Af hverju kemur vetur?
Grikkir hafa varðveitt söguna af því af hverju kemur vetur. Demeter hét jarðargyðja þeirra. Hún ríkti yfir kornakrinum og hélt gróskunni við. Þó fara ekki af henni margar sögur þar til hún missti dóttur sína. Sú hét Core, en sagt var að það nafn mætti ekki nefna svo hátt að það heyrðist. Demeter tók sér aldrei eiginmann og dótturina átti hún þegar hún var ung og lífsglöð með Seifi, hálfbróður sínum. Hades, konungur undirheimanna, varð ástfanginn af stúlkunni og spurði Seif hvort hann gæti kvænst henni. Þetta setti Seif í slæma klípu því Hades var eldri bróðir hans. Þeir voru jafningjar, að segja má, en Seifur þó mun valdameiri. Hades var önuglyndur, ríkti yfir þeim dauðu og stóð nokkuð á sama, hvað gekk á í veröldinni efra. Seifur var hræddur við að styggja hann, en vissi að Demeter myndi aldrei fyrirgefa honum ef hann gæfi samþykki sitt svo hann hikaði við og svaraði engu.
Hades túlkaði þetta hik sem jáyrði og ákvað að það væri í lagi að nema stúlkuna á brott. Það gerði hann einn góðan veðurdag þegar hún var úti í skógi að tína blóm. Hades átti glæsikerru, sem dregin var af fjórum hestum, sem sumir segja að hafi verið svartir en aðrir hvítir eða gráir. Nornagyðjan, Hekata gamla, sem fylgdi Core, heyrði hana hrópa: – Hjálp nauðgun, hjálp nauðgun, og þar með var hún horfin eins og jörðin hefði gleypt hana og hrópin urðu daufari og daufari þegar sprungan í jörðinni laukst aftur svo ekki sá hvar reiðin hafði horfið niður. Svínahirðir nokkur sá vagninn þar sem hann hvarf niður um jarðfallið. Hann virtist mannlaus, utan karlmannshandleggur sást halda um mitti stúlkunnar. Utan við sig af sorg eigraði Demeter um jörðina í leit að dótturinni.
Í níu daga og níu nætur leitaði hún án þess að unna sér hvíldar og þáði hvorki vott né þurrt. Á meðan sölnuðu grösin og nytin þornaði í kúnum. Þær Hekata gamla fóru að lokum til sólarguðsins Helíosar, sem allt sér. Hann viðurkenndi að Hades myndi vera sökudólgurinn. Hann hefði numið Core á brott og gaf í skyn að Seifur kynni að eiga hlut að máli. Demeter varð svo reið að hún harðneitaði að fara aftur upp á Ólymposfjall. Hún hélt áfram að reika um jörðina í marga mánuði og sór þess eið að jörðin skyldi vera auðn og eyðimörk, þangað til Core yrði skilað til hennar aftur. Trén báru ekki lauf sín, né heldur blómguðust þau, akrarnir lágu einskis nýtir og bölvaðir og alls staðar ríkti hörmungarástand. Að lokum var það hlátursgyðjan Baubo, sem ekkert höfuð hefur en hlær með maganum, sem hreif Demeter úr þessu eymdarástandi með klúryrðu glensi, svo hún öðlaðist styrk til að halda áfram leitinni.
Seifur þorði ekki að horfast í augu við hana en sendi Hermes, sem var eini guðinn sem gat borið skilaboð milli jarðar og undirheima, til að segja gyðjunni að dóttir hennar gæti snúið aftur ef hún hefði einskis neytt af mat hinna dauðu. Core hafði áður sagt honum að hún hefði ekki snert svo mikið sem brauðskorpu og Hades varð að hlýða og sótti kerruna góðu og spennti hestana fyrir. Hann vildi þó ekki viðurkenna að hafa beðið ósigur og sagði: – Móðir þín grætur svo ákaft eftir þér og þar sem þú hefur ekki neytt neinnar fæðu hér, þá er það líklega réttast að ég sendi þig heim aftur. En það vildi svo til að garðyrkjumanninn bar þar að og hann sagði illkvittnislega að Core hefði etið sjö fræ af granateplatrénu og nú var úr vöndu að ráða.
Þegar Demeter heyrði þetta neitaði hún enn og aftur að stíga fæti sínum upp á Ólymposfjall eða draga bölvun sína til baka svo jörðin gæti aftur borið blóm og konur alið börn. Seifur reyndi eins og hann gat að finna málamiðlun sem fólst í því að Core, sem eftir þetta hefur ævinlega verið kölluð Persefóna, myndi fara til Hadesar í undirheima og ríkja þar sem drottning hans í þrjá mánuði á ári hverju, en hina níu mánuðina skyldi hún dveljast hjá móður sinni. Því er það að þrjá mánuði á ári hverju er jörðin ófrjósöm og ekkert grær. Þegar þessir þrír mánuðir eru liðnir tekur Demeter gleði sína á ný og skógurinn skrýðist grænu, trén blómstra, fræin í moldinni spíra og plönturnar taka til við að vaxa. Landið lifnar við. Sögnin kemur frá þeim mildu Miðjarðarhafsströndum svo í hennier enginn ís eða snjór. Trén fella aðeins laufin og grasið visnar því þar stendur veturinn aðeins í þrjá mánuði. Sagan á sér mörg tilbrigði og henni var breytt til að hún héldi trúverðugleika sínum í löndum sem hafa lengri vetur og þá varð Persefóna að dvelja sem drottning í Undirheimum í fulla sjö mánuði hvert ár. Einn mánuð fyrir hvert granateplafræ sem hún gleypti.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum. Myndin er af vetrarhlið Náttúruspilanna, einnig fáanleg á Náttúrumarkaðinum.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Af hverju kemur vetur?“, Náttúran.is: Oct. 27, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2007/10/27/af-hverju-kemur-vetur/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Oct. 27, 2007
breytt: March 14, 2014