22 listamenn og hönnuðir sem stunda nám við listkennsludeild Listaháskóla Íslands fjalla um sjálfbærni á sýningu í Hugmyndahúsi háskólanna um helgina. Sýningin er lokahnykkur námskeiðs sem bar heitið Listir og sjálfbærni. Að sögn kennara þess, Ásthildar B. Jónsdóttur, fólst áfanginn meðal annars í því að rýna í opinbera stefnu um menntun til sjálfbærrar þróunar, meðal annars með hliðsjón af hugmyndum Sameinuðu þjóðanna um áratug til menntunar til sjálfbærrar þróunar. "Við skoðuðum mikilvægi lista til að auka skilning á sjálfbærri þróun og mikilvægi hennar. Það eru til fjölmargar skriflegar heimildir um sjálfbæra þróun en framsetningin er oft töluvert flókin. Hér er um annars konar og myndræna framsetningu að ræða," segir Ásthildur.

Sem dæmi um hvernig listamenn geta unnið listaverk sem benda á mikilvægi sjálfbærrar þróunar nefnir Ásthildur verkefnið 350 Earth en hluti þess er mynd Bjargeyjar Ólafsdóttur af ísbirni sem hún hugðist mála á Langjökul og greint var frá í Fréttablaðinu í fyrradag.

Verkin í Hugmyndahúsi háskólanna verða til sýnis laugardaginn og sunnudaginn 27. og 28. nóvember næstkomandi frá klukkan 14:00-17:00.

Birt:
Nov. 25, 2010
Höfundur:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Listamenn fjalla um sjálfbærni í Hugmyndahúsi háskólanna“, Náttúran.is: Nov. 25, 2010 URL: http://www.nature.is/d/2010/11/25/listamenn-fjalla-um-sjalfbaerni-i-hugmyndahusi-has/ [Skoðað:July 25, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: