Kaffitár hefur á undanförnum misserum kafað æ dýpra í umhverfismálin innan fyrirtækisins en Kaffitár fékk Svansvottun í maí 2010, fyrst allra kaffihúsa á Íslandi (sjá frétt).

Ég spurði Aðalheiði Héðinsdóttur forstjóra fyrirtækisins út í það hvernig Kaffitár hagi málum varðandi pappamál versus keramikmál og hver stefna fyrirtækisins væri í þeim efnum. Svar hennar má lesa hér að neðan;

„Ef við getum minkað notkun götumála (pappamála) þá eru það besta sem við sem fyrirtæki gerum fyrir umhverfið. Við erum með mikið magn af alls konar margnota ferðamálum sem við ætlum að leggja áherslu á í markaðsáherslunum í apríl. Við bjóðum viðskiptavinum 30 kr. afslátt af drykkjum ef þau koma með sitt eigið mál og þegar fólk kaupir málið hjá okkur þá fær það frían drykk í málið. Þau mál sem við erum stoltust af koma frá Bretlandi og heita Keep Cup www.keepcup.com.

Þessi mál eru búin til úr endurunnu plasti. Þau eru hönnuð af kaffibarþjónum og eru til í öllum regnbogans litum sem gera þau áhugaverð og persónuleg fyrir fólk.  Við vorum að fá nýja sendingu af fallegum nýjum litum. Starfsfólkið var hér í gær eins og það hafði fengið nýjan lego kassa til að leika með.

Pappamálin sem við notum eru því miður gerð í Kína eins og flest af þessum málum sem eru notuð hér á landi. Einu sinni vorum við með frauð mál en fórum úr þeim og yfir í pappamálin. Á kaffihúsum okkar erum við með tveggjalaga mál sem eru gríðarlega sterk og góð og eru algjög gæðamál. Málin eru í samræmi við gæði kaffisins því okkur er annt um að þetta fari saman. Við eigum líka einslaga mál í 3 stærðum og við reynum að nota þau mál í allt annað en þegar við seljum kaffibolla (t.d. kynningar, hópaþjónusta o.fl.) Eins laga mál eru auðvita mun efnisminni en tveggja laga mál.

En okkar langtíma markmið er að minnka notkun götumála og að flestir verði með sinn eigin bolla eða ferðamál.“

Birt:
March 20, 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Kaffitár og mál málanna“, Náttúran.is: March 20, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/03/20/kaffitar-og-mal-malanna/ [Skoðað:Feb. 29, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: March 27, 2011

Messages: