Ráðstefna Orkustofnunar um umhverfiskostnað var haldin þann 27. október.
Fundarstjóri var Tryggvi Felixson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Umhverfiskostnaður er hugtak sem rutt hefur sér til rúms á undanförnum árum. Hugtakið vísar til þess að nauðsynlegt sé að verðleggja umhverfið áður en farið er í ýmiskonar framkvæmdir og framleiðslu og að umhverfiskostnaður sé mikilvæg breyta þegar spáð er fyrir um hagnað framkvæmda. Á ráðstefnunni var m.a. leitað svara við eftirfarandi spurningum:

• Er nauðsynlegt að setja verðmiða á umhverfið?
• Hvernig á að meta verðgildi umhverfis við framkvæmdir?
• Hvernig á að meta raunverulegt virði umhverfisins – er hægt að verðleggja ár, vötn og víðerni?
• Hver hefur ráðstöfunarrétt yfir landinu?

Ágúst Valfells verkfræðingur flutti erindi um starf vinnuhóps um „Vettvang um vistvænt eldsneyti“ (auglýsti í leiðinni eftir nýju nafni á Vettvanginn) sem starfað hefur nú um tveggja ára skeið. Erindi sitt nefndi hann „Kostnaðarmat á umhverfisáhrifum - þjóðþrifamál“ með áherslu á minni mengun, minni kostnað og sífelldri leit að nýjum leiðum. Spurningar eins og „hvernig berum við saman hina mismunandi svokallaða vistvæna/umhverfisvæna bíla út frá umhverfismengun“ o.s.fr.

Ágúst benti á þá staðreynd að með almennri notkun rafknúinna eða að hluta til rafknúinna bifreiða í framtíðinni þyrftu að koma til umtalsverðar virkjunarframkvæmdir til framleiðslu rafmagns sem þþddi fórnarkostnað hvað varðar land undir vatn (uppistöðulón) og auk þess yrði til ný umhverfimengun frá umfangsmeiri stóriðju o.s.fr.

Jónas Haralz fyrrv. bankastjóri flutti leiðarvísi um heilbrigða skynsemi eins og hann vildi kalla erindi sitt. Hann minnti á að „að fortíð skal hyggja ef framtíð skal byggja“.

Geir Oddsson auðlyndafræðingur ræddi um „hlutverk umhverfsins og náttúrunnar i hagkerfinu“ og aðferðir sem notaðar eru til að mæla umhverfiskostnað.

Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri í Umhverfisráðuneytinu ræddi um losunarkvóta (útstreymisheimildir) Kyoto bókunarinnar og stöðu Íslands í því  sambandi. Hann lagði til að hinn margumtalaði „umhverfiskostnaður“ verði endurnefndur „umhverfisávinningur“.

Sveinbjörn Björnsson frá Orkustofnun flutti erindi um aðferðafræði Rammaáætlanarinnar og vinnu nokkurra faghópa sem m.a. unnu að því að þróa aðferðir til að leggja fjárhagslegt mat á virkjanir, mismunandi orkugjafa o.s.fr.

Árni Snorrason forstöðumaður Vatnamælinga Orkustofnunar flutti erindi um vatnamælingakerfið sem almenningsgæði og skilgreindi „almannagæði“ þannig að þau eyðist ekki við notkun. „Umhvefið sjálft er einnig almannagæði (þó að það hafi ekki verið framleitt af okkur)“ sagði Árni.

Ólafur Árnason frá Línuhönnun flutti áhugaverðan fyrirlestur þar sem hann kynnti m.a. niðurstöðu könnunar þar sem fram kemur að „landslag gegni veigamesta hlutverki sem tákn íslensku þjóðarinnar“. Taka verði því sérstakt tillit til þess við framtíðarmat á umhverfisáhrifum. Einnig benti hann á breytileg hlutverk náttúrannar í augum fólks á mismunandi tímum Íslandssögunnar.

Halla Jónsdóttir frá Iðntæknistofnun ræddi nýjar niðurstöður vinnuhóps um „lífsferilskostnað vegna orkuvinnslu“ með það að markmiði að breyta umhverfiskostnaði í krónur og aura. Gengið var út frá umhverfisáhrifum Nesjavallavirkjunar við könnunina.

Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor í skógræktarfræði við Landbúnaðarháskólann ræddi um „kolefnabindingu skóga“ til að vega á móti losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og markmið og möguleika Íslands í því að leggja áherslu á skógrækt sem koltvísýringsbindandi aðgerð.

Þráinn Friðriksson frá ÍSOR kynnti niðurstöður um mælingar náttúrulegrar losunar koltvísýrings á jarðhitasvæðum í samanburði við losun í gegnum virkjanir.

Að lokum flutti Ólafur Páll Jónsson heimsspekingur KHÍ um það „hvort umhverfið og gæði þess séu yfirleitt til sölu og siðferðilegar hliðar markaðsvæðingar“. Áhugavert lokaerindi sem eins og Tryggvi Felixsson sagði í lokin hefði hæft vel sem inngangserindi að þessari mjög svo áhugaverðu ráðstefnu.

Ráðstefnan var haldin í splunkunýjum sal á 1. hæð í Orkugarði, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík.
http://www.ust.is

Birt:
Oct. 24, 2005
Uppruni:
Orkustofnun
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „„Umhverfiskostnaður“ - ráðstefna haldin í Orkugarði þ. 27.10.1005“, Náttúran.is: Oct. 24, 2005 URL: http://www.nature.is/d/2007/03/22/umhverfiskostnadur/ [Skoðað:Feb. 21, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 22, 2007
breytt: May 4, 2007

Messages: