Íslendingar skila um tíu milljónum flaskna og dósa til Endurvinnslunnar í hverjum mánuði. Hlutfallið er 85 prósent af seldri vöru. Endurvinnslan endurgreiddi í fyrra 1,2 milljarða króna. Hver Íslendingur drekkur um eina flösku á dag.

Hlutfall einnota drykkjarumbúða sem skilað er til Endurvinnslunnar hf. er nú 85 prósent af seldri vöru. Fyrir hrun var hlutfallið 77 prósent árin 2007 og 2008, að sögn Helga Lárussonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem í fyrra greiddi til baka um 1,2 milljarða króna fyrir umbúðirnar.

„Við fáum í hverjum mánuði um tíu milljónir af því sem flokkast undir einnota umbúðir utan um gosdrykki, ávaxtadrykki, bjór og áfengi. Það þýðir að hver Íslendingur drekkur um eina flösku á dag að meðaltali. Þetta magn hefur minnkað um tvö prósent síðan mest var drukkið fyrir kreppu,“ segir Helgi.

Skilagjaldið hækkaði úr tólf krónum í fjórtán krónur um áramótin.

„Skilakerfið virkar í raun þannig að kaupendur geta fengið endurgreitt þær fjórtán krónur sem framleiðendur og innflytjendur leggja á vörurnar. Þetta gjald fylgir breytingum á neysluvísitölunni. Áður voru flöskur og dósir við alla vegarkanta. Þess vegna var ákveðið að setja þetta gjald á. Lögin um Endurvinnsluna snúast um náttúruvernd,“ greinir Helgi frá.

Endurvinnslan flytur út og selur allar plast- og álumbúðirnar og voru tekjurnar af sölunni rúmlega 200 milljónir króna í fyrra. Á hverju ári eru um 700 tonn af áli og 1.800 tonn af plasti flutt utan. Glerið er aðallega notað til landfyllingar og við undirbyggingu vega en það er jafnframt verið að gera tilraunir með notkun glermulnings í malbik. Verið er að reyna að finna fleiri leiðir til þess að endurvinna gler, að sögn Helga.

Fyrirtækið sér eitt um móttöku allra einnota drykkjarvöruumbúða og er með móttökustöðvar víða um landið.

„Okkur er gert að sækja um allt land og koma í útflutning. Flutningsgjöld af landsbyggðinni eru há og svo fá skipafélögin líka hluta af þessu. En menn geta bara ímyndað sér hvernig ruslahaugar landsmanna litu út hefði skilagjaldi ekki verið komið á.“

Helgi bendir á að góðgerðarfélög fái töluverðar tekjur af söfnun og móttöku einnota umbúða. „Við erum með góða samvinnu við ýmis þeirra og þau njóta stuðnings margra. Stuðningurinn við þau er víðtækur um allt land.“

Birt:
May 6, 2011
Höfundur:
ibs
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
ibs „Skila tíu milljónum umbúða á mánuði “, Náttúran.is: May 6, 2011 URL: http://www.nature.is/d/2011/05/07/skila-tiu-milljonum-umbuda-manudi/ [Skoðað:Oct. 5, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: May 7, 2011

Messages: