Samtök um bíllausan lífsstíl hafa það meginmarkmið að stuðla að bættum ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu og telja það afar þýðingarmikið málefni í nútímasamfélagi.

Flestir Íslendingar fara til vinnu einir á einkabíl, með tilheyrandi umferðarþunga, slæmum loftgæðum og kostnaði, sem lendir á þeim sjálfum, vinnuveitendum þeirra og samfélaginu öllu. Þær ferðavenjur verða ekki skýrðar með landfræðilegri legu, veðráttu, þéttleika byggðar eða öðrum utanaðkomandi þáttum eins og dæmi frá nágrannalöndum okkar sanna, vandamálið liggur í hefðum og hugarfari. Fjölmargir aðrir faramátar eru í boði, svo sem að taka strætó, hjóla, ganga, skokka, fara á línuskautum eða í samfloti með öðrum, sem allir eru hagkvæmari, stuðla að bættri lþðheilsu og bæta umhverfi okkar.

Í byrjun apríl munu Samtök um bíllausan lífsstíl senda bréf til allra stærstu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og skora á þau að taka upp samgöngustyrki fyrir þá starfsmenn sem kjósa að nota ekki einkabíla til ferða til og frá vinnu. Slíkur styrkur er ætlaður til þess að verðlauna þá starfsmenn sem ekki kæmu til vinnu á einkabíl og spara fyrirtækinu um leið talsverðan kostnað vegna bílastæða.

Fjölmargir Íslendingar fara á þessum tímum í gegnum gagngera endurskoðun á sínum útgjöldum og lífsstíl. Hóflegri notkun einkabíla gæti skilað flestum heimilum fleiri hundruðum þúsunda á ári hverju. Nú óskum við eftir liðsinni fyrirtækja í landinu við að hvetja og styðja starfsfólk sitt í heilbrigðari lífsvenjum, fyrir jafnt sál, líkama og buddu. Um leið gerum við almenningssamgöngur að samkeppnishæfari valmöguleika og höfuðborgarsvæðið okkar að betri stað til að búa á.

Fyrsta bréfið verður afhent samgönguráðherra fyrir utan samgönguráðuneytið að Tryggvagötu fimmtudaginn 2. apríl kl. 12.00. Allir eru hvattir til að mæta á staðinn og sýna málefninu samstöðu.

Einnig vilja samtökin vekja athygli á því að umferðarráð er í dag nær eingöngu skipað fulltrúum þeirra sem eru akandi í umferðinni. Slíkt telja samtök um bíllausan lífsstíl tímaskekkju og óska eftir því að fulltrúi þeirra skipi einnig ráðið.

Birt:
April 2, 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Samtök um bíllausan lífsstíl afhenda samgönguráðherra áskorunarbréf í dag kl. 12:00“, Náttúran.is: April 2, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/04/02/samtok-um-billausan-lifsstil/ [Skoðað:July 13, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: