MiðbærinnAusturstræti, Pósthússtræti og hluti Hafnarstrætis verða helguð hjólandi og gangandi vegfarendum frá og með föstudeginum 9.júlí og út ágústmánuð. Með þessu vilja borgaryfirvöld styðja við vistvænan ferðamáta og glæða miðborgina enn frekara lífi.

Undanfarin tvö sumur hefur Pósthússtræti verið lokað fyrir bílaumferð á góðviðrisdögum en það er liður í Grænu skrefunum í Reykjavík að bæta aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Þetta hefur mælst vel fyrir á meðal vegfarenda og veitingahúsaeigenda við Austurvöll enda skapast um leið betri aðstaða fyrir borgarbúa til að njóta sumarsins í miðborginni. „Veitingahúsaeigendurnir eru farnir að óska eftir því að götunni sé lokað fyrir bílaumferð og tengja auknar vinsældir Austurvallar við lokunina“ segir Pálmi Freyr Randversson hjá Umhverfis- og samgöngusviði.

Jón Gnarr borgarstjóri hyggst nýta tækifærið og rölta um nýju göngugöturnar um þrjúleytið í dag. Þá ætla Listhópar Hins hússins að troða þar upp á milli kl. 12.00-14.00 og Betristofa borgarinnar stendur einnig fyrir uppákomum.

Þar sem ekki verður hægt að leggja í bílastæði við þessar götur er ökumönnum bent á að meðal annars er hægt að leggja bílum í nærliggjandi bílastæðahúsum við Vesturgötu 7, í Kolaporti að Kalkofnsvegi 1, í kjallara Ráðhússins við Tjarnargötu og Traðarkoti við Hverfisgötu 20. Þá eru einnig bílastæði á Geirsgötuplaninu við Hafnarstræti.

Áfram verður opið fyrir gegnumakstur um Pósthússtræti frá kl. 08.00-11.00 á virkum dögum, einkum fyrir vöruafgreiðslu.

Birt:
July 9, 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Miðborgin helguð gangandi og hjólandi “, Náttúran.is: July 9, 2010 URL: http://www.nature.is/d/2010/07/09/midborgin-helgud-gangandi-og-hjolandi/ [Skoðað:May 28, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: