Við þurfum nauðsynlega á hjálp ykkar að halda.

„Við“ erum nokkrir íbúar við neðri hluta Þjórsár þar sem áætlað er að reisa þrjár nýjar vatnsaflsvirkjanir þ.e. „Urriðafossvirkjun“, „Holtavirkjun“ og „Hvammsvirkjun“.

Þetta svæði og reyndar stórir hlutar alls Suðurlands er eitt virkasta jarðskjálftasvæði á Íslandi. Afleiðingar stíflurofs yrðu geigvænlegar fyrir allt svæðið en þó að stíflurof komi ekki til er ekki um öruggar framkvæmdir að ræða.

Stærsta vandamálið liggur í áætluðum lónsbotnum en þeir munu ekki halda tryggilega vatni þar sem sprungur, allt upp í 15 km djúpar, eru í berginu á lónssvæðunum sjálfum. Engin tækni gæti komið í veg fyrir leka og gert lónsbotnana fyllilega vatnshelda. Þetta þýðir í raun að áhrifa muni gæta í grunnvatnsstöðu á bújörðum á svæðinu allt í kring, sem muni aftur leiða til þess að ekki verði lengur hægt að nýta landið til hefðbundins búskapar. Afleiðingar fyrir íbúana yrðu bersýnilega að landið yrði verðlaust og fólk myndi flosna upp af jörðum sínum.

Hingað til hafa uppistöðulón aðeins verið gerð á óbyggðum víðáttumiklum svæðum þar sem framtíð búskapar er ekki stefnt í bráða hættu.
Verði af fyrirhuguðum virkjunum í neðri hluta Þjórsár myndi það brjóta blað í virkjanasögunnu. Íbúum svæðisins yrði vísvitandi uppálagt að annað hvoru búa við stöðugan ótta eða hreinlega yfirgefa bújarðir sínar. Á þessu fallega svæði búa margar fjölskyldur með börn. Hver tekur á sig 100% ábyrgð að ekkert við áætlaðar framkvæmdir stefni lífi þeirra og framtíð í voða?

Sjá upplýsingar “Faults and fractures of the South Iceland Seismi Zone near Þjórsá eftir Dr. Pál Einarsson jarðeðlisfræðing og prófessor við Háskóla Íslands.

Við biðjum um stuðning ykkar, þar sem við erum hrædd. Hræðsla sem er byggð á fengnum jarðfræðiupplýsingum um svæðið og getur því ekki talist óþörf. Hræðsla við afleiðingar sem þetta getur haft á líf okkar, eignir og framtíð.

Þó að þú búir ekki við Þjórsá gætu heimkynni þín einnig orðið fyrir barðinu á virkjanframkvæmdum í framtíðinni. Því er svo mikilvægt að samstaða verði um að koma í veg fyrir hamfarir með því að sameinast um hagsmunamál á afmörkuðum stöðum á landinu. Við munum standa með þér líka!

KÆRAR ÞAKKIR!

Skjalið sem PDF 

Myndin er tekin við Þjórsá. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
Sept. 13, 2007
Tilvitnun:
Nokkrir íbúar við Þjórsá „HJÁLP!“, Náttúran.is: Sept. 13, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/09/12/hjlp/ [Skoðað:June 24, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Sept. 12, 2007
breytt: Sept. 13, 2007

Messages: