Basilíka
Ræktað krydd tekur við af villtu vorjurtunum, þegar líður á vorið. Þessi skemmtilega, einæra kryddjurt sést æ víðar í eldhúsgluggum. Hún vex vel í gróðurhúsum og fæst fersk frá innlendum framleiðendum. Ung kona í fjölskyldunni sáði basilíku nokkuð þétt í stórt blómaker innan við stofugluggann. Þar leið plöntunum vel framan af, en þær tóku því illa að láta planta sér út. Þá nýtti þessi ráðagóða húsmóðir plönturnar með því að grisja þær í nokkrar vikur svo aðrar fengju vaxtarrými og gerði svo pestó áður en allt fór í óefni. Svona fór hún að og slíka vandvirkni má vel hafa til hliðsjónar við sáningu almennt.
Sáning og umhirða
Það sem til þarf:
2 pottar 23 cm í þvermál
leirkúlur eða vikur
mold
plast til að setja yfir
bakki eða undirdiskur fyrir pottana
basilíkufræ – einn poki (fræin geymast ágætlega í kæli milli ára)
Setjið lag af leirkúlum eða vikri í botninn á pottunum. Fyllið þá af mold, en passið að skilja eftir gott borð, til að hægt sé að vökva vel. Þjappið moldina vel og vökvið þar til öll moldin er vel blaut. Stráið fræjunum jafnt yfir. Stráið svo þunnu moldarlagi yfir. Spreyið yfir, því fræin skolast til ef vökvað er með venjulegum hætti. Eftir 20–30 mínútur er ágætt að gá hvort fræin séu öll ofan í moldinni, því þá hafa þau tútnað út og sjást vel á yfirborðinu. Ýtið þeim þá niður í moldina, ef þarf. Setjið glært plast yfir, það kemur í veg fyrir að moldin þorni á meðan fræin eru að spíra. Þó þarf að fylgjast með því.
Komið pottunum svo fyrir í sólríkum glugga, en passið að hafa góðan bakka eða disk undir.
Eftir um það bil viku byrja fyrstu fræin að spíra. Þegar fyrstu blöðin, fyrir utan kímblöðin, eru komin vel í ljós er óhætt að taka plastið af en ég bíð yfirleitt þangað til fyrstu plönturnar eru orðnar það stórar að þær eru farnar að vaxa upp í plastið. Eftir að plastið er farið af þarf að fylgjast betur með vökvuninni og á sólríkum og heitum dögum gæti jafnvel þurft að vökva kvölds og morgna. Eftir 3–6 vikur er hægt að fara að tína stærstu plönturnar. Í stað þess að prikla og umpotta, þá tíni ég stærstu plönturnar úr pottunum og nota þær, til að gefa hinum vaxtarrými. Basilíkuplönturnar eru svo viðkvæmar að þær þola yfirleitt ekki umpottun. Með þessum hætti á ég ferskt basil alveg fram á haust. Þó hef ég þurft að skera upp um mitt sumar, því ég hef ekki haft undan að nota allt, og búið til pestó úr því. Þá hef ég líka skilið eftir minnstu plönturnar til að eiga ferskt áfram. Svo er ágætt að leyfa moldinni að þorna aðeins, þá verður þetta ekki eins subbulegt. Styðjið svo tveim fingrum sitt hvorum megin við stilkinn, alveg við moldina og dragið plöntuna upp. Þá raskast moldin minnst í kringum hinar plönturnar, sem verða eftir. Það má líka bara klippa plönturnar niður við moldina. Pestó er talið uppfundið í borginni Genóva á Ítalíu. Þá var basilíkan marin með grófu salti til að fá sem mest bragð úr jurtunum en nú er þetta oftast gert í matvinnsluvél. Það er athugandi að lesa þetta til að átta sig á hvernig mortél voru notuð og sama aðferð hefur átt við um hinar ýmsu lækningaplöntur.
Pestó að hætti Genóvabúa gert í mortéli
1 búnt af basilíkublöðum (ca. 30 lauf) sem eru við það að blómstra
1 handfylli af furuhnetum
2 hvítlauksrif
1/2 bolli jómfrúarólífuolía
2 matskeiðar af rifnum parmesanosti
1 hnífsoddur af grófu salti
Í mortéli (best að hafa marmara) skal vinna saman basilíku (ekki þvo hana, frekar þurrka með viskustykki ef hún er rök), furuhnetur (sem er búið að rista í ofni eða á pönnu), hvítlaukinn og grófa saltið. Frekar en að „morta“ þetta saman eins og venjulega í morteli þá er innihaldið kramið í hliðum mortélsins. Ostinum er svo bætt út í smám saman. Síðan er maukið sett í skál og olíunni hrært saman við með trésleif, litlu í einu. Niðurstaðan á að vera kremuð sósa með lifandi grænum lit. Þessi sósa er frábær með pastaréttum, minestronesúpum eða til annarra nota.
Pestó gert í matvinnsluvél
2 bollar fersk basilíka
1 bolli létt ristaðar furuhnetur
2 stór hvítlauksrif
1 bolli parmesanostur
1 bolli extra jómfrúarólífuolía
ögn af salti og ný malaður pipar
Setjið allt hráefnið, nema olíuna, í matvinnsluvél og maukið. Bætið olíunni smátt og smátt út í á meðan hrært er. Gott er að blanda saman rjóma og pestói til að búa til fljótlega og góða pastasósu. Í sumum uppskriftum er sítrónusafa bætt í. Sólveig Eiríksdóttir mathönnuður hefur bent á að matreiða má sterkt grænmeti eins og klettasalat á sama hátt og basilíku. Svolítið yfirsprottinn karsi getur líka gengið. Pestó er gott að hafa á sneiðar af hráum rófum og næpum. Það getur hresst upp á forrétt eða ostabrauðsneið eða svolítið bragðlitlar baunir.
Einföld basilíkusósa
Svona er basilíkusósa fyrir þá sem eiga ekki furuhnetur. Þá er basilíkan marin með hvítlauk og annað krydd notað með, t.d. ítölsk steinselja, og þetta er „bundið“ með ólífuolíu.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Mynd: Basilika, ung að dögum, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Basilíka“, Náttúran.is: June 9, 2014 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/07/basilka/ [Skoðað:Nov. 8, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 7, 2007
breytt: June 9, 2014