Laugardaginn 28. júni kl. 14:00 stendur félagið Matur-Saga-Menning fyrir kynningu á matarháttum og garðrækt á hinum forna Skálholtsstað. Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur og Ingólfur Guðnason garðyrkjufræðingur halda stutt erindi. Einnig verður farið í stutta staðarskoðun undir leiðsögn heimamanna og bragðað á krásum úr eldhúsi Skálholtsskóla.

Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur flytur erindi um kost Skálholts. Hún hefur stýrt forleifauppgreftri á staðnum undanfarin ár og byggir hún erindið að miklu leyti á þeim rannsóknum.

Ingólfur Guðnason garðyrkjufræðingur fjallar um ræktun í klaustrum miðaldanna og hugsanleg áhrif hennar utan klaustra. Ingólfur hefur kynnt sér margvíslegar heimildir um ræktun til forna á Skálholti og eins hefur hann gert jurtagarð við Skálholt. Þar má sjá sýnishorn nytjajurta sem kunnar voru í Skálholti á fyrri öldum. Væntanlega verður garðurinn í fullum skrúða.

Skálholtsskóli leggur áherslu á sögutengda ferðaþjónustu og frá árinu 1997 hefur verið boðið þar upp á veitingar sem tengjast sögu staðarins. Þetta sinn verður reitt fram "Kaffihlaðborð Valgerðar biskupsfrúar". Þar verður í boði ýmislegt góðgæti sem hefur verið á borðum heldra fólks um 1800.

Að félaginu Matur- Saga- Menning stendur fagfólk og annað áhugafólk um mat, þjóðleg fræði og sögu sem auka vill veg þjóðlegra matarhefða á Íslandi og kynna og aukaþekkingu á íslenskum mat og matarmenningu. Skálholt er um90 km frá Reykjavík í hjarta uppsveita Árness‡slu.

Allir eru velkomnir, aðgangseyrir er kr. 1000.- og eru kaffiveitingar innifaldar í verðinu.

Sl haust efndi félagið Matur-Saga-Menning til fróðskaparkvölds um jurtir í Matarsetrinu sem var að Grandagarði 8.

Mynd: Skálholt 1789, málverk eftir Dayes.

Birt:
June 25, 2008
Tilvitnun:
Ingólfur Guðnason og Sólveig Ólafsdóttir „Klausturgarðar og kostur Skálholts“, Náttúran.is: June 25, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/06/25/klausturgaroar-og-kostur-skalholts/ [Skoðað:June 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: