Umhverfisstofnun hélt þann 26. febrúar 2009 málstofu um framtíð Svansins undir heitinu „Ert þú í Svansmerkinu?“ Umhverfisstofnun hefur umsjón með umhverfismerkinu Svaninum og stefnir nú að eflingu þess hér á landi á komandi árum. Málstofan var afar vel sótt en um 60 manns tóku þátt í því að koma verkefninu af stað.

Umhverfisstofnun kynnti áætlanir um eflingu Svansins ásamt drögum að kynningaráætlun fyrir 2009. Áhersla er lögð á gott samstarf við hagsmunahópa Svansins, þ.e.a.s. leyfishafar, seljendur, innflytjendur og ýmis hagsmunasamtök. Helstu skilaboðin til neytenda eru að Svansmerkið er traust val og að merkið stendur fyrir gæðavörur með minni skaðleg umhverfis- og heilsuáhrif en sambærilegar vörur.

Svansvottuð fyrirtæki og seljendur Svansmerktra vara sögðu frá sinni reynslu af Svansmerkinu. Af máli forsvarsmanna fyrirtækjanna var ljóst að Svansvottun hefur leitt til árangs og bættrar samkeppnishæfni fyrirtækjana. Meðal annars hefur Svanurinn haft jákvæð áhrif á ímynd Svansmerktra fyrirtækja, leitt til betri nýtingu hráefna og margskonar sparnaðar. Sjónarhornið „hagsýn húsmóður“ vakti sterk viðbrögð meðal fundarmanna á þessum síðustu og verstu tímum. Auk þess hefur Svansvottun haft í för með sér bætta ferlisstjórnun og betri þjónustu. Fyrirtækin fögnuðu því að Umhverfisstofnun ætlar að efla Svansmerkið og töldu sig betur stödd með Svansvottun.

Stundum leiðir vottunin af sér óvænt áhrif: Gaman er að segja frá því að viðskiptavinir fyrirtækisins Undra hafa tekið eftir því að þegar Svansvottaða línusápan þeirra er notuð á netin virtist fiskaflinn vera meiri. Talsmaður Sólarræstingar sagði meðal annars frá því að notkun verkjataflna við hausverk í skólum sem þau ræsta minnkaði talsvert eftir að fyrirtækið fór að nota Svansvottuð hreinsiefni.

Tillögur Umhverfisstofnunar hlutu góðar undirtektir og voru þær nánar ræddar í pallborðsumræðum. Fram kom meðal annars að nauðsynlegt er að móta gildi Svansins á Íslandi og koma þeim á framfæri til neytenda. Sum fyrirtæki sem hafa selt Svansmerkta vörur eða verið með Svansvottun hafa ekki fundið fyrir áhuga neytenda og því er afar mikilvægt að merkið og fyrir hvað það stendur sé betur kynnt fyrir almenningi. Umhverfisráðuneytið vakti athygli á að norræna ráðherranefndin telur Svanurinn best heppnaða verkefnið í norrænu samstarfi.

Loks var rætt um Svaninn og íslensk fyrirtæki sem og áhrif kreppunnar á eflingu Svansins. Fram komu áhyggjur um samkeppni milli erlendrar Svansmerktrar vöru og íslenskrar framleiðslu, einkum nú þegar verðlagið hækkar. Ánægjulegt er þó að segja frá því að Umhverfisstofnun hefur fundið fyrir auknum áhuga síðan byrjun ársins á Svansvottun meðal íslenskra fyrirtækja.

Fundarstjórinn Sigurður Örn Guðleifsson frá samtökum Verslunar og þjónustu dróg saman niðurstöður málstofunnar í þrjá lykilþætti:

  • Nauðsynlegt er að efla kynningastarfsemi Svansins og auka þekkingu Íslendinga á Svansmerkinu
  • Svanurinn hefur haft jákvæð áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja sem eru vottuð
  • Svanurinn er leiðandi meðal umhverfismerkja en ekki má gleyma öðrum umhverfismerkjum, s.s. Evrópublómið
Birt:
March 4, 2009
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Bjartsýni um framtíð Svansins“, Náttúran.is: March 4, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/03/04/bjartsyni-um-framtio-svansins/ [Skoðað:Jan. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: