Megnið af innfluttu eldsneyti Íslendinga er notað við fiskveiðar og í samgöngum eða um 90% af innfluttri olíu. Þessir tveir flokkar nota álíka mikið en hlutur samgangna hefur þó farið vaxandi með auknum fjölda bifreiða. Bifreiðaeign landsmanna hefur aukist úr 70 þúsund bifreiðum árið 1974 í 200 þúsund árið 2004. Akstur á hvern fólksbíl hefur minnkað samhliða þessari miklu fjölgun bifreiða og er nú áætlaður um 12.600 km/bíl á ári.
Árið 2004 voru 82% bifreiða með bensínmótor en 18% gengu fyrir díselolíu.

Árleg olíunotkun farartækja hér á landi er um 200 þúsund tonn sem er um 650 kg á hvern íbúa landsins. Það er mjög mikilvægt að leita allra leiða til að draga úr eldsneytisnotkun. Í fyrsta lagi er olíukostnaður stærsti orkuútgjaldaliður meðalheimila og í öðru lagi leiðir brennsla olíu til útblásturs gróðurhúsaloftegunda. Brennsla jarðeldsneytis stuðlar að neikvæðum loftslagsbreytingum sem er að verða stærsta sameiginlega umhverfisógn heimsins. Við bruna jarðefnaeldsneytis, sem að stærstum hluta er kolefni, myndast mikið magn koldíoxíðs (CO2). Koldíoxíð er ein þeirra lofttegunda sem valda auknum gróðurhúsaáhrifum en 70% af útblæstri koldíoxíðs er tilkominn vegna brennslu jarðefnaeldsneytis.

Í einni olíutunnu eru um 120 kg. Það þarf því að flytja inn tæplega 6 tunnur á ári fyrir hvern Íslending vegna notkunar í samgöngum.

Birt:
Jan. 11, 2008
Höfundur:
Orkusetur
Uppruni:
Orkusetur
Tilvitnun:
Orkusetur „Eldsneytisnotkun“, Náttúran.is: Jan. 11, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/01/11/eldsneytisnotkun/ [Skoðað:May 19, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 12, 2008

Messages: