Í fréttatilkynningu frá Umhverfisráðuneytinu segir:

Umhverfisráðuneytið hefur hnekkt ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð virkjun í Hverfisfljóti skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum. Telur ráðuneytið að umhverfisáhrif framkvæmdanna geti orðið umtalsvert og því verði ekki komist hjá því að fallast á kröfu kærenda* um að framkvæmdin sæti mati á umhverfisáhrifum.

Fyrirhuguð framkvæmd við virkjun Hverfisfljóts samanstendur einkum af gerð ný s 6-8 km vegslóða á svæðinu, niðurgrafinnar 900-1.400 metra langrar þrýstipípu, 100-150 fermetra stöðvarhúss, yfirfallskants, aðrennslisskurðar, frárennslisskurðar og um 15.000 rúmmetra efnistöku úr Hverfisfljóti til vegslóðagerðar vegna framkvæmdarinnar. Með nýrri vegslóð að virkjanasvæðinu verður farið yfir Skaftáreldahraun á um 7 km kafla, þar af um 2 km um úfið hraun, er ný tur verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Ráðneytið sendi kærurnar til umsagnar Umhverfisstofnunar, sveitarstjórnar Skaftárhrepps og Skipulagsstofnunar svo og framkvæmdaraðila. Umhverfisráðherra og starfsmenn umhverfisráðuneytisins þekktust einnig boð framkvæmdaraðila um vettvangsgöngu um fyrirhugað virkjunarsvæði.Í niðurstöðu ráðuneytisins segir m.a. að það taki undir þá afstöðu Umhverfisstofnunar að hraunið sé merkilegt á heimsvísu. Því þyki rök hníga að því að hagsmunaaðilum og almenningi gefist tækifæri til þess að gera athugasemdir og koma með ábendingar varðandi hina fyrirhuguðu framkvæmd í því lögbundna samráðsferli sem felst í mati á umhverfisáhrifum. Þá er það niðurstaða ráðuneytisins að áhrif virkjunarinnar á Lambhagafossa geti orðið umtalsverð og að sjónræn áhrif vegna framkvæmdanna geti orðið varanleg og óafturkræf á landsvæðinu.

Þá segir að þrátt fyrir fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir þyki þó ljóst að umhverfisáhrif framkvæmdanna geti orðið umtalsverð. Því verði ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar úr gildi og taka til greina kröfu kærenda um að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum.

Meðfylgjandi er úrskurður umhverfisráðuneytisins í heild sinni.

*Kærendur voru: Fuglavernd, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruverndarsamtök Íslands, Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, Pétur Þorleifsson, Bjarki Bragason, Helga Kristín Einarsdóttir, Rannveig Þorvaldsdóttir og Arnar Þorvaldsson.

Sjá frétt frá 23.07.2007 um málið hér á vefnum.

Myndin er af Lambhagafoss í Hverfisfljóti.

Birt:
Nov. 6, 2007
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Fallist á að virkjun í Hverfisfljóti sæti mati á umhverfisáhrifum“, Náttúran.is: Nov. 6, 2007 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/06/fallist-virkjun-hverfisfljti-sti-mati-umhverfishri/ [Skoðað:May 19, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: