Garðyrkjufélag Íslands - þekking eykur ánægjuna í garðinum
Á sýningunni Vistænn lífsstíll sem haldin var í Perlunni þ. 25.-26. apríl kynnti Garðyrkjufélagið starfsemi sína sem er bæði fjölbreytt og fræðandi. Ýmislegt fríðindi eru í boði fyrir nýja félagsmenn.
Á vef félagsins gardurinn.is er m.a. skemmtilegt dagatal garðyrkjumannsins. Um apríl-maí er þetta sagt:
Apríl – maí
Nú er verulega farið að halla að vori, sólin farin að verma grund og víða ber þess vitni í umhverfinu. Brum og blómknúppar á trjágróðri er farið að þrútna og ýmsir fjölæringar eru farnir að gægjast upp úr moldinni. Vetrargosar, krókusar og ýmsar snemmbærar tegundir eru jafnvel búnar að blómstra á þessum árstíma.
- Nú má hefja forræktun á grænmeti. Kálmeti í aprílbyrjun, salat í maí.
- Raða kartöfluútsæði í kassa til spírunar í maíbyrjun og setja niður í maílok eða júníbyrjun.
- Síðla í maí er víðast hvar orðið frostlaust í jörðu. Þá er tilvalið að hefja gróðursetningu á hverskyns gróðri. Plöntum úr gróðrarstöðvum sem eru pottaræktaðar eða rótskornar eftir kúnstarinnar reglum er hægt að planta allt sumarið og langt fram eftir hausti.
- Flytja trjáplöntur og runna til ef þess þarf. Stór tré og runna ætti að undirbúa með rótarskerðingu ári áður.
- Flytja og skipta fjölærum plöntum. Tegundir sem lifna og blómgast snemma ætti að skipta síðar að sumrinu þegar þær byrja að visna.
- Huga að maðki í trjágróðri þegar vöxtur hefst. Úða, eða láta fagmann með tilskilin réttindi úða ef þörf þykir. Óþarfi er að úða allan gróður og síst skyldi hafa það sem árlega reglu að láta úða allan garðinn.
- Hreinsa til í beðum og raka lauf úr grasflöt. Lauf frá fyrra ári er tilvalið að setja í safnkassa eða undir runnagróður þar sem að ánamaðkarnir og aðrir íbúar jarðvegarins koma því aftur í umferð.
- Jarðvinna matjurtagarðinn, ýmist með stungugaffli eða jarðvegstætara sem hægt er að fá leigðan.
Þú getur skráð þig í Garðyrkjufélag Íslands á vef félagsins.
Myndin er af Valborgu Einarsdóttur að kynna Garðyrkjufélagið á sýningunni Vistvænn lífsstíll í Perlunni. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Garðyrkjufélag Íslands - þekking eykur ánægjuna í garðinum“, Náttúran.is: April 27, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/04/27/garoyrkjufelag-islands-thekking-eykur-anaegjuna-i-/ [Skoðað:Sept. 20, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.