Jarðvegssýni tekin á Þingvöllum
Hótel Valhöll brann til grunna föstudaginn 10. júlí 2009. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands boðaði til fundar í kjölfarið með þeim aðilum er koma að málinu hvað varðar eignir, slökkvistarf, hreinsun og mengun. Talsvert vatnsmagn var notað við slökkvistarfið sem kann að hafa skilað óæskilegum efnum út í umhverfið. Ákveðið var að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, er hefur eftirlit með svæðinu, myndi framkvæma jarðvegsrannsókn til að kanna hugsanlega mengun. Sýni voru tekin af svæðinu og var eitt sent strax í rannsókn þar sem meðal annars verður leitað eftir þungmálmum og PCB. Ákveðið verður um framhaldið þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir. Niðurstaðna er að vænta í ágúst. Umhverfisstofnun vaktar lífríkið í Þingvallavatni og mun fylgjast með framvindu mála eftir því sem þörf er á. Hreinsun á svæðinu stendur yfir.
Myndin sýnir Valhöll sem brunarústir einar saman. Ljósmynd: Birgir Þórðarson.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Jarðvegssýni tekin á Þingvöllum“, Náttúran.is: July 20, 2009 URL: http://www.nature.is/d/2009/07/20/jarovegssyni-tekin-thingvollum/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.