Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ákveðið að veita liðlega eina milljón bandaríkjadala í styrk til vísindarannsókna sem tengjast CarbFix kolefnisbindingarverkefninu við Hellisheiðarvirkjun. Hann kemur verkefninu til góða í gegnum vísindamenn Columbia háskóla í New York. Hann er ein þriggja vísindastofnana, sem stendur að CarbFix verkefninu ásamt Orkuveitu Reykjavíkur. Hinar eru Háskóli Íslands og Rannsóknarráð franska ríkisins í Toulouse.

Styrkurinn er sérstaklega veittur til að nota kolefnissamsætuna C-14 sem ferilefni til að fylgjast með flæði og dreifingu koltvísýrings frá virkjuninni eftir að honum verður dælt niður djúpt í berglög í nágrenni við hana. Ennfremur verður styrkurinn notaður í kjarnaborun til að fá nákvæmar upplýsingar um hvar og í hvaða mæli koltvísýringurinn binst í basískum hraunlögunum. Samsætan hefur verið notuð í læknisfræðilegum tilgangi við eftirfylgni með lyfjagjöf en þekktasta notkun hennar er við aldursgreiningar á fornminjum.

Það var Steven Chu orkumálaráðherra Bandaríkjanna sem í síðasta mánuði tilkynnti um styrkveitingu til CarbFix og 14 annarra vísindaverkefna á sviði geymslu koltvísýrings í jarðlögum. Styrkirnir nema alls 21,3 milljónum Bandaríkjadala. Styrkurinn til CarbFix er að fjárhæð 1.015.180 dalir, sem svarar til tæpra 120 milljóna íslenskra króna. Mótframlag Columbia háskólans til tilraunarinnar er metið til liðlega 40 milljóna króna.

Um CarbFix
Koltvísýringur er algengasta gróðurhúsalofttegundin og er markmið verkefnisins að sýna fram á að hægt sé að binda hann varanlega á föstu formi í basalti. Í raun er leitast við að líkja eftir náttúrulegu ferli sem á sér stað á jarðhitasvæðum. Undirbúningur hefur staðið um nokkurra ára skeið og falist í fræðilegri vinnu, tilraunum á tilraunastofum og uppsetningu og prófun búnaðar á niðurdælingarsvæðinu. Þá hefur verið unnið að undirbúningi þess að skilja koltvísýringinn frá jarðgufunni sem nýtt er í Hellisheiðarvirkjun. Þetta er gert í sömu tilraunastöð og verður nýtt til að hreinsa brennisteinsvetni, eða hveralyktina, frá virkjuninni. Koltvísýringurinn verður leystur upp í vatni og veitt niður um borholu á svæðinu. Vaktað verður með nákvæmum mælingum hversu hratt og í hve miklu magni koltvísýringurinn binst basaltinu.
Niðurstöður þessa munu gefa til kynna hversu fýsileg aðferðin er til að glíma við loftslagsvandann.

Myndin er af Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Sept. 15, 2010
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Milljón dalir í CarbFix við Hellisheiðarvirkjun“, Náttúran.is: Sept. 15, 2010 URL: http://www.nature.is/d/2010/09/15/milljon-dalir-i-carbfix-vid-hellisheidarvirkjun/ [Skoðað:June 18, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: