Fáfnisgras
Drekakrydd er annað nafn á fáfnisgrasi, estragon heitir það á alþjóðamáli og flestir kannast við estragonedik. Það er til bæði rússneskt og franskt og það franska þykir eðlara. Fáfnisgras kemur snemma upp í gróðurskála en getur líklega vaxið úti við kjöraðstæður. Það má nota sem krydd á brauð með áleggi og í soðna rétti og fer vel með fuglakjöti. Sjálfsagt er að reyna að koma sér upp fjölærum kryddplöntum hvort sem er úti, í sólreit eða gróðurskála. Það má reyna salvíu, rósmarín, óreganó eða marjóram.

Garðablóðberg
Þetta er náfrænka blóðbergsins en bragðmeira. Sé blóðberg notað í uppskriftum þar sem talað er um garðablóðberg eða timjan þarf því að nota meira magn. Fljótlegra er þá að henda í pottinn heilli visk af blóðbergi en að tína af því laufin en þá þarf að veiða stilkana upp áður en borið er fram. Garðablóðberg má líka nota sem tejurt.

Hvítlaukur
Hann þroskast illa hér á landi en margir stinga honum niður með plöntum inni eða úti til að fæla burt óværu. Hann setur þá upp grannar blaðspírur með mildu hvítlauksbragði sem hægt er að nota þótt laukarnir þroskist ekki.

Karsi
Sagt er að karsa eigi að borða á kímblaðastiginu, þegar hann er bragðmestur, og enginn vandi sé að rækta hann inni í glugga í bómull. Samt tekst mér það aldrei, svo vel sé. Ég nota hann öðruvísi. Tek heilt bréf og sái þétt úti. Fræin úr heilu bréfi fara á svona 60 x 60 cm flöt, eða tvo helmingi minni. Sá má tvisvar með 3–4 vikna millibili. Karsinn er farinn að vaxa vel eftir fjórtán daga. Gott að fá hann upp um leið og salatið eftir að fyrstu villtu vorjurtirnar klárast. Ég sker svolítið ofan af honum á kímblaðastiginu en viku seinna fara raunverulegu blöðin að myndast. Þau eru örlítið bragðminni en kímblöðin, en þetta er feikigott krydd með salati – ekki alltof sterkt, auðtekið og stendur lengi. Að lokum vex karsinn úr sér og ræturnar allar í einni bendu og hann endar á safnhaugnum í byrjun ágúst en áður en það skeður má reyna að gera úr honum pestólíkingu. Karsi er ævinlega notaður hrár.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. 

Efri myndin er af Fáfnisgras (Artemisia dracunculus) en sú neðri af garðablóðbergi (Thymus vulgaris). Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
June 27, 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Fáfnisgras, garðablóðberg, hvítlaukur og karsi“, Náttúran.is: June 27, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/07/ffnisgras-garablberg-hvtlaukur-og-karsi/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 7, 2007
breytt: June 27, 2014

Messages: