Múlavirkjun verði lagfærð - Landvernd
Í frétt á vef Landverndar segir að samtökin hafi sent bygginganefnd Eyja- og Miklaholtshrepps erindi vegna Múlavirkjunar. Með erindinu er þess krafist að virkjunin verði lagfærð til samræmis við þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að virkjunin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Þann 7. nóvember 2003 tók Skipulagsstofnun ákvörðun um að Múlavirkjun skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Með því að byggja umfangsmeiri virkjun en til stóð hefur bæði verið brotið á skipulags- og byggingalögum sem og lögum um mat á umhverfisáhrifum. Stíflan var byggð hærri en til stóð skv. þeim gögnum sem lögð voru fyrir Skipulagsstofnun og eru umhverfisáhrif meiri en gengið var út frá þegar ákvörðunin var tekin. Af þessum sökum er hætt við því að virkjunin valdi tjóni á lífríki Straumfjarðarár sem og lífríki Baulárvallavatns. Vatnsborði Baulárvallavatns hefur verið lyft umtalsvert með framkvæmdinni og ekkert náttúrulegt rennsli er nú í Straumfjarðará á milli vatnsins og lónsins við stífluna.
Myndin er af árfarvegi neðan stíflunnar sem nú er nánast þurr í byrjun júlí en skv. áætlunum átti rennslið að vera um 30-40% af eðlilegu rennsli þessa árstíma. Myndin er af vef Landverndar.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Múlavirkjun verði lagfærð - Landvernd“, Náttúran.is: July 23, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/07/23/mlavirkjun-veri-fjarlg-landvernd/ [Skoðað:Oct. 4, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.