Umhverfisstofnun stöðvar framkvæmdir innan fólkvangsins í Óslandi
Umhverfisstofnun barst ábending þess efnis að hafnar væru framkvæmdir innan fólkvangsins í Óslandi í sveitarfélaginu Hornafirði. Sjónarvottur varð vitni að því að vörubíll keyrði þvert í gegnum fólkvanginn og sturtaði fimm bílförmum af grjóti í fjöruna innan friðlýsta svæðisins ásamt því að keyrt hafði verið utan vega á mýrarsvæði þar sem árlega verpir mikill fjöldi fuglategunda.
Umhverfisstofnun hafði umsvifalaust samband við sveitarfélagið þar sem þær upplýsingar fengust að framkvæmdin tengdist sjóvarnargarði sem að hluta til átti að byggja innan hins friðlýsta svæðis. Umhverfisstofnun fór fram á það við sveitarfélagið að framkvæmdir yrðu stöðvaðar undir eins enda láðist sveitarfélaginu að leita tilskilinna leyfa í samræmi við gildandi lög áður en ráðist var í umræddar framkvæmdir.
Ósland er fólkvangur og er gangandi fólki heimil för um fólkvanginn. Umferð ökutækja er þar aðeins heimil á vegi að útsýnisstað og bátalægi en hvergi þess utan. Mannvirkjagerð og jarðrask er óheimilt innan fólkvangsins.
Umhverfisstofnun lítur málið alvarlegum augum enda um friðlýst svæði að ræða sem nýtur sérstakrar verndar.
Stofnunin hefur óskað eftir því við sveitarfélagið að það leggi fram áætlun um lagfæringar á því raski sem orðið hefur á fólkvanginum og er málið til frekari meðferðar stofnunarinnar.
Sjá nánari upplýsingar og staðsetningu friðlýsta svæðisins Óslands hér á Grænum síðum.
Ljósmynd: Úr Óslandinu, Umhverfisstofnun.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Umhverfisstofnun stöðvar framkvæmdir innan fólkvangsins í Óslandi“, Náttúran.is: Feb. 11, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/02/12/umhverfisstofnun-stodvar-framkvaemdir-innan-folkva/ [Skoðað:Sept. 11, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Feb. 12, 2011