Ríkisstjórn Íslands hefur að tillögu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra samþykkt stefnumörkun Íslands um framkvæmd Samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Með gerð stefnumörkunarinnar er unnið að því að innleiða markmið samningsins í íslenska stjórnsýslu og vera heildarrammi um stefnumótun stjórnvalda sem lþtur að verndun og sjálfbærri nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni landsins.

Í stefnumörkuninni er lögð áhersla á 10 meginmarkmið og 27 aðgerðir í þeim tilgangi að koma stefnunni til framkvæmdar. Meðal áhersluatriða þar eru rannsóknir og vöktun, fræðsla, verndun lífríkis á landi og í ferskvatni, svæðisbundin verndun lífríkis í sjó, vörn gegn ágengum framandi tegundum, endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni, reglur um meðferð og dreifingu erfðabreyttra lífvera.

Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni

Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, sem haldin var í Rio de Janeiro árið 1992, skrifaði umhverfisráðherra Íslands undir Samninginn um líffræðilega fjölbreytni. Alþingi staðfesti samninginn 12. september 1994 og hann tók gildi 11. desember sama ár. Fjöldi aðildarríkja var upphaflega 154 en var 191 árið 2008. Nær allar þjóðir heims eru því aðilar að samningnum.

Með staðfestingu Samningsins um líffræðilega fjölbreytni gekkst íslenska ríkið undir viðamiklar alþjóðlegar skuldbindingar sem lúta að verndun og sjálfbærri nýtingu lífríkisins og jafnframt undir skuldbindingar er lúta að sanngjarnri skiptingu hagnaðar af nýtingu erfðaauðlinda. Samningurinn kveður þó skýrt á um að hvert aðildarríki hafi óskoraðan rétt yfir verndun og nýtingu eigin lífríkis. Samningurinn er rammasamningur um meginatriði sem eru útfærð í samþykktum aðildarríkjaþinga.

Ákvæði samningsins hafa ekki verið lögfest í heild sinni í einni löggjöf, en ýmis ákvæði hans hafa þegar verið sett í íslensk lög og verið höfð til hliðsjónar við gerð stefnumótandi áætlana, svo sem við stefnumörkun um sjálfbæra þróun og náttúruverndaráætlun. Árið 2001 var unnin grunnskýrsla um líffræðilega fjölbreytni landsins, ástand og stjórnsýsluumgjörð. Markmið stefnumörkunar Íslands sem nú liggur fyrir er að innleiða markmið samningsins í íslenska stjórnsýslu og vera heildarrammi um stefnumótun stjórnvalda sem lþtur að verndun og sjálfbærri nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni landsins.

Aðildarríkjaþing Samningsins um líffræðilega fjölbreytni (2000) og leiðtogafundur um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg (2002) hafa samþykkt að þjóðum heims beri að stefna að því að stöðva þá miklu rþrnun líffræðilegrar fjölbreytni sem átt hefur sér stað á síðustu áratugum. Ákveðið var að nota árið 2010 sem viðmið fyrir þetta metnaðarfulla markmið. Með heildstæðri stefnumótun, eins og 6. grein samningsins kveður á um, er reynt að koma til móts við þetta markmið og styrkja enn frekar framkvæmd samningsins hér á landi.

Stefnumörkunin á að vera rammi um stefnu og aðgerðir stjórnvalda hér að lútandi. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að fjalla með tæmandi hætti í stefnumörkun af þessu tagi um allt sem lþtur að verndun og nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni, heldur er reynt að skapa ramma utan um framkvæmd þeirra lykilákvæða samningsins sem kalla á aðgerðir.

Nefnd um stefnumörkun

Stefnumörkunin er unnin af nefnd sem umhverfisráðuneytið skipaði árið 2005. Nefndin var undir formennsku umhverfisráðuneytisins, en í henni áttu að auki sæti fulltrúar frá iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Náttúrufræðistofnun Íslands lagði til starfsmann nefndarinnar, Snorra Baldursson.

Nefndin efndi til samráðsfundar með lykilstofnunum og hagsmunaaðilum í september 2005 og málstofu í desember 2005. Drög að stefnumörkuninni voru kynnt á Umhverfisþingi í október 2007 og þar var boðið upp á að senda inn athugasemdir við drögin. Um 20 athugasemdir bárust og voru drögin endurbætt með hliðsjón af þeim og síðan haldinn samráðsfundur með þeim aðilum sem sendu inn sjónarmið sín.

Líffræðileg fjölbreytni

Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni skilgreinir hugtakið líffræðilega fjölbreytni sem: „breytileika meðal lífvera frá öllum uppsprettum, þar með talin meðal annars vistkerfi á landi, í sjó og vötnum og þau vistfræðilegu kerfi sem þær eru hluti af: þetta nær til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og í vistkerfum.“ Líffræðileg fjölbreytni spannar breytileika á öllum stigum lífsins, frá erfðavísum og tegundum til vistkerfa. Líffræðileg fjölbreytni spannar með öðrum orðum alla lifandi náttúru, einingarnar sem hún er byggð úr, birtingarformin sem hún tekur og þá lífrænu og ólífrænu ferla sem móta hana.

Líffræðileg fjölbreytni jarðar hefur orðið til við milljarða ára þróun allt frá því að fyrstu einföldu bakteríuformin litu dagsins ljós fram til dagsins í dag. Á langri vegferð hafa ný lífsform sífellt verið að þróast en önnur að líða undir lok. Fjöldi tegunda er einn mælikvarði á líffræðilega fjölbreytni. Um 1.750.000 tegundum hefur verið lýst en vísindamenn telja það aðeins brot af heildarfjölda tegunda í heiminum. Áberandi hópum lífvera svo sem háplöntum og hryggdýrum hefur verið best lýst. Þessir hópar innihalda þó aðeins um 3% af heildarfjölda tegunda í heiminum. Mestan fjölda tegunda er að finna meðal hryggleysingja, lágplantna og örvera.

Erfðabreytileiki, sem endurspeglast í stofnum og einstaklingum sömu tegundar, er undirstaða þróunar og aðlögunar tegunda að nýjum og breyttum aðstæðum. Erfðabreytileiki leggur einnig til ný afbrigði eða yrki í landbúnaði, líftækni, skógrækt og fiskeldi. Á þessu smæsta skipulagsstigi líffræðilegrar fjölbreytni er fjöldi flokkunareininga óendanlega mikill og þekking að sama skapi takmörkuð.

Stefnumörkun Íslands um framkvæmd Samningsins um líffræðilega fjölbreytni (pdf-skjal).

Heimasíða Samningsins um líffræðilega fjölbreytni.

Efri myndin er ef hellunoðra og sú neðri af sandsíli. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
Sept. 10, 2008
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Stefnumörkun Íslands um líffræðilegan fjölbreytileika“, Náttúran.is: Sept. 10, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/09/10/stefnumorkun-islands-um-liffraeoilegan-fjolbreytil/ [Skoðað:April 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: July 24, 2010

Messages: