Farfuglaheimilin taka þátt í Stund jarðar
Stund jarðar verður þ. 26. mars, klukkustundin á milli kl. 20:30 og 21:30
Stund jarðar er viðburður sem fólk, fyrirtæki og sveitarfélög taka þátt í um allan heim. Verkefnið hófst í Ástralíu árið 2007. WWF (World Wildlife Fund) stendur á bakvið verkefnið sem er einnig stutt af Sameinuðu Þjóðunum. Í fyrra tóku milljónir manna í 128 löndum þátt og stefnir í enn betri þátttöku í ár.
Á meðan á Stund jarðar stendur slökkva þátttakendur öll nauðsynleg ljós og vekja með því athygli á hnattrænni hlýnun og tengslum orkunotkunar og hlýnunar jarðar. Farfuglaheimilin á Íslandi taka þátt í ár með að slökkva ljósin og vekja þannig athygli gesta á málefninu. Meðan ljósin eru slökkt verður m.a. boðið upp á spil við kertaljós og draugasögur lesnar. Gestgjafar Farfuglaheimilanna efast ekki um að gestirnir hafi gaman af að taka þátt í verkefninu og hugsi um umhverfið, ekki bara á Stund jarðar heldur einnig í daglegu lífi bæði heima og að heiman. Prýðilega er staðið að umhverfisstarfi á heimilunum og sem dæmi um umhverfisfræðslu Farfugla fá allir gestir sem leigja bíl í gegnum Farfugla leiðbeiningar um vistakstur og græn ráð til ferðalanga er að finna á vefsíðu Farfugla www.hostel.is.
Farfuglar vona að sem flestir taki verkefnið upp á sína arma og hvetja alla til að taka þátt.
Sjá nánar um Farfuglaheimilið í Laugardal hér á Grænum síðum og önnur Farfuglaheimili á landinu með því að slá „Farfuglaheimili“ inn í leitarvélina hér ofarlega t.h. á síðunnu.
Sjá nánar um verkefnið hér Stund jarðar.
Birt:
Tilvitnun:
Ásta Krisín Þorsteinsdóttir „Farfuglaheimilin taka þátt í Stund jarðar“, Náttúran.is: March 25, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/03/25/farfuglaheimilin-taka-thatt-i-stund-jardar/ [Skoðað:Dec. 8, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.