Eigenda- og ræktendafélag Landnámshænsna var stofnað árið 2003. Markmið félagsins er margþætt og í lögum þess er bent á kynningu, viðhald og verndun stofnsins og að skapa hænunni sess meðal landsmanna, jafnvel sem gæludýrs á heimilum í þéttbýli.

Eigendum landnámshænsna hefur fjölgað gífurlega síðan félagið var stofnað árið 2003 félagsins og er fjölmiðlaumfjöllun og áhuga landans að þakka þá breytingu. Fjölmargir fá sér hænur ánægjunnar vegna, svo eru aðrir sem fá sér hænur til að fá egg úr frjálsum hænum.

Vistvæn egg
Til þess að vinna landnámshænunni sess meðal landsmanna má benda á að þær eru duglegar að bjarga sér úti í náttúrunni og eru þess vegna tilvaldar til lausagöngu. Egg úr frjálsum hænum eru eftirsóknarverð á tímum verksmiðjubúa og hefur stjórnin gerst talsmaður og miðstöð fyrir sölu á "eggjum úr frjálsum landnámshænum" . Hægt er að sjá skrá yfir þá sem taka þátt í verkefninu á haena.is.

Gæluhænur
Landnámshænan hefur þegar öðlast sess sem gæludýr í þéttbýli þar sem vitað er til að margir borgar- og þorpsbúar hafa nokkrar hænur í kofa úti í garði og hafa mikla ánægju af. Þessir hænsnaeigendur hafa yfirleitt ekki hana í hópnum. „Gæluhænur“ má svo endurnýja með því að kaupa nýja hænuunga þegar þar að kemur, en hænurnar geta lifað góðu lífi talsvert á annan áratug þótt þær verpi ekki eftir að þær verða gamlar.

Mynd: Landnámshæna á handverksýningunni Hrafnagili í ágúst 2007. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Nov. 17, 2010
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Eigenda- og ræktendafélag Landnámshænsna “, Náttúran.is: Nov. 17, 2010 URL: http://www.nature.is/d/2009/03/17/eigenda-og-raektendafelag-landnamshaensna/ [Skoðað:July 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 17, 2009
breytt: Nov. 17, 2010

Messages: