Margir hafa endurskoðað val á sorptunnum við heimili sín eftir að sendur var út upplýsingamiði um breytta sorphirðu í Reykjavík um síðustu mánaðarmót. Fólk hefur ýmist skipt úr svörtum tunnum yfir í bláar tunnur undir dagblöð og sléttan pappa og/eða skipt yfir í grænar tunnur sem losaðar eru hálfsmánaðarlega.

Sorphirðugjald í Reykjavík tekur mið af gerð sorpíláta, fjölda og losunartíðni. Ársgjald fyrir svarta tunnu fyrir almennt sorp sem losuð er vikulega er 16.300 kr. Græn tunna fyrir almennt sorp sem er losuð á tveggja vikna fresti  kostar 8.150 kr. á ári. Lagerinn af þeim tæmdist þannig að einhver bið er eftir því að fá græna tunnu afhenta.

Auknar vinsældir bláu endurvinnslutunnunnar má rekja til þess að nú ný tist hún ekki aðeins undir dagblöð, auglýsingapóst, tímarit heldur einnig undir fernur, umbúðapappír, prentpappír, sléttan pappa og karton. Ársgjald blárra tunna er 7.400 kr og eru þær losaðar á þriggja vikna fresti.

Frá 2. febrúar 2009 hafa 74 bláar tunnur verið pantaðar hjá Sorphirðu Reykjavíkur og þær nú rúmlega 2000 í umferð. Frá sama tíma hafa 88 grænar tunnur verið pantaðar og eru þær nú rúmlega 2600. Svörtu tunnum hefur um leið fækkað um tæplega 200. Ennfremur má nefna að sorp frá  heimilum í janúar 2009 mældist 10% minna í samanburði við magnið í janúar 2008.

Bent skal á að notkun grenndargáma kostar ekkert og þá er að finna í þínu næsta nágrenni búir þú á stór-Reykjavíkursvæðinu. Sjá staðsetningu grænna og blárra grenndargáma næst þér hér á græna kortinu.

Birt:
Feb. 11, 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Margir endurskoða val á sorptunnum þessa dagana“, Náttúran.is: Feb. 11, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/02/11/margir-endurskooa-val-sorptunnum/ [Skoðað:Oct. 11, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Feb. 12, 2009

Messages: