Fyrsti fundur ný s umhverfis- og samgönguráðs var haldinn 12. febrúar. Ráðið hét áður umhverfisráð og fór einnig með hlutverk heilbrigðisnefndar. En með nýrri stjórnskipun hefur heilbrigðisnefnd Reykjavíkur verið skipuð og samgöngumál sem áður tilheyrðu Framkvæmdasviði færst yfir á Umhverfis- og samgöngusvið.

Gísli Marteinn Baldursson formaður ráðsins sagði breytinguna meðal annars fela í sér viðurkenningu á að samgöngumál séu umhverfismál. Umhverfis- og samgönguráð mótar stefnu í umhverfis-, náttúruverndar- og samgöngumálum, tekur ákvarðanir og gerir tillögur til borgarráðs. Sjónarmið umhverfisins eiga að vera í fyrirúmi við mat á valkostum og vera lykilþáttur í samráði við íbúa og hagsmunaaðila. Gísli Marteinn fagnaði jafnframt því að heilbrigðisnefnd væri aftur tekin til starfa, það leggði áherslu á sjálfstæði málaflokksins.

Í umhverfis- og samgönguráði sitja fyrir meirihlutann: Gísli Marteinn Baldursson formaður (D), Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir varaformaður (D), Ásta Þorleifsdóttir (F) og Helga Jóhannsdóttir (D). Fyrir minnihlutann sitja í ráðinu Dofri Hermannsson (S), Þorleifur Gunnlaugsson (V), Margrét Sverrisdóttir (óháð) og Jakob Hrafnsson (B) er áheyrnarfulltrúi.

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar er skipuð sex fulltrúum þar af einum tilnefndum af samtökum atvinnurekenda í Reykjavík. Egill Örn Jóhannesson er formaður nefndarinnar og er í forsvari um stefnumótun og ákvarðanir. Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar er Árný Sigurðardóttir og ber ábyrgð á framkvæmd, rekstri og stjórnsýslu eftirlitsins. Heilbrigðiseftirlitið tilheyrir Umhverfis- og samgöngusviði því heilbrigðismál eru umhverfismál.

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur

Í Heilbrigðisefnd sitja fyrir meirihlutann: Egill Örn Jóhannesson (F), Kristján Guðmundsson (D), Ragnar Sær Ragnarsson (D) og fyrir minnihlutann: Guðrún Erla Geirsdóttir (S), Garðar Mýrdal (S). Áheyrnarfulltrúi atvinnulífsins er: Ólafur Jónsson.

Frétt frá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkur.

Myndin er af Ráðhúsi Reykjavíkur. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
Feb. 13, 2008
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Fyrsti fundur haldinn í Umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur“, Náttúran.is: Feb. 13, 2008 URL: http://www.nature.is/d/2008/02/13/fyrsti-fundur-haldinn-i-umhverfis-og-samgonguraoi-/ [Skoðað:May 19, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: