mjólk sem við torguðum ekki súrnaði af sjálfri sér í kalda skápnum norðan megin í eldhúsinu (á honum var loftræstigat sem gerði hann að nokkurs konar kæliskáp). Mamma setti fínan, dökkan púðursykur út í súrmjólkina og hrærði í svo þetta passaði vel við arfann og sennilega var þetta svona gott af því að hún tók súrmjólkina ofan af þar sem rjóminn sat.

Súrmjólkursalatsósa
Ég hef notað þessa sömu salatídýfu með súrmjólk og púðursykri en sett út í 1–2 rif af fínmörðum hvítlauk og ögn af cayennepipar og 2 msk af fínni ólífuolíu. Þessi ídýfa þarf að fá að standa dálitla stund svo bragðið af sykrinum og hvítlauknum blandist saman. Því er best að laga hana um leið og maður byrjar að elda og þá verður hún tilbúin þegar farið er að borða. Gott er að gera nóg til tveggja eða þriggja daga í senn. Líka má nota lífræna jógurt í staðinn fyrir súrmjólk.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Myndin er af rauðsalati að kafna í arfa. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.


Birt:
July 4, 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Arfi“, Náttúran.is: July 4, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/09/arfi/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 9, 2007
breytt: Jan. 1, 2013

Messages: