Slæmt færi í Reykjavík bitnar ekki aðeins á ökumönnum bifreiða heldur einnig gangandi og hjólandi. Nauðsynlegt er að fara varlega og vera á upplýstum ökutækjum því ökumenn bíla og hjóla mætast oftar en áður þegar færð og færi versnar í borginni. Umhverfissvið Reykjavíkurborgar biður alla hópa að sýna tillitssemi í umferðinni því samgöngukerfið á að þjóna gangandi, akandi og hjólandi.

Skþrir valmöguleikar í samgöngum eru meginatriði samgöngustefnu borgarinnar og er áherslan á raunhæft val á milli samgöngumáta ásamt því að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar á umhverfið og að efla vistvænar samgöngur. Brýnt er einnig að hver einstaklingur búi sig vel og sýni öðrum þolinmæði, því þegar færð er slæm þurfa hjólandi og akandi að mætast á sömu akreinum. Einnig þurfa gangandi oftar að stíga út á götu og því nauðsyn að vera með endurskinsmerki.

Notkun reiðhjóla yfir vetrarmánuðina felst auk varkárni í útbúnaði. Fullbúið reiðhjól að vetri til er búið nagladekjum, ljósum að framan og aftan og vatnsheldum töskum á bögglabera. Reiðhjólamaðurinn er búinn hlýjum hönskum, eyrnahlífum undir hjálmi, vind- og regnheldum þjálum galla, vatnsheldum skóm og endurskinsvesti eða -merkjum. 

Myndin er af Ráðhúsi Reykjavíkur á meðan á Listahátíð 2007 stóð. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Jan. 24, 2008
Tilvitnun:
Umhverfissvið Reykjavíkurborgar „Hvatt til tillitsemi í umferðinni - Reykjavíkurborg“, Náttúran.is: Jan. 24, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/01/24/hvatt-til-tillitsemi-i-umferoinni-reykjavikurborg/ [Skoðað:May 13, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: