Nú er ljóst að Orkuveita Reykjavíkur ræður ekki við brennisteinsmengun á Hellisheiði. Á ársfundi fyrirtækisins kom fram að brennisteinsmengun mun ekki standast heilsuverndarmörk árið 2014 við óbreyttar aðstæður og verða yfir þeim mörkum sem stjórnvöld hafa sett til að verja heilsu almennings, en brennisteinsvetni veldur sjúkdómum í öndunarfærum. Undirrituð náttúruverndarsamtök krefjast þess að fundin verði ásættanleg lausn á málinu.

Eftir að nýting jarðhita var aukin á Hellisheiðarsvæðinu fyrir fáum árum hefur mælst mun meiri styrkur brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu og í sveitarfélögum í nágrenni virkjunarinnar. Brennisteinsvetni getur haft áhrif á heilsu fólks, gróður og mannvirki. Höfuðverkur og ógleði eru fylgifiskar brennisteinsmengunar og í miklu magni eru áhrifin mjög hættuleg. Minna er vitað um langtímaáhrif viðvarandi mengunar á heilsu fólks, en vísbendingar gefa til kynna að brennisteinsvetni geti valdið umtalsverðu heilsutjóni. Nýlegar rannsóknir hérlendis gefa vísbendingu um að brennisteinsmengun hafi neikvæð áhrif á heilsu fólks, en í rannsókninni er sýnt fram á tengsl milli aukinnar brennisteinsmengunar og aukinnar sölu á astmalyfjum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þarf að rannsaka frekar.

Í ljósi upplýsinga frá OR er einsýnt að ekki er verjandi að reisa fleiri jarðvarmavirkjanir á svæðinu. Jarðvarmavinnsla til raforkuframleiðslu á Íslandi er ekki sjálfbær á meðan vinnslan er jafn ágeng og raun ber vitni. Þá fylgir jarðvarmavirkjunum mikið rask á yfirborði og lausnir hafa ekki verið fundnar á því hvernig megi halda brennisteinsmengun í lágmarki og hvað eigi að gera við affallsvatnið. Auk þessa er nýtingin einungis 12-15% þegar um rafmagnsframleiðslu er að ræða sem verður að teljast sóun á auðlindum þjóðarinnar.

Það hníga því öll rök að því að fresta allri frekari jarðvarmavinnslu til raforkuframleiðslu á svæðinu á meðan ekki hefur fundist lausn á þeim mengunarvandamálum sem fylgja virkjununum. Með tilliti til nýrra jarðvarmavirkjana á svæðinu er ábyrgð kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa og þingmanna sem nú fjalla um rammaáætlun afar mikil. Undirrituð náttúruverndarsamtök krefjast þess að náttúran og heilsa fólks fái notið vafans og hugmyndir um frekari virkjanir á svæðinu verði settar á ís.

Ljósmynd: Borholustrókur á Hellisheiði, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
June 15, 2012
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Mistekist að hefta brennisteinsmengun vegna jarðvarmavirkjana“, Náttúran.is: June 15, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/06/15/mistekist-ad-hefta-brennisteinsmengun-vegna-jardva/ [Skoðað:Feb. 25, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: