Fíflablöð í salat
Fíflablöð eru mest notuð hrá í salat en sé hörgull á öðru grænu eru þau soðin í súpum og höfð í pottrétti. Blöðin má leggja í vatn í nokkrar mínútur áður en þau eru sett í pott, það dregur úr remmu. Blaðstöngullinn er beiskari en laufið sjálft og það grófasta af honum má rífa burt, hafi maður tíma til þess. Best er að leggja blaðið saman svo stöngullinn snúi upp eins og kjölur á skipi og byrja við miðjuna og strjúka blaðið frá stönglinum til beggja enda, þá vinnst verkið tiltölulega hratt.
Fíflablöð verða ekki leiðigjörn. Þau eru góð matjurt og hægt að nota þau með salatblöðum út júnímánuð og áfram, ef fíflarnir hafa verið slegnir og vaxið upp á ný . Það er vel skiljanlegt að franskir sjómenn, langþreyttir á vítamínskorti á skonnortunum, hafi bókstaflega ætt upp um móa, þegar þeir komust í land til að leita uppi fíflablöð, enda nota Frakkar mikið af sjálfgrónum plöntum til matar heima fyrir. Þjóðverjar kalla fíflablöð engjasalat.
Eftir Skaftáreldana ráðlagði þáverandi stiftamtmaður Thodal, sem var norskur og þekkti vel til búskapar og jurta, mönnum að nota fífilinn bæði í grauta og í salat til að vinna bug á skyrbjúg og fleiri kvillum og segir að hann hafi reynst vel, jafnvel betur en skarfakálið. „Hefir brúkun þess (fífilsins) og síðan haldizt við, þó helzt hjá þeim efnaðri í salati.“
Myndin er af túnfífil [Taraxacum officinale], ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur. Útgefandi: Bókaforlagið Salka.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Fíflablöð í salat“, Náttúran.is: June 24, 2015 URL: http://www.nature.is/d/2008/05/29/fiflabloo-i-salat/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: May 29, 2008
breytt: June 24, 2015