„Endurvinnsla á að verða algjör skylda allra í landinu."

Grein sem birtist í Fréttablaðinu 27. jan. undir fyrirsögninni „Ísland umhverfisvænasta land í heimi“ fékk mig til að verða hálfleiður og dapur. Í skýrslu frá Davos-ráðstefnunni, þar sem valdamestu menn í heimi ráða ráðum sínum í umhverfismálum, kemur þetta fram. Ekki skánaði það daginn eftir þegar birtist í Fréttablaðinu að núna væri Ísland orðið efst á umhverfislista tveggja bandarískra skóla, Yale og Columbia. Væri landið með besta nýtingu náttúruauðlinda og mengunarstýringu og sitthvað fleira var talið upp. Í lok greinarinnar var minnst á það að gögnin væru unnin upp úr upplýsingum frá okkur sjálfum og gætu því verið óáreiðanleg.

Hvers konar fréttaflutningur er þetta? Ef Ísland ætti að teljast „umhverfisvænt“ þyrfti að byrja á byrjunarreit á mörgum stöðum. Núna skal upptalið hvar við erum með buxurnar á hælunum í umhverfismálum og fólki leyft að íhuga í leiðinni hvort það geti þá breytt einhverju í venjum sínum og hugsað umhverfisvænna í framtíðinni. Menntun barna okkar í umhverfisfræðum er mjög slök. Börnin eiga að erfa landið og þess vegna verða þau að læra að það á að endurvinna allt, bera virðingu fyrir náttúrunni og að aldrei má fleygja rusli í náttúrunni.

Endurvinnsla á að verða algjör skylda allra í landinu. Það er reyndar smávakning í gangi en alls ekki á þann mælikvarða sem ætti að vera; þetta er gríðarleg „óumhverfisvæn“ þróun hjá þjóð okkar að henda rusli og verðmætum alla daga. Við urðum sorp í staðinn fyrir að gera úr því eldsneyti, við urðum timbur í staðinn fyrir að búa til úr því hráefni til notkunar innanlands (göngustíga, hestabása o.fl.). Við fleygjum rafhlöðum í ruslið (yfir 130 tonnum) á ári í staðinn fyrir að skila því í endurvinnslu. Hér ætti að vera skilagjald á rafgeymum til þess eins að þeir færu beint í endurvinnslu. Fyrir utan bifreiðaverkstæði, í bílskúrum, á opnum svæðum, út um allar sveitir og á hafsbotni liggja fleiri þúsund rafgeymar, stórhættulegir öllum og símengandi.
Það liggja fleiri þúsund dekk í höfnum landsins, umhverfinu og sæfarendum mikill skaðvaldur. Dekk sem fer í skrúfu báts eða skips getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Bandaríski herinn er að láta fjarlægja öll dekk af hafsbotni í bandarískri lögsögu vegna mengunar. Mjög virðingarvert framtak. Frárennslismál sveitarfélaga eru víða í ólestri og menga hafið okkar. Samt teljum við okkur trú um að hafið sé hreint og fiskurinn okkar sé bestur í heimi. Því miður er þetta ekki rétt. Víða við Faxaflóann er hann mjög mengaður vegna þessa. Víða um land eru gamlir járnhaugar sem geyma þúsundir tonna af brotajárni sem ætti að grafa upp og setja í endurvinnslu. Hráefni sem skapar gjaldeyri og er mikil sjónmengun að. Bílflök og drasl er nánast allan hringinn í kringum landið. Þau tæki og tól sem ekki hafa sögulegt gildi og verðskulda að verða að safngripum eiga heima í endurvinnslu. Ekki flókið mál.
Öll strandlengjan okkar er uppfull af plasti og drasli, veiðarfærum og fleira dóti. Þegar Impregilo þurfti að losa sig við ein tvö hundruð tonn af gúmmífæribandabeltum fengu þeir leyfi til að urða það uppi á fjöllum. Hvers konar metnaður er nú þessi lausn á þeirra vandamáli? Þetta á að grafa upp og senda til endurvinnslu strax. Til að við sem þjóð getum sagt að við viljum verða umhverfisvæn verðum við að byrja strax í dag. Stjórnvöld setja upp aðgerðaráætlun um það að Ísland ætli sér að verða umhverfisvænasta land í heimi og lifa í sátt við umhverfi sitt. Við ætlum að búa börnum okkar betri heim og skila landinu betra til þeirra en við fengum frá okkar foreldrum. Við erum með jörðina að láni sagði indíanahöfðingi og það ætti að vera mottóið okkar. Ef þetta ætti að verða arfleifð okkar til framtíðar, að stefna að betra umhverfi, byrjum þá á því að skilgreina verkefnið.
Mín tillaga er sú að allt hráefni sem við notum til daglegrar notkunar sé skilgreint sem verðmæti. Þegar þess er ekki lengur þörf og við þurfum að losna við það fáum við greitt fyrir það að koma því í endurvinnslu. Við eigum ekki að greiða fyrir það vegna þess að það er letjandi til ávinnings. Greiðslan verður í formi inneignar sem ívilnun til sveitarfélagsins, þ.e.a.s. sveitarfélagið fær greitt úr ríkissjóði fyrir það að endurvinnsla er framkvæmd rétt af íbúum og stjórnvöld nota einhverja prósentu af virðisaukanum til að setja í þetta umhverfisvæna verkefni. Það virkar sem hvatning og allir leggjast á eitt um að finna út hvernig við tæklum endurvinnsluna. Frjáls félagasamtök, íþróttafélög og allir sem vilja ljá verkefninu lið búa sér til verkefni og afla sér tekna. Ímynd sveitarfélagsins fær hærri stuðul, íbúar verða sáttari við umhverfið og að lokum kallast þetta sveitarfélag „umhverfisvænt“ samfélag. Þannig vinna allir, lífskjör batna, hreint og fallegt umhverfi er það sem allir þrá. Hver vill eiga heima á ruslahaugum vegna slóðaskapar nokkurra aðila? Ekki ég.
Tökum höndum saman og þrífum landið, endurvinnum allt, hættum að henda verðmætum, sköpum okkur einstaka veröld. Hið eina sanna „umhverfisvæna“ Ísland. Höfundur er kafari og formaður Bláa hersins.
Birt:
March 17, 2010
Höfundur:
Tómas J. Knútsson
Uppruni:
Blái herinn
Tilvitnun:
Tómas J. Knútsson „Umhverfisvænasta land í heimi – hvaða heimi?“, Náttúran.is: March 17, 2010 URL: http://www.nature.is/d/2010/03/17/umhverfisvaenasta-land-i-heimi-hvada-heimi/ [Skoðað:May 15, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Nov. 11, 2010

Messages: