Bændur í Kjósahreppi kvarta undan flúormengun frá álveri Norðuráls á Grundartanga. Þetta kemur fram í frétt Skessuhorns.

Samkvæmt umhverfisskýrslu Norðuráls er losun flúors út í andrúmsloftið frá fyrirtækinu meiri tvö síðustu ár en starfsleyfi fyrirtækisins heimilar.

Norðurálsmenn segjast nota hágæða hráefni í sína framleiðslu og bestu fáanlegu tækni við framleiðsluna. Í þeim rafskautum sem Norðurál notar er að þeirra sögn enginn flúor.

„Allri losun og umhverfisáhrifum álversins eru sett ströng mörk í starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Losun flúors, sem annarra efna, hefur ávallt verið innan settra marka. Á árunum 2006 og 2007, þegar gangsetning kera vegna stækkunar álversins stóð yfir, jókst losun flúors um tíma eins og eðlilegt er við slíkar aðstæður. Þessi aukning hefur ekki verið umfram það sem við var búist og heimild var fyrir. Umhverfi álversins er vaktað ítarlega af óháðum sérfræðingum með rannsóknum á lofti, sjó, grunnvatni, gróðri, dýrum og fleiru. Vöktun fer fram á yfir 100 stöðum í Hvalfirði. Flúormagn í grasi utan þynningarsvæðis hefur ætíð verið undir viðmiðunarmörkum,“ segir í tilkynningu frá Norðuráli. 

Birt:
July 19, 2008
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Bændur kvarta undan flúormengun frá álveri Norðuráls“, Náttúran.is: July 19, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/07/19/baendur-kvarta-undan-fluormengun-fra-alveri-norour/ [Skoðað:Feb. 25, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: