Forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar, Jóhann Sigurjónsson, lýsir yfir í viðtali við mbl.is vonbrigðum vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra að auka þorskvóta á þessu fiskveiðiári um 30 þúsund tonn.

Forstjóri Hafró segir:

„Ef það gengur eftir sem lesa má úr tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins, að þessari aukningu fylgi viðlíka aukning á næsta ári, þá náttúrulega stefnir þetta uppbyggingarstarfinu í algjöra óvissu. Og það eru vaxandi líkur á að það langtímamarkmið að stækka hrygningarstofninn, sem ég held að allir hafi verið sammála um, hreinlega náist ekki. Það eru mikil vonbrigði. Tíðar breytingar á aflalreglunni í þorski, sem hafa óneitanlega verið á undanförnum árum, færa okkur augljóslega frá markmiðinu um uppbyggingu stofnsins og þeim markmiðum að veita atvinnugreininni meiri stöðugleika.“

Náttúruverndarsamtök Íslands taka undir orð Jóhanns Sigurjónssonar og benda á að með þessari ákvörðun tekur Einar K. Guðfinnsson – líkt og svo margir sjávarútvegsráðherrar á undan honum - lán hjá framtíðinni. Í besta falli er uppbyggingu þorsksstofnsins seinkað um mörg ár.

Framtíðarlán hafa af þessu tagi hafa reynst Íslendingum illa og tal ráðherra um ábyrgar fiskveiðar virðist hjóm eitt.
Birt:
Jan. 16, 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Tekið undir með forstjóra Hafrannsóknarstofnunar “, Náttúran.is: Jan. 16, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/01/16/tekio-undir-meo-forstjora-hafrannsoknarstofnunar/ [Skoðað:April 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: