Opinn fundur - útiræktun á erfðabreyttu byggi
Umhverfisstofnun hefur til meðferðar umsókn fyrirtækisins ORF Líftækni hf. varðandi leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. Talsverð umræða hefur farið fram að undanförnu um þetta mál og fagnar Umhverfisstofnun því. Af því tilefni hefur Umhverfisstofnun ákveðið að framlengja frest til að skila inn athugasemdum og vill gefa almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að kynna sér umsókn um útiræktun á erfðabreyttu byggi. Stofnunin telur mikilvægt að almenningur sé upplýstur um málið.
Boðað er til opins fundar á Grand Hótel, Hvammi, þriðjudaginn 9. júní n.k. og hefst fundurinn kl. 13:00 og stendur til 16:00. Á fundinum mun fulltrúi stofnunarinnar fara yfir helstu mál er varða forsendur slíkra leyfisveitinga, fulltrúi ORF Líftækni hf. kynna starfsemi fyrirtækisins auk þess sem fulltrúar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur munu kynna framkomnar umsagnir um fyrirhuguð áform fyrirtækisins um útiræktun. Að neðan eru birt helstu gögn er verða lögð til grundvallar við ákvörðun um leyfisveitingu að hálfu Umhverfisstofnunar.
Varðandi málsmeðferð leyfisveitinga um notkun og sleppingar erfðabreyttra lífvera er vísað til laga nr.18/1996 um erfðabreyttar lífverur og rgl. nr. 493/1997 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera. Lögbundnir umsagnaraðilar varðandi leyfi til útiræktunar erfðabreyttra lífvera eru Náttúrufræðistofnun Íslands og Ráðgjafarnefnd um erfðabreyttar lífverur.
Áhugasamir aðilar eru hvattir til að mæta á fundinn og/eða kynna sér meðfylgjandi gögn að neðan. Frestur til að skila inn athugasemdum hefur verið framlengdur og er til 12. júní n.k. og skulu þær berast skriflega til Umhverfisstofnunar Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Útdráttur úr umsókn ORF Líftækni
Fylgiskjal vegna umsóknar: Ný tækni við byggkynbætur
Umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands
Umsögn Ráðgjafarnefndar um erfðabreyttar lífverur ásamt sérálitum Grafík: Erfðabreyting í DNA útskýrð.Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Opinn fundur - útiræktun á erfðabreyttu byggi“, Náttúran.is: June 4, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/06/04/opinn-fundur-utraektun-erfoabreyttu-byggi/ [Skoðað:Sept. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.