Vínguðinn Díoný sus átti erfitt í æsku. Seifur eignaðist hann með gyðjunni Semele en Hera fyrirgaf ekki framhjáhaldið og gerði stráknum allt til miska. Amma hans, Rea móðir Seifs, reyndist honum þó vel. Díoný sus uppgötvaði vínið og eftir það gerði Hera hann vitstola. Þá tók hann að ferðast vítt um veröldina, allt til Indlands og aftur heim. Ferðir hans, sem tengdust útbreiðslu vínsins, og athæfi fylgjenda hans var þrungið vitfirringu og því sem í dag þættu heldur groddaleg partí, eins og þegar konur ærðust og engum var óhætt að verða á vegi þeirra, því þær slitu menn í sundur svo minnir helst á íslenskar skessur í æðiskasti. Vín var fyrst flutt inn til Grikklands frá Kþpur en villt uxu vínber á suðurströnd Svartahafsins. Það er talað um að Díoný sus hafi verið haltur, enda máltæki að menn hafi fengið í fótinn þegar þeir hafa smakkað það. Satþrar hétu fylgisveinar Díoný susar, nokkurs konar landsbyggðar– púkar, stundum hálfir mennskir og hálfir hestar, eða þeir höfðu hærða leggi eða geitabrjóst.

Þeir eltu dísirnar, lifðu makindalega, sváfu ýmist í sólinni eða svölum hellisskútum og voru kunnir fyrir kerskni og kvennafar. Af þeim er dregið nafnið satíra eða háðsádeila, sem segir dálítið um innrætið. Það eru fleiri en Hera sem hafa horn í síðu Díoný susar og telja hann brjálæðing. Þrátt fyrir það hefur víngerð heillað manninn lengi og Vínland ekki nefnt svona út í bláinn. Hannes Lárusson myndlistarmaður og kona hans Kristín Magnúsdóttir fara til berja á hverju hausti vopnuð tínum, venjulegum rafmagnsblöndungi og 25 lítra glerkútum. Við erum fljót að þessu, segir Hannes og gefur mér lýsingu. Ég fékk líka smakk frá fyrra ári og flýtirinn virðist ekki til vansa. Talið barst að merkingum því Hannes var orðinn svolítið óviss um hvað var í hverri flösku. Segist hættur að merkja með fínu miðunum og setja í mesta lagi litaða límpappírsdoppu og krota á árið. Rautt (eins og sölumiði á málverkasýningu) fyrir rifs. Gult fyrir hunangsmjöð sem Hannes gerir með mjaðjurt að sjálfsögðu. Blátt og grænt fyrir lyng- og heiðaber. Kristín sagðist merkja pokana með frystu jurtunum þeirra á sama hátt með litaðri teygju. Mismunandi lit fyrir hverja sort og losna þannig við að skrifa.   

Berjavín Hannesar
Tínið slatta af berjum og hreinsið aðeins lítillega, lyngið gefur líka bragð. Mega vera krækiber, bláber eða annað en blandið ekki saman tegundum. Rafmagnsblandarinn er með í för og berin eru sett í hann og „maukað“ eins hratt og vélin ræður við. Maukinu – allt að 7 lítrum – er komið í 25 lítra glerkút, alls ekki plastíláti. Í þetta fara 6 kg af sykri sem leystur hefur verið upp í heitu vatni og 4 muldar camdemtöflur leystar upp í vökva. Fyllt upp með kranavatni svo kúturinn verði ca. 3/4 fullur. Látið standa í 1–2 sólarhringa við stofuhita. Ger sett í – gjarnan hlutlaust eins og kampavínsger 1 pakki (eða samkvæmt leiðbeiningum nægjanlegt fyrir 25 lítra). Má setja í 1–2 kg rúsínur ef vínið er dökkt eða súltanínur ef vínið er ljóst. Rúsínurnar má líka setja í blöndunginn. Vel þroskaðir bananar (ca. 5–6 í 25 lítra) gefa berjavíni fyllingu, t.d. rifsberjavíni, og hunang líka. Ef hunang er notað, þá er hæfilegt að nota ca. 2 kg af hunangi á móti 4 kg af sykri. Bláberjavín þarf ekki fyllingu. Lokið með plasti og teygju um stútinn (eða gerlási). Látið standa við stofuhita. Hrist nokkrum sinnum á dag. Gerjun ætti að vera hröð og áköf og efnin á botninum lyftast. Þegar hægist um hröðustu gerjunina, eftir viku til tíu daga, er vökvinn síaður frá gegnum rör yfir í annað ílát. Hratið fjarlægt og kúturinn þveginn vel. Fyllsta hreinlætis þarf að gæta við öll ílát þegar lagt er í vín. Vínið sett aftur á kútinn sem nú verður að loka með góðum gerlás. Fyllt upp með vatni í axlarhæð á kútnum. Látið standa við stofuhita fram að jólum eða þorra. Þegar vínið er útgerjað byrjar það að botnfalla. Umhellið þá aftur eins og áður og hendið botndreggjum. Lokið enn með gerlási og fyllið kútinn upp með vatni. Geymið óhreyft, helst á köldum stað, til næsta hausts.
Birt:
Sept. 17, 2008
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Vín af berjum“, Náttúran.is: Sept. 17, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2007/11/09/vn-af-berjum/ [Skoðað:Sept. 16, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 9, 2007

Messages: