Loftslagsbreytingar er þema Samgönguviku í Reykjavík í ár. Borgaryfirvöld hafa beint sjónum að því að val á samgöngumáta hefur bein áhrif á umhverfi, heilsu og borgarbrag.
-
Samgönguvikan var sett á föstudaginn 15. og stendur fram á föstudaginn 22. september. Fyrir utan Ráðhúsið sýna bílaumboð „visthæfa og sparneytna bíla“ segir í dagskrá sem hefur verið vel auglýst í öllum miðlum. Með fullri virðingu fyrir átakinu og framtaki því að kynna visthæfa bíla meðfram uppákomum vikunnar, verður að segjast eins og er, að aðkoma að sýningunni er í meira lagi ábótavant. Eftir nokkra leit fann ég þrjá bíla, bak við Ráðhúsið, einn þ.e. gömul Volkswagen bjalla, var fyllt af hvönn, reyniberjum og Ericu pottaplöntum, sennilega til að undirstrika eða gera obbolítið og góðlátlegt grín að hugtakinu umhverfisvænir eða svokallaðir „visthæfir“ bílar. Allt í lagi með það. Þeir bílar sem teljast geta visthæf samgöngutæki og stóðu úti á bílastæðum við Tjarnargötu, einir og yfirgefnir, voru ein Toyota Prius bifreið, án nokkurra upplýsinga og ein Peugot bifreið. Lítill miði í framrúðu hins síðarnefnda gaf til kynna að hér væri um Peugeot 207 S16 HDi bifreið, orkugjafi: Diesel, eldsneytisnotkun: 4,8 l/100 km, CO2 útblástur: 126 g/km. Hefði hér ekki mátt standa betur að kynningu þeirra bifreiða sem best standa sig í visthæfni eða er metnaður umboðsaðila ekki meiri en þetta? Og er ekki um meira úrval að ræða á þessum framtíðarmarkaði? Hefði bílasýning með orkufreka jeppa litið öðruvísi út?

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Sept. 20, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Samgönguvika í Reykjavík - Loftslagsbreytingar“, Náttúran.is: Sept. 20, 2006 URL: http://www.nature.is/d/2007/03/19/samgonguvika_rvk/ [Skoðað:April 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 19, 2007
breytt: May 15, 2007

Messages: