Martröð í Draumalandinu
Landi er sökkt og náttúruverðmæti eyðilögð fyrir komandi kynslóðum. Mengandi stóriðja er það sem leggja skal áherslu á í atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar. Í þessu samhengi er athyglisvert að skoða hvað er framundan í stóriðjuáætlun ríkisstjórnarflokkanna og reyna að varpa ljósi á þær auðlindir sem verið er að ganga á og hvernig það hefur áhrif á heimilin í landinu.
Lok stóriðjustefnu?
Fyrir nokkru reyndi Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra að sannfæra landslýð um að stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar hefði lokið árið 2003. Ef málið er skoðað nánar á þessi fullyrðing sér enga stoð í raunveruleikanum. Á heimasíðu Alcoa má finna frétt frá 17. maí 2006 þar sem fjallað er um viljayfirlýsingu um áframhaldandi rannsóknir á frjárhagslegri hagkvæmni ný s álvers á Bakka við Húsavík. Að þessari yfirlýsingu stóðu Alcoa, Húsavíkurbær og ríkisstjórn Íslands1.
Ljóst er að álvæðingu Íslands er langt í frá lokið en í bígerð er bygging 250.000 tonna álvers í Helguvík, stækkun álversins í Straumsvík í allt að 460.000 tonn og a.m.k. 250.000 tonna álver á Bakka við Húsavík2. Norsk Hydro hefur einnig opnað hér söluskrifstofu og hefur gefið út þá yfirlýsingu að þeir séu að leita að tækifærum í áliðnaði á Íslandi3. Í sjálfu sér segja þessar tölur einungis hálfa sögu.
Mikilvægt er að átta sig á heildarþróuninni á síðustu árum. Árið 1995 þegar bæklingur á vegum markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar kom út um ,,Lowest energy prices” 4 var heildarframleiðsla á áli á Íslandi 100.200 tonn á ári5 en á þeim tíma var eina álverið í landinu í Straumsvík. Árið 2015 gætu Íslendingar verið að framleiða rúmlega 1,5 milljón tonn af áli sem er rúmlega fimmtánfalt meiri framleiðsla en árið 1995. Þá væru Íslendingar að skipa sér í hóp meðal helstu álframleiðenda í heiminum með 3-4% af heimsframleiðslu. Í skýrslu sem greiningardeild KB banka gaf út í október 2006 kemur fram að á árunum 2008-2013 verði fjárfestingar í stóriðju árlega á bilinu 50-60 milljarðar. Heildarfjármögnun á þessum árum yrði því upp á 300-360 milljarða6. Til samanburðar skal benda á að heildarkostnaður við Kárahnjúkavirkjun og byggingu álversins á Reyðarfirði er áætlaður um 200 milljarðar7. Því eru áætlaðar framkvæmdir núna sem jafngilda kostnaði við rúmlega eina og hálfa Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði. Fyrir 300 milljarða væri hægt að reka Háskóla Íslands í um 47 ár miðað við rekstrartekjur hans árið 2004 sem voru 6,4 milljarðar8. Össur stoðtækjafyrirtæki er með 1200 starfsmenn á 13 starfsstöðvum víðs vegar um heim. Það fyrirtæki er metið á um 40 milljarða og því er rúmlega sjöfalt meira fé eytt í yfirvofandi stóriðjuframkvæmdir en heildarverðmæti Össurar9.
Orka Íslands
Íslendingar eru þeirrar gæfu aðnjótandi að búa yfir miklum náttúrulegum orkuauðlindum. Vegna þessara þriggja framkvæmda sem fyrirhugaðar eru þarf að afla um 13 Terawattsstunda af orku10. Til samanburðar nota öll íslensk heimili um 0,8 Terawattstundir11. Þannig að með þessum þrem tilteknu álverum þarf að virkja meira en tífalt meiri orku en fer til venjulegra heimilisnota fyrir Íslendinga.
Talið er að heildarorkuforði Íslands sé um 50 Terawattsstundir ef öll fallvötn væru virkjuð og allur jarðvarmi nýttur12. Verði þessi álver byggð væru Íslendingar að nota um 29 Terawattstundir af orkuforða sem er einungis 50 Terawattsstundir. Þá værum við búin að ráðstafa um 60% af nýtanlegri fallvatna- og jarðvarmaorku landsins13. Í því samhengi er erfitt að sjá hvernig hægt er að útvega orku í framtíðinni fyrir annan iðnað vegna þess að orkubirgðir landsins eru ekki ótæmandi.
Mikil viðskiptaleg leynd hvílir yfir þeim raforkusamningum sem Landsvirkjun gerir við stóriðjurisana (Alcoa, New Century Aluminum og Alcan). Það er öllum ljóst að þessi fyrirtæki eru að fá orkuna á sérkjörum þar sem þau vilja frekar koma hingað en til Brasilíu og annarra þróunarlanda. Ótrúlegt er að skattborgarar þessa lands, sem jafnframt eru allir hluthafar í Landsvirkjun, fái ekki að vita um þau kjör sem málmbræðslunum bjóðast í þessum raforkusamningum. Hvernig stendur á því í lýðræðisríki að stjórnvöld sem aðhyllast frjálsan markaðsbúskap og kapítalískt stjórnarfar neita hluthöfunum um upplýsingar varðandi samninga fyrirtækisins?
Heimilin blæða
Fórnarkostnaður þjóðfélagsins fyrir 400 störf í álbræðslu á Reyðarfirði í eigu bandarísks auðhrings er mikill. Þessar miklu stóriðjuframkvæmdir, sem eru framundan, koma flestum íslenskum heimilum sérstaklega illa. Verðbólga hefur verið mikil undanfarin misseri og ekki er fyrirséð að hún muni lækka nema frekari stóriðjuframkvæmdum verði slegið á frest. Verðbólgan hefur verið langt yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans síðan um mitt ár 2004 í landi þar sem sagt er að ríki mikill stöðugleiki. Vextir hafa einnig hækkað upp úr öllu velsæmi sem torveldar fyrirtækjum í landinu að fjármagna sig, sérstaklega sprotafyrirtækjum. Stþrivextir eru komnir yfir 10% og vextir af yfirdráttarlánum, sem mörg heimili fjármagna sína neyslu á, eru langt yfir 20%. Gengi krónunnar hefur haldist mjög sterkt. Ákvarðanir stjórnvalda hafa því valdið að dregið hefur úr tekjum íslenskra útrásarfyrirtækja. Þessi fyrirtæki hafa því íhugað að flytja starfsemi sína úr landi.
Engin úttekt hefur farið fram á þeim þjóðhagslega ávinningi sem af stóriðjuframkvæmdunum hlýst, þó búið sé að leggja í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Stóriðjusinnarnir æða áfram í álvæðingu landsins án nokkurra skynsamlegra raka. Að mínu mati ætti að skoða þetta mál á hlutlausan og vitrænan hátt, til dæmis með því að skipa óháða rannsóknarnefnd þannig að hægt sé að draga fram sannleikann í málinu og varpa ljósi á ávinning þessara framkvæmda?
Sorglegt er að lifa við þá staðreynd að árið 2006 eru ráðamenn þjóðarinnar að beina þessu gjöfula og fallega landi inn á braut mikillar og óheftrar stóriðju. Landslag er eyðilagt án þess að lagt sé mat á verðmæti þess. Heimilin í landinu þurfa að borga brúsann í formi verðbólgu og hæstu vaxta sem um getur á byggðu bóli. Miklir stóriðjudraumar ríkisstjórnarflokkanna eru látnir rætast í stað þess að hlúa betur að sérfræðistörfum og hugviti. Mikilvægt er að staldra við og ígrunda hvert við erum að stefna og hvað við viljum leggja áherslu á í atvinnuuppbyggingu þjóðar sem hefur óteljandi tækifæri án álversvæðingar.
Ólafur Örn Pálmarsson
náttúrufræðikennari
1Alcoa á Íslandi 2006
2Áhrif álversframkvæmda 2006:1
3Vefur Ríkisútvarpsins 2006
4Goecco Travel Marketing Center 2006
5Hrannar Pétursson 2006
6Sérefni um stóriðjuframkvæmdir. Framvinda mögulegra stóriðjuframkvæmda 2006:1
7Morgunblaðið 2000
8Háskóli Íslands 2007
9Össur hf. 2007
10Sérefni um stóriðjuframkvæmdir. Framvinda mögulegra stóriðjuframkvæmda 2006:1
11Raforkuspá 2006-2030. 2006:18
12Bragi Árnason og Þorsteinn I. Sigfússon. 2004:11
13Sérefni um stóriðjuframkvæmdir. Framvinda mögulegra stóriðjuframkvæmda 2006:1
Heimildir
Áhrif álversframkvæmda. 2006. Greining Íslandsbanka, Reykjavík
Bragi Árnason og Þorsteinn I. Sigfússon. 2004. ,,Íslenskar orkuauðlindir og vetnisvæðingin.” Tímarit um raunvísindi og stærðfræði 2,2:9-16.
Heimasíða Alcoa á Íslandi. 2006, 17. maí. ,,Viljayfirlýsing um álver á Húsavík.” Vefslóð: http://www.alcoa.com/iceland/ic/news/whats_new/2006/2006_05_mou.asp (Sótt 5. desember 2006)
Goecco Travel Marketing Center. 1995. Lowest Energy Prices!! In Europe For New Contracts. Your Springboard Into Europe. PDF skjal
Háskóli Íslands. ,,Ársreikningur Háskóla Íslands 2004.” Vefslóð: http://www.hi.is/pub/rann/stadtolur/fjarmal/arsreikningur_04.htm (Sótt 15. janúar 2007)
Hrannar Pétursson. 2006. Tölvupóstur til höfundar, 16. janúar
Morgunblaðið. 2000, 24. maí. ,,Heildarkostnaður við álver og orkuframkvæmdir allt að 200 milljarðar.” Vefslóð: http://www.mbl.is/mm/frettir/-frett.html?limit=0;nid=
611204;gid=723 (Sótt 21. nóvember 2006)
Raforkuspá 2006-2030. Endurreikingar á spá frá 2005 út frá nýjum gögnum og breyttum forsendum. 2006. Orkustofnun, Reykjavík
Ríkisútvarpið. 2006, 16. nóvember. ,,Norsk Hydro vill reisa álver hér.” Vefslóð: http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item97037/ (Sótt 21. nóvember 2006)
Sérefni um stóriðjuframkvæmdir. Framvinda mögulegra stóriðjuframkvæmda. 2006. Greining KB banka, Reykjavík
Össur hf. ,,Um Össur.” Vefslóð: http://www.ossur.is/pages/389 (Sótt 15. janúar 2007).
Birt:
Tilvitnun:
Ólafur Örn Pálmarsson „Martröð í Draumalandinu“, Náttúran.is: Feb. 2, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/03/16/matrod_draumalandid/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 16, 2007
breytt: Nov. 27, 2014