Heitir, langir sumardagar hreyfa við einhverju í genunum, einhverju ævafornu, frá þeim tíma þegar formæður okkar og feður bjuggu sunnar. Þessi órói er í ætt við Eyjahafsins bláa sjó, dökkgræn lauf og skugg– sæla lundi, brauð, vín og ólífur, hina klassísku matarþrenningu. Olían er sögð tengja þetta tvennt, brauðið og vínið. Miðjarðarhafsmenningunni lýkur þar sem ólífulundina þrýtur, segir gamall máls– háttur. Þeir sem flæmdust norður á bóginn urðu að nýta sér smjörið þegar ólífuolíuna þraut. Það eru fleiri en ég sem leggja áherslu á að kaupa góða olíu og að sú sem ekki á að hita sé kaldpressuð og í dökkri flösku. Olían sem fer út á salatið og yfir grænmetið, sem við ræktum sjálf eða veljum vandlega í versluninni eða markaðinum, á að vera í gæðaflokki. Fyrir mörgum árum í henni Ameríku, þegar menn voru að vakna til skilnings um þetta, var bent á að menn vönduðu sig meira við valið þegar þeir væru að kaupa olíu á bílinn en fyrir eldhúsið og það var satt.

Jean Giono, sem er þjóðarskáld þeirra í Provence, sagði hreint út að vildi maður öðlast hárfínt bragðskyn á ólífuolíu yrði maður að setjast að í hinum víðfeðma skógi ólífuviðarlunda, þar sem einn tekur við af öðrum, og sem teygir sig allt frá Esterel og Les Maures til Vecors. Fólk í borgum sé ekki vant ágæti. Allt hafi þar yfir sér meðalmennskubrag og vænstu olíunni best lýst sem bragðlausri.

Gyðjan Aþena er sögð hafa kennt Grikkjum að rækta og nota ólífur, eins og Ísis kenndi Egyptum og Mínerva Rómverjum. Karlmennirnir, sem nú búa í ólífuviðarlundunum hans Jeans Giono og erja moldina, segja: „Þótt við setjum niður græðlingana þá eru það konurnar sem í árdaga fundu upp á því að safna saman þessum freistandi ávöxtum trjánna og reistu himinháa stiga til að fylla með þeim körfur sínar. Allur sá táknræni kraftur sem enn býr í ólífumenningu okkar er samofinn vinnu þeirra. „Ólífuviðargreinin er tákn friðarumleitunar. Ólífuviðartrén tengjast þannig helstu áhugamálum kvenna, friði fyrir áhrif Aþenu, vísindum fyrir áhrif Ísisar og heilagleika vegna Mínervu.

Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin fæst keypt hér á Náttúrumarkaðinum.

Birt:
Aug. 25, 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Aþena og ólífurnar“, Náttúran.is: Aug. 25, 2013 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/09/ena-og-lfurnar/ [Skoðað:Feb. 29, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 9, 2007
breytt: March 14, 2014

Messages: