Þjóðir heimsins sammæltust á ráðstefnu SÞ í Ríó um að stefna að sjálfbærri framtíð. Aðalritari SÞ boðaði útrýmingu fátæktar. Fulltrúar 190 ríkja skrifuðu undir samning um að koma á sjálfbærnimarkmiðum.

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sendi ákall til þjóðarleiðtoga, viðskiptalífsins og félagasamtaka um að útrýma hungri á jörðinni í ávarpi sínu á Ríó+20 ráðstefnu SÞ í Brasilíu. Ráðstefnunni lauk á föstudag og líkt og við var búist voru þar engar bindandi ákvarðanir teknar.

Aðalritarinn sagði að um 1 milljarður manna færi svangur að sofa á hverju kvöldi og við það yrði ekki unað. "Við getum ekki hvílst á meðan svo margir eru svangir í heiminum þegar nægur matur er til fyrir alla," sagði Ban Ki-moon.

„Einhverra hluta vegna er þessum mat ekki skipt á jafnan og sanngjarnan máta. Sumir lifa við velmegun en fólk á jaðrinum býr við hungur. Við vitum að þessu verður að breyta."

Nokkur viðbrögð urðu við ákallinu og til að mynda lofaði Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, 150 milljóna punda fjárframlagi í alþjóðlegan sjóð gegn loftslagsbreytingum, að sögn Guardian. Féð á að styðja við 6 milljónir bænda, aðallega í Níger og Eþíópíu.

Lokaskjal ráðstefnunnar olli miklum vonbrigðum. Samanburðurinn við fyrri Ríóráðstefnuna árið 1992 er ekki hagstæður, en þar tókst að vekja vitund alþjóðasamfélagsins á vandamálum tengdum loftslagsmálum. Lokaskjal Ríó+20 ber með sér að þjóðir heimsins vita af vandanum og því hvernig á að taka við hann, en eru ekki ennþá reiðubúnar til að skuldbinda sig til þess.

Eitt það mikilvægasta sem kom þó út úr ráðstefnunni eru sjálfbærnimarkmið (e. Sustainable Development Goals). Fulltrúar 190 ríkja skrifuðu undir samkomulag um að koma markmiðunum á fót.

Sjálfbærnimarkmiðin sækja fyrirmynd sína til Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, sem sett voru árið 2000, en þeim var sérstaklega beint gegn fátækt og örbirgð.

Markmiðin um sjálfbærni eiga að styrkja umsýslu umhverfismála á alþjóðavísu, efla verndun sjávar, auka fæðuöryggi og koma á fót grænu hagkerfi.

Allt eru þetta háleit og fögur markmið, en á meðan ekki fylgja fjármunir og lagalega bindandi samningar verða þau ekkert annað en fögur orð á blaði. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna leyfði sér þó að vera bjartsýnn.

"Ríó er ekki endastöðin, heldur upphafið. Upphaf ferlis skilgreininga á sjálfbærnimarkmiðum sem byggja á þúsaldarmarkmiðunum, til að vernda mannkynið og jörðina, til að skapa þá framtíð sem við óskum.

Frjáls félagasamtök ósátt

„Ein helsta þversögn Ríó +20 er að í lokaskjalinu er margsinnis áréttað mikilvægt framlag frjálsra félagasamtaka til sjálfbærrar þróunar, þau eru hyllt og starf þeirra lofað. En slíkur fagurgali virkar eins og sviksamlegt klapp á kollinn þegar ráðamenn hafa að engu kröfur umhverfis- og hjálparsamtaka um að vísindalegar niðurstöðu skuli liggja til grundvallar ákvarðanatöku, að fyrri samþykktir skuli virtar og þeim framfylgt.“

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, á íslenskri Facebook-síðu um ráðstefnuna.

Birt:
June 25, 2012
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Kolbeinn Óttarsson Proppe „Sjálfbærni er markmiðið en leiðin að því á huldu “, Náttúran.is: June 25, 2012 URL: http://www.nature.is/d/2012/06/25/sjalfbaerni-er-markmidid-en-leidin-ad-thvi-huldu/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: